Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 14. nóvember 1990


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ég skildi ekki allar þær lykkjur sem komu á ræðu hæstv. félmrh. þegar hann var að bera saman hvaða kjör húsbyggjendur byggju við eftir því hvenær þeir keyptu sínar íbúðir. Það var að heyra á hæstv. félmrh. að þau greiðsluvandamál sem hefðu hlaðist upp hér á landi vegna íbúðakaupa eða bygginga væru til komin vegna laganna frá 1986. Það væri þungi þeirra sem hefði lent í sérstökum greiðsluerfiðleikum. En hæstv. ráðherra minntist ekki einu einasta orði á það að aðalþunginn af greiðsluerfiðleikalánunum á sér lengri sögu, á rætur sínar til þess að Alþfl. beitti sér fyrir því að öll húsnæðislán voru verðtryggð og vísitölutryggð að fullu. Þetta er ekki fyrsti húsnæðisráðherra Alþfl. sem hefur leikið Byggingarsjóð ríkisins grátt. Við munum eftir viðskilnaði Magnúsar Magnússonar meðan hann gegndi því embætti og við munum auðvitað líka eftir viðskilnaði Svavars Gestssonar.
    Ég veit satt að segja ekki hvað ég á að fara langt aftur í máli mínu til þess að hrekja einstakar fullyrðingar hæstv. ráðherra. Staðreyndin er sú að hæstv. félmrh. hefur vanrækt þær embættisskyldur sínar að treysta fjárhagslegan grundvöll Byggingarsjóðs ríkisins. Hann hefur fallist á það að framlög til þessa sjóðs af fjárlögum hafa verið skorin við nögl. Mig minnir að í fjárlagafrv. nú sé ekki ein einasta króna til Byggingarsjóðs ríkisins. Hann hefur vanrækt að afla fjár til þess að sjóðurinn gæti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart þeim mönnum sem höfðu sótt um lán úr sjóðnum samkvæmt þeim samningi sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu 1986. Og hann hefur með margvíslegum öðrum hætti unnið að því að skapa margvísleg og mjög mismunandi kjör þess fólks sem þarf að kaupa, leigja eða reisa sér hús. Við búum við margvísleg kerfi.
    Nú skulum við líta á eina fullyrðingu ráðherrans. Hann segir að þeir sem búi við húsbréf, samkvæmt þessu frv., muni búa við betri aðstæður en þeir sem keyptu hús samkvæmt lögunum 1986. Það væri fróðlegt að fá fyllri upplýsingar um það. Samkvæmt lögunum frá 1986 var gert ráð fyrir því að lán með 3,5% vöxtum til 40 ára mættu vera allt að 70% hjá þeim sem ekki áttu byggingu fyrir. Hér er talað um í 2. gr. fyrir allt að 75% af eðlilegu matsverði fasteigna ef matsverð er kr. 6,2 millj. eða lægra, fyrir allt að 4 millj. 650 þús. ef matsverð fasteignar er á bilinu 6,2 -- 7,l o.s.frv. Og enn er skorið niður ef c - liður er lesinn. Það er auðvitað alveg ljóst að þarna er verið að skerða möguleika húskaupenda og húsbyggjenda til lántöku.
    Það er líka alveg út í hött þegar ráðherra segir að það sé billegra, lægri greiðslubyrði á láni sem er með 7% vöxtum og afföllum að auki og er til 25 ára en lánið sem er til 40 ára með 3,5% vexti. Eigum við að hugsa okkur það að maður kaupi hús og þurfi að taka að láni hjá Húsnæðisstofnun 5 millj. kr. Benjamín Eiríksson skrifar um það í Morgunblaðið í gær þegar hann er að svara spurningum hæstv. forsrh. að stundum verði að tala barnamál. Ef vextirnir eru 7% af 5 millj. eru þeir sennilega 350 þús. á ári. Ef vextirnir eru helmingi lægri, 3,5%, maður deilir með 2 í 7 og fær 3,5 og deilir síðan með tveimur í 350 þúsund, þá verða vextirnir auðvitað helmingi lægri, 175 þús. kr. Ef við viljum svo leika okkur svolítið lengur. Greiðslubyrði af jafnháu láni, 5 millj. kr., sem er til 40 ára er 125 þús. kr. Greiðslubyrði af láni sem er upp á 5 millj. og er til 25 ára eru 200 þús. kr. Þó ég taki ekki tillit til neinna affalla sem eru á húsbréfum, þá eru vextir og greiðslubyrði af húsbréfaláninu 500 þús. en vextir og greiðslubyrði af láninu samkvæmt lögunum frá 1986 300 þús. kr. Það munar 200 þús. kr.
