Almannatryggingar
Miðvikudaginn 14. nóvember 1990


     Flm. (Margrét Frímannsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingar á lögum nr. 67 frá 1971, um almannatryggingar, með áorðnum breytingum. Breytingin sem ég legg hér til að gerð verði á þessum lögum er við 1. málsl. 1. mgr. 57. gr. laganna, þar sem fjallað er um greiðslur tryggingabóta, og hljóðar svo: ,,Bætur skal greiða mánaðarlega, að jafnaði 1. hvers mánaðar.``
    Í 2. gr. frv. segir síðan að gildistími laganna skuli vera frá 1. jan. 1991. Í grg. með frv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Í 57. gr. laga um almannatryggingar er fjallað um hvenær greiða skuli tryggingabætur til tryggingarþega. Þar segir: ,,Bætur skal greiða mánaðarlega eftir á.`` Framkvæmd þessa ákvæðis laganna hefur verið með þeim hætti að greiðslur eru inntar af hendi 10. hvers mánaðar.
    Í því frv. sem hér er flutt er gerð sú breyting á 1. mgr. 57. gr. að ákvæði er sett inn þess efnis að bætur skuli greiddar mánaðarlega, að jafnaði fyrsta dag hvers mánaðar.
    Öryrkjar hafa óskað eftir því að þeir fái að njóta sama réttar og aðrir launþegar ríkisins sem nær allir fá launagreiðslur sínar fyrsta dag hvers mánaðar. Öryrkjabandalagið hefur farið fram á þessa breytingu og verið vel tekið en lagabreytingu þarf til þess að af þessu geti orðið.
    Áformað er að leggja fram frv. um breytingar á lögum um almannatryggingar sem hafa nú um árabil verið til endurskoðunar. Það frv. er hins vegar ekki komið fram og óvissa um innihald og afgreiðslu. Á meðan búa tryggingarþegar áfram við þessa níu dýru daga.
    Það er í raun sjálfsagt réttlætismál að greiðslur á tryggingabótum fari fram fyrsta dag hvers mánaðar, eins og greiðslur til annarra launþega, ekki síst í ljósi þess að gjalddagar ýmissa fastra útgjaldaliða heimilanna eru miðaðir við mánaðamót. Því er þetta frv. flutt hér að þessi hópur þjóðfélagsþegna fái þessa nauðsynlegu leiðréttingu á kjörum sínum.``
    Virðulegi forseti. Frv. þetta er ekki í löngu máli og skýrir sig í raun sjálft. Öryrkjabandalagið hefur ítrekað sett fram þessa sjálfsögðu kröfu um breyttan greiðsludag tryggingabóta, nú síðast við heildarendurskoðun laga um almannatryggingar, enda hefur það verið svo á undanförnum árum að nær öllum brtt. við þessi ágætu lög hefur verið vísað til þessarar heildarendurskoðunar laganna, bæði hér á hv. Alþingi og í viðkomandi ráðuneyti. Nú er afrakstur endurskoðunar að koma í ljós og má búast við að fjallað verði um þær brtt. sem þar er að finna hér í vetur. Það eru hins vegar ákveðin atriði sem ekki þurfa að bíða þessarar afgreiðslu en eru brýn réttlætismál fyrir þá aðila sem hlut eiga að máli.
    Erindi Öryrkjabandalagsins til heilbr. - og trmrn. um fastan greiðsludag hefur verið vel tekið en þó ekki afgreitt. Flestir launþegar fá laun sín greidd með mánaðarlegum greiðslum 1. hvers mánaðar. Það hefur haft

það í för með sér að gjalddagar ýmissa fastra útgjaldaliða heimila og einstaklinga taka mið af þessum útborgunardegi. Það hefur einnig gilt gagnvart bótaþegum þó að þeir fái ekki sínar greiðslur fyrr en 10. hvers mánaðar. Tryggingarþegar hafa því yfirleitt lent í vandræðum vegna fastra útgjaldaliða, þar sem gjalddagi er miðaður við mánaðamót, og hafa þurft að bera aukakostnað vegna þeirra daga sem líða þar til þeir fá sínar greiðslur. Því tala þeir oft um hina níu dýru daga.
    Ég hef ekki í höndum í dag hver kostnaður ríkisins yrði við að gera þessa breytingu. Hann mun verða einhver en þó líklega ekki mikill ef tekið er mið af þeim kostnaði sem tryggingarþegar hafa borið vegna þessa misréttis sem þeir hafa óneitanlega búið við.
    Á seinni árum hefur verið lögð áhersla á ýmsar úrbætur í málefnum þeirra hópa þjóðfélagsþegna sem ekki hafa notið réttinda til jafns á við þá sem hafa fulla heilsu, tíma og getu til að stunda vinnu til að sjá sér og sínum farborða. Það er því erfitt að skilja hvers vegna breyting sú sem hér er lögð til á lögum um almannatryggingar hefur ekki fyrir löngu síðan orðið að veruleika, ekki síst vegna þess að hér er um mikið jafnréttismál að ræða.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir að málinu verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn.