Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu
Þriðjudaginn 13. nóvember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja þessa umræðu lengi. Ég tel að hún hafi verið gagnleg og ýmislegt komið fram sem skiptir máli. Kannski ýmislegt sem sjaldan og of sjaldan er rætt hér á hinu háa Alþingi.
    Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þær upplýsingar sem komu fram í hans síðustu ræðu. Ég tel það áhugavert að hann skuli taka þátt í þeirri ráðstefnu sem fyrirhuguð er og einmitt fjallar um þessi atriði. Vonandi kemur hann til með að skila hingað heim þeim lærdómi sem hann verður vísari á þeirri ráðstefnu.
    Ég vil rifja upp, virðulegi forseti, að ein af ástæðunum fyrir því að ég tók til máls var einmitt að vekja athygli á að við upphaf núverandi stjórnarsamstarfs leyfði hæstv. forsrh. sér að segja það í stefnuræðu að vestrænar leikaðferðir ættu ekki við hér á landi. Ég er sammála hæstv. viðskrh. að í stað þess að kalla þetta vestrænar leikaðferðir mætti kannski kalla þær frjálsar leikaðferðir og það er ugglaust íþróttalegra orðalag. En tímarnir hafa breyst. Nú er ekki verið að ræða um stefnu hæstv. ríkisstjórnar né þau orð sem þá voru látin falla. Nóg hefur verið gert í þeim efnum enda var það áður en brotinn var niður múrinn sem skildi að vestrænar þjóðir í Vestur - Evrópu og hinar sem voru fyrir austan járntjald.
    En vegna þess að hæstv. ráðherra talaði um það að markaðurinn væri tæki en ekki takmark vil ég þó benda á að frelsið sem markaðurinn hvílir einmitt á er í senn bæði tæki og takmark. Það er tæki eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra vegna þess að með frjálsræðinu, með meira frelsi, með markaðsskipulaginu getum við náð bættum lífskjörum. Það er tæki til þess að auka á sérhæfinguna, tæki til þess að hver og einn geti lagt sig fram og geti í sínu vali á hinum almenna markaði náð fram lægra verði og meiri gæðum og þannig bættum lífskjörum. En frelsið er líka takmark. Það er takmark vegna þess að í frelsinu sjálfu, því að vera frjáls, því að fá að velja, felst hamingjan, lífshamingjan að okkar áliti, a.m.k. margra, og þess vegna megum við ekki gleyma því að þótt frelsið sé tæki og sé gott tæki á markaðnum, tæki til þess að ná betri lífskjörum, þá er frelsið takmark í sjálfu sér einmitt vegna þess að frjáls maður er hamingjusamari en sá sem er ófrjáls.