    Hvað skyldi nú t.d. kennari þurfa að vinna lengi fyrir 200 þús. kr. sem hann ekki ætti nettó? Skatturinn hjá ríkisstjórninni núna er kominn upp í 40%. 60% eru þá 200 þús. Við getum prófað að deila með 6 í 200. Þá fáum við út úr því 333 þús. 333 kr. eða 34 eftir því hvort ríkisféhirðir hækkar upp. Hver eru mánaðarlaunin hjá kennurum? Eru þau 60 þús. á mánuði? Ef þau eru það, þá tekur það kennara fimm mánaðarlaun að vinna fyrir þeim mismun sem er á greiðslubyrðinni samkvæmt lögunum frá 1986 og húsbréfunum. Þó tökum við ekki inn í dæmið afföllin á húsbréfunum. En hver eru þau? Áður en ráðherrann hækkaði vextina núna í nýja lánaflokknum, þá voru afföllin af húsbréfunum, með þeim sköttum sem ríkið tók, þó maður sleppi þinglýsingunni og þeim sköttum sem þar liggja, stimpilgjaldinu og öllu því, bara það sem var tekið í veðdeild Landsbankans og á þeim slóðum 12,33%. Þannig að af hverri millj. sem viðkomandi fékk í húsbréf tók ríkissjóður til baka 123 þús. 300 kr. Það er ekki svo lítið.
    Ég hafði staðið hér upp til þess að taka undir með hæstv. ráðherra að nauðsynlegt er að koma til móts við þá sem eru í greiðsluerfiðleikum. Fólk er í greiðsluerfiðleikum af ýmsum sökum. Fólk sem hefur verið að byggja, fólk sem á íbúðarhúsnæði, getur orðið fyrir margvíslegum áföllum sem hafa valdið því að fólki gengur illa að standa við skuldbindingar sínar. Það er auðvitað rétt hjá ráðherra að sumir sem keyptu íbúð, eða byggðu, og fengu lán samkvæmt lögunum frá 1986 hafa lent í greiðsluerfiðleikum. Það hefur líka fólk gert sem fær verkamannabústaði. Ástæðan fyrir því að fólk sem fær verkamannabústaði lendir í greiðsluerfiðleikum til að byrja með og þarf kannski á aðstoð að halda er mjög einföld. Það er ekki óalgengt ef fólk kaupir í verkamannabústöðum nýja íbúð, þriggja herbergja íbúð, að það þurfi að staðgreiða eina millj. áður en það fær að fara inn í íbúðina. Og auðvitað gefur það auga leið að fólk sem hefur verstu kjörin á erfitt með að standa undir slíkum greiðslum um leið og það kemur inn í íbúðina líka vegna þess að þetta fólk var illa undir það búið að leggja í slíka fjárfestingu.
    Ég get ekki séð, herra forseti, að þetta nýja kerfi sé betra en það gamla. Gamla kerfið var þannig að sá sem átti í greiðsluerfiðleikum fékk lán með 3,5% vöxtum, mig minnir til 40 ára, eða var það til 25? Sá

sem fær greiðsluerfiðleikalán nú verður að greiða 7% vexti og verður að sæta 10% afföllum samkvæmt yfirlýsingu ráðherra sjálfs. Ríkið byrjar því fyrst á að taka 100 þús. kr. af fyrstu milljóninni áður en hægt er að nota þessa peninga til þess að mæta greiðsluerfiðleikum. Ég er á hinn bóginn sammála hæstv. ráðherra um það að nauðsynlegt sé að koma til móts við þetta fólk og óverjandi að hrekja það út úr sínum íbúðum í aðrar íbúðir til þess að geta komist inn í húsbréfakerfið úr því að búið er að leggja niður, fyrir atbeina hæstv. ráðherra, þau eðlilegu húsnæðislán sem stofnað var til með lögunum frá 1986.
