Námslán og námsstyrkir
Miðvikudaginn 14. nóvember 1990


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Eins og sést á þingskjali því sem hér er til umræðu er ég einn af meðflutningsmönnum og vil einungis ítreka stuðning minn við það. Allar skýrslur sýna svo ekki verður um villst að töluvert skortir á menntun fjölmargra einstæðra mæðra og skýring liggur afar nær. Konur hætta oft í skóla vegna barneigna, vegna þess að ábyrgðin virðist lögð á þeirra herðar fremur en föðurins og er það alkunn saga og þarf ekki að fjölyrða um það. Og þó að von okkar allra sé að slík viðhorf kynnu að breytast þá virðist nú vera dálítið í það.
    Ég held að almennt sé það mikið áhyggjuefni hvernig aðbúnaður margra íslenskra barna er, allt of margra. Það nægir að nefna að um 10.000 börn í landinu eru nú alin upp hjá einstæðu foreldri. Og þegar við lítum á það að við lifum í þjóðfélagi þar sem tvo einstaklinga þarf til að vinna fyrir heimili svo að nokkur mynd sé á segir sig sjálft að þessi 10.000 börn búa við allt aðrar aðstæður en önnur börn í landinu. Og það er auðvitað atriði sem okkur ber að líta á.
    Gerðar hafa verið ýmsar tilraunir til að greiða fyrir einstaklingum sem hafa orðið út undan í skólakerfinu. Minnist ég þess að ákvæði var og er held ég enn þann dag í dag í lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð að veita megi styrki til endurmenntunar en sannleikurinn er nú sá að að þeim sjóði hefur verið svo kreppt að ég hygg að minna hafi orðið úr því en til var ætlast og getur hv. 11. þm. Reykv. e.t.v. upplýst það betur en ég, en einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að það ákvæði hafi lítið nýst, allt of fáum. Hér er því alveg tvímælalaust atriði sem þarf úr að bæta ef við ætlum að búa öllum börnum í þessu þjóðfélagi sem svipuðust uppeldisskilyrði.
    Í þessu sambandi vil ég einungis vekja athygli á því, og mun gera það enn frekar þegar ég tala innan nokkurra daga fyrir frv. til laga um umboðsmann barna, að ég hef miklar áhyggjur almennt af stöðu íslenskra barna í þjóðfélaginu. Ég held að við stingum öll höfðinu í sandinn og trúum því og teljum okkur trú um það að þar sé allt í lagi en ég held að það sé langt því frá og ástandið í barnaskólum landsins er á þann veg að ég held að hið háa Alþingi verði nú að fara að ræða þau mál í einhverri alvöru. Við skulum ekki lengur telja okkur trú um að það sé allt í lagi með uppeldi íslenskra barna. Hvenær sem við heyrum eitthvað um vandamál skólanna eða heyrum í börnum komumst við að raun um að þessi mál eru á miklu, miklu verra stigi en okkur óraði fyrir, þó við kunnum, mörg okkar, að hafa haft grunsemdir um ýmislegt slíkt. Nægir þar að nefna t.d. atriði eins og málþroska sem er satt að segja að verða skelfilegur. Ég veit ekki hvort menn vilja trúa því eða vilja horfast í augu við það að hér er að alast upp stór hópur af börnum sem kann ekki að tala. Og fólk sem ekki kann að tala kann ekki heldur að lesa. Það er ekki af því að þessi börn séu neitt heimskari en börn hafa verið heldur hefur enginn tíma til að tala við þau. Þau heyra ekkert tungumál nema í hæsta lagi úr

erlendum fjölmiðlum og það segir sig sjálft hvaða áhrif þetta hefur. Við erum að ala upp, eins og aðrar þjóðir í kringum okkur, lágstétt sem fylgist ekki með í þjóðfélaginu, lágstétt sem getur ekki fylgst með. Hún kann að hafa skoðanir á hlutunum en hún kann ekki að tjá þær, hún kann ekki að skýra sitt mál. Ekki alls fyrir löngu horfði ég á sjónvarp þar sem nokkur börn voru að tala og ég verð að segja það hreinskilnislega að mér féll allur ketill í eld. Þar var ekki annað sýnna en að börnin væru að tala táknmál eins og fatlað fólk. Nokkur barnanna voru ófær um að koma frá sér heilli setningu, gripu til líkamstjáningar, sem auðvitað er nýtileg þegar um heyrnarlaust fólk er að ræða eða mállaust en skelfilegt að horfa upp á þegar um er að ræða barn sem á allan hátt er líkamlega vel á sig komið.
    Ég held að við hér á hinu háa Alþingi höfum allt of lengi lokað augunum fyrir þessu. Við könnumst öll við það að þegar málefni barna ber á góma höfum við venjulega setið hér, kvenkynið í þessum virðulega þingsal, og talað hver við aðra en minna borið á áhuga annarra hv. alþm. Ég held hins vegar að hér séum við komin á krossgötur þar sem við verðum einfaldlega að fara að velja leiðina út.
    Þessi umræða hefur verið mjög á dagskrá í Danmörku á síðustu árum. Danir eru heiðarlegri en við. Þeir hafa bara ósköp einfaldlega sagt: Þetta er of seint. Við erum búin að missa af lestinni. Við bara sættum okkur við þetta. Ég trúi ekki að Íslendingar séu komnir svo langt út á villigötur í þessu efni að við getum ekki snúið við ef við viljum. En það er auðvitað ekki sýnilegt að mikið sé gert í því á meðan við reynum að halda sem allra mest niðri kennarastétt landsins sem hefur nú axlað þennan klafa eins og hægt er að ætlast til. Auðvitað getur hún þó aldrei komið í staðinn fyrir foreldra barnanna og heimilin. Ég held þess vegna að hvert einasta mál sem styrkir heimili íslenskra barna á einhvern hátt beri að styðja. Og þetta frv. er eitt af þeim. Við verðum að bæta hag einstæðra foreldra í þessu landi því að hann nálgast ekki þær aðstæður sem fólk í sambúð hefur. Þar með er ég ekki að segja að þeir foreldrar sem einstæðir eru séu síður samviskusamir. Þeir reyna áreiðanlega allt hvað þeir geta að sinna sínum börnum einmitt vegna þess að þeir vita um lakari stöðu. Um það ætla ég ekki að gerast dómari, en hitt er annað mál að það leiðir af sjálfu að það er mikilsvert að fólk sem er eitt um að bera ábyrgð á uppeldi barna sinna hljóti öll þau skilyrði sem þjóðfélagið getur boðið upp á. Og þess vegna getur það ekki verið slíkur útgjaldaliður hins íslenska ríkis að styðja við bakið á þeim einstæðu foreldrum sem þennan kost kjósa að það komi fjárhag þjóðarinnar til skaða. Ég vænti þess því að hv. alþm. afgreiði þetta mál fljótt og vel ásamt þeim öðrum málum sem hér munu koma til umræðu á næstu dögum og snerta hag íslenskra barna.