Fjáröflun til vegagerðar
Þriðjudaginn 13. nóvember 1990


     Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 119 um breytingar á lögum um fjáröflun til vegagerðar, nr. 3/1984. Flm. auk mín eru hv. þm. Guðni Ágústsson, Ólafur Þ. Þórðarson og Alexander Stefánsson. 1. gr. frv. orðast svo, með leyfi forseta:
    ,,Á eftir 1. gr. laganna komi ný grein er verði 2. gr. og orðist svo:
     Greiða skal sérstakt innflutningsgjald --- hóffjaðragjald --- af hóffjöðrum. Gjald þetta skal nema 2 kr. á hverja hóffjöður. Innlendir framleiðendur skulu einnig greiða hóffjaðragjald. Innflutningsgjaldið skal greitt í tolli en gjalddagar innlendra framleiðenda skulu vera tveir, 1. janúar og 1. júlí ár hvert, en eindagi mánuði síðar.
     Hóffjaðragjald skal fylgja vísitölu byggingarkostnaðar.
    2. gr.: 2. gr. laganna, sem verður 3. gr., orðist svo:
     Gjöld samkvæmt ákvæðum 1. og 2. gr. skulu innheimt til ríkissjóðs. Tekjum samkvæmt lögum þessum skal einungis varið til vegagerðar samkvæmt vegáætlun nema tekjum skv. 2. gr. sem skal varið til að gera reiðvegi samkvæmt reiðvegaáætlun sem samgrh. lætur gera til fjögurra ára í senn í samvinnu við samtök hestamanna og sveitarfélaga. Ríkissjóður skal að auki leggja til gerðar reiðvega jafnvirði hóffjaðragjalds næsta ár á undan.
    3. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Frv. það sem hér um ræðir er flutt samhliða frv. um breytingu á vegalögum og þáltill. um gerð reiðvegaáætlunar.
    Með frv. til breytinga á vegalögum er Vegagerð ríkisins ótvírætt falið það verkefni að sjá um gerð reiðvega samkvæmt reiðvegaáætlun sem samgrh. lætur gera í samvinnu við samtök hestamanna og sveitarfélaga. Sú áætlun á að fela í sér forgangsröðun verkefna og vera gerð til fjögurra ára í senn.
    Það frv., sem hér er flutt, nær til tekjuöflunar vegna reiðvegagerðar. Reiðvegafé 1989 er um það bil 4 millj. kr. og engan veginn nægjanlegt til framkvæmda þegar hestamennska er svo vinsæl og vaxandi sem raun ber vitni og umferð ríðandi manna eykst jafnhliða umferð bifreiða.
    Frv. þetta gerir ráð fyrir að lagt verði á sérstakt ,,hóffjaðragjald``. Gera má ráð fyrir að 7 -- 8 þús. manns stundi hestamennsku um þessar mundir og eigi hver að meðaltali um fjóra hesta. Ef gert er ráð fyrir að 30 hóffjaðrir fari í járningu og járnað sé að jafnaði fimm sinnum á ári gæti tveggja króna gjald á hverja hóffjöður gefið tekjur til reiðvegagerðar sem nema um 10 millj. kr. á ári. Gert er ráð fyrir að gjaldið fylgi byggingarvísitölu. Þannig gæti féð ásamt reiðvegafé á fjárlögum bætt mjög úr og aukið framkvæmdir, en gera verður ráð fyrir að sveitarfélög verji nokkru fé einnig til reiðvegagerðar.
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í máli mínu er hestamennska mjög vaxandi og áhugi á hestamennsku mjög mikill. Gera má ráð fyrir að hann aukist enn á næstu árum. Ljóst er að gerð reiðvega hefur farið mjög hægt og nauðsynlegt að bæta þar úr. Ástæðan fyrir flutningi þessa frv. er fyrst og fremst sú að gera má ráð fyrir að í erfiðleikum ríkissjóðs verði óhægt að ná fram fé til reiðvegagerðar nema hestamenn leggi nokkuð af mörkum sjálfir. Með hverjum hætti það skal gert kann að orka að einhverju leyti tvímælis. Þær upphæðir sem hér er um að ræða eru ekki háar. Þó er það nokkru meira fé en varið hefur verið til reiðvegagerðar að undanförnu og mun bæta mjög úr ef að lögum verður að innheimta þessar tekjur. Hygg ég að þar með sé kominn rökstuðningur til að bæta frekar úr þessu brýna máli. Verji hestamenn sjálfir nokkru fé til framkvæmdanna er eðlilegt að ríkið leggi fé á móti. Ég ítreka það að gerð reiðvega er ekki dýr framkvæmd. Hún er hins vegar nauðsynleg og nauðsynlegt að gera um það forgangsáætlun með hverjum hætti þessar framkvæmdir verða. Þótt ekki sé hér um miklar fjárhæðir að ræða, í rauninni fjárhæðir sem engan munar um að greiða, munu þær valda mikilli breytingu á þessum málaflokki ef að lögum verður.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að máli þessu verði vísað til hv. fjh. - og viðskn. að lokinni umræðunni.