    En það er annað í þessu sem er nauðsynlegt að íhuga líka. Þegar lögin frá 1986 voru sett, og ég tala ekki um þegar tekjuskattslögunum var breytt þannig að húsnæðisbætur voru teknar upp í stað þess að hafa fjármagnskostnað frádráttarbæran, voru kjör manna á hinum almenna húsnæðismarkaði tiltölulega jöfn. Þegar við vorum að ræða um það að við ætluðum að reyna að halda vöxtum af húsnæðislánum niðri í 3,5% var það út frá þeirri hugsun að við gætum á hverjum tíma fylgst með því í gegnum fjárlagaafgreiðslu hversu háum fjárhæðum við verðum til þess að greiða niður vextina. Það var með öðrum orðum gert ráð fyrir því að leita eftir lánunum út á hinn almenna lánamarkað, til lífeyrissjóðanna. Síðan var hugmyndin að Alþingi legði í byggingarsjóðina nægilegt fjármagn til þess að ekki safnaðist upp, eins og nú er oft sagt, uppsafnaður vandi þar, til þess að Alþingi gæti á hverjum tíma
fylgst með því hversu niðurgreiðslurnar af húsnæðislánunum væru miklar. Og auðvitað var þetta rétt hugsun svo langt sem hún náði. Þetta var rétt hugsun ef gengið var út frá því að Alþingi og ríkisstjórn vildu horfast í augu við þær skuldbindingar sem ríkissjóður og byggingarsjóðirnir tóku á sig með því að fjármagna húsnæðiskerfið með kaupum á skuldabréfum úti á hinum frjálsa markaði, aðallega hjá lífeyrissjóðunum. Nú hefur það gerst á meðan þessi hæstv. félmrh. situr sem nú er að ríkisstjórnin hefur gefist upp við þetta verkefni. Ráð ráðherrans eru að hækka vexti á öllum þeim lánum sem veitt eru í gegnum Byggingarsjóð ríkisins.
    Við skulum aðeins núna átta okkur á hvernig myndin blasir við. Ef keypt er í gegnum félagslega kerfið --- og nú þarf ég auðvitað ekki að taka það fram hér í þessum ræðustól svo oft sem ég hef gert það að ég tel nauðsynlegt að við séum með verkamannabústaði, félagslegt kerfi, til þess að hlaupa undir bagga hjá þeim sem verst eru staddir, til þess að þeir geti eignast húsnæði, borið höfuðið hátt eins og hver og einn vill. Þeir sem eru í félagslega kerfinu, verkamannabústöðum, kaupleiguíbúðum, búsetaíbúðum, borga 1% í vexti og þau lán eru til 50 ára. Afborgunarlaus, ef ég man rétt, fyrstu tvö eða þrú árin a.m.k. verkamannabústaðirnir. Ef við tökum 5 millj. kr. lán þýðir það það að vextir eru 50 þús. og afborgun er 100 þús. á þeim lánum sem eru til 50 ára, 150 þús. kr. afborgun á ári. Við erum að tala um innan við 13 þús. kr. greiðslubyrði á mánuði af 5 millj.

kr.
    Síðan er annar málaflokkur fyrir næsta hóp sem ráðherra vill að hafi það gott, það heita búsetaíbúðir og ég held kaupleiguíbúðir sem ráðherrann vill að njóti sérstakra kjara. Þá erum við að tala um 4,5% vexti ef viðkomandi hefur mjög háar tekjur, má hafa eins háar tekjur og verkast vill. Ráðherrann hefur stundum talað mikið um tannlækna, það getur þess vegna verið að tveir tannlæknar gifti sig, þeir fá að búa við 4,5%, og eru ekki þau lán einnig til 50 ára? Er það rétt munað? Síðan kemur allur almenningur, þeir sem ekki falla inn í hugsjónaramma ráðherrans. Það er fólk sem á í greiðsluerfiðleikum. Það á að bera 7% vexti og 10% afföll. Og það eru aðrir þeir sem kaupa íbúðarhúsnæði úti á hinum almenna vinnumarkaði. Það fólk á að borga af 5 millj. 350 þús. kr. í vexti á móti 50 þús. kr. hjá þeim sem heppnastir eru.
    Nú sjá auðvitað allir að mismunun þegnanna af þessu tagi gengur ekki upp. Og alls ekki þegar svo er komið í fyrsta lagi að búið er að hækka tekjuskattinn svo að hann er orðinn 40% af tekjum. Með því sem lífeyrissjóðir og verkalýðsfélög taka til sín erum við farin að tala um 45 -- 47% af tekjum, fyrir utan það að ríkisstjórnin hefur mjög skorið við nögl það sem skattfrjálst er, fært skattleysismörkin niður á sl. tveimur árum. Síðan hefur skattbyrðin í landinu vaxið um 120 þús. kr. á fjögurra manna fjölskyldu. Fólk hér á landi núna sem lifir af launum sínum, kaupmáttur hefur rýrnað um 20%, hefur ekki fjármuni til þess að greiða þennan mismun bótalaust, hefur bara ekki peninga til þess. Og úr því að það er komið í ljós að ráðherrum og meiri hluta Alþingis hefur ekki verið trúandi fyrir því að passa upp á fjárhagslegan grundvöll byggingarsjóðanna er nauðsynlegt að vextir verði á nýjan leik frádráttarbærir í gegnum skattkerfið. Þá verður ríkissjóður þvingaður til þess að horfast í augu við þau útgjöld frá ári til árs sem því fylgir að hafa niðurgreidda vexti og koma þar með til móts við þá sem eru að reyna að eignast þak yfir höfuðið. Þá kemur auðvitað meira í hlut þeirra sem hafa þyngri vaxtabyrðina, þetta er augljóst. Eins og þetta er núna er húsnæðiskerfið byggt upp þannig að þeir sem búa við bestu kjörin að þessu leyti njóta mestu vaxtabóta og eftir því sem efnin vaxa og greiðslubyrðin þyngist af óhagstæðari lánum minnkar hagræðið og þeir sem verst eru staddir fá ekki eyri endurgreiddan. Ég veit að þetta er augljóst fyrir öllum þeim sem þekkja til þess að ungt fólk hefur svo lengi sem elstu menn muna reynt að koma fótunum undir sig hér á landi með því að vinna mikið, leggja mikið á sig og í gegnum þær tekjur sem mikil vinna skapar tekist að búa sæmilega vel um sig.
    Ég hygg, herra forseti, að ég hafi hér gert grein fyrir mínum sjónarmiðum með fullnægjandi hætti. Úr því sem nú er komið er óhjákvæmilegt að gefa fólki kost á að leysa úr greiðsluerfiðleikum sínum með húsbréfum. Auðvitað er það dýrari lausn en hin sem áður var, að veita greiðsluerfiðleikalánin eins og þau voru veitt, dýrari fyrir fólkið. En ríkisstjórnin hafði ekki

hug á að mæta þeim þörfum nú á þessu ári. Í orðaskiptum sem fóru fram milli mín og hæstv. ráðherra á vordögum kom fram að ríkisstjórnin hefur ekki hugsað fyrir því að mæta þörfum þeirra sem ekki höfðu lagt fyrir umsóknir um greiðsluerfiðleikalán í febrúar, ef ég man rétt. Það hefur ekki verið afgreitt eitt einasta greiðsluerfiðleikalán hygg ég í Húsnæðisstofnun í eitt ár eða svo, eða a.m.k. ekki hjá því fólki sem sótti um eftir 28. febr., kannski fyrr. Margir hafa lent í verulegum erfiðleikum af þeim sökum. Sumir eru nú við það að missa húsnæði sem höfðu ástæðu til að ætla að þeir gætu fengið úrlausn hjá Húsnæðisstofnun á þessu ári. Ég held því að það sé nauðsynlegt að hraða þessu frv., hæstv. forseti, um leið og einstök atriði eru gaumgæfð. Þetta er það sem þessi ríkisstjórn treystir sér til að ganga lengst fyrir þetta fólk og við megum auðvitað engan tíma missa til að koma því til hjálpar.
    Að síðustu aðeins þetta. Það er alltaf gaman að heyra hæstv. ráðherra fara með tölur. Ég tala nú ekki um þegar hæstv. ráðherra vitnar í einhverjar nefndir úti í bæ sem komast að þeirri niðurstöðu að það sé betra að borga 7% vexti en 3,5%. Ég er hins vegar ekki nægilega mikill, hvað á ég að segja, reiknimeistari til þess að ég nenni svona á stundinni að reyna að taka afföllin af húsbréfunum inn í dæmið en ég held að það væri greiði hæstv. ráðherra við það orðspor sem fer af málflutningnum að hætta þessum samanburði og reyna að halda sig við reikningslegar staðreyndir. Ég held að við verðum hér eftir sem hingað til að sætta okkur við að tvisvar sinnum tveir eru fjórir og tveir plús tveir eru fjórir og getum ekki breytt þeim grundvallarstaðreyndum í íslenskri reikningslist.