Námslán og námsstyrkir
Miðvikudaginn 14. nóvember 1990


     Pétur Bjarnason :
    Herra forseti. Varðandi frv. það til laga sem hér liggur fyrir tel ég að hér sé hið besta mál á ferðinni og vil gjarnan, fyrir mitt leyti, mæla með því að það verði samþykkt. Það hefur verið gerð ágæt grein fyrir því hér og ég kom ekki upp fyrst og fremst til þess. Ég vildi þó reyndar vekja athygli á að það er smámisræmi, eftir því sem mér virðist, í greinargerð hvað snertir einstæða foreldra í landinu. Þar er sagt að þeir séu alls 7.500, þar af rúmlega 500 einstæðir feður en 7.000 einstæðar mæður, en af tölum sem á eftir koma að dæma hafa þessir 500 feður ekki nema um 300 börn til þess að annast svo að ég fæ ekki alveg séð hvernig þetta kemur heim og saman. Hér er sennilega um prentvillu að ræða sem ég vek athygli á, efst á bls. 2.
    Tilefni þess að ég kem hérna upp eru ummæli hv. 13. þm. Reykv. sem hér féllu og alls ekki að ástæðulausu og er þetta ekki í fyrsta sinn sem þau eru viðhöfð um grunnskólana, en hv. þm. sagði að í grunnskólunum væru menn meira og minna ólæsir, óskrifandi og ófærir um að tjá sig. (Gripið fram í.) Þá hef ég kannski tekið rangt eftir, en að þarna væru nemendur sem þetta mætti segja um. Þeir væru ólæsir, óskrifandi og ófærir um að tjá sig í ræðu eða riti. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. 13. þm. Reykv. og ekki kem ég hérna upp til þess að hnekkja þessu, síður en svo. Hins vegar vil ég árétta það að ekki má alhæfa um of og það má ekki líta svo á að þetta eigi við um grunnskólanemendur á Íslandi almennt, síður en svo.
    Mig langaði hins vegar aðeins, og til þess kom ég hér upp, að velta vöngum yfir þessu: Hvernig má það vera að svona sé þó til í skólunum? Hvaða aðstæður eru það í grunnskólum Íslands sem valda því að ummæli eins og þessi er kannski ekki með öllu hægt að hrekja og það er illt? Það er vafalaust mjög margt sem kemur til greina, en það sem ég vildi nú kannski byrja á núna að nefna hér á þinginu er sú staðreynd að grunnskólarnir hafa verið eins konar afgangsstærð í íslenska ríkiskerfinu alllengi, og eru enn, með þeim afleiðingum að okkur gengur alls ekki neitt að fá fólk til þess að vinna þar, síst úti á landi. Það gengur betur hér í þéttbýlinu. Þetta rímar kannski svolítið við þau ummæli sem hér féllu áður, hjá hv. 13. þm. Reykv. líka, um mjúku málin og hverjir sætu hér í þingsölum þegar rætt væri um þessi mjúku mál, um skólamál, um málefni barna og kvenna, einstæðra foreldra. Það er nefnilega orðið þannig að þessi málefni, málefni grunnskólans, eru að því leyti orðin mjúk mál að það eru fyrst og fremst konur sem þar starfa og það er kannski eðlilegt að þess vegna séu það konur sem hafi meiri áhuga á því sem þar gerist. Þetta er þróun sem hefur orðið á mörgum árum og margir vilja kenna það launastefnu sem rekin hefur verið í íslenskum grunnskólum.
    Nú er gott tækifæri til þess hjá alþingismönnum að gefa þessu gaum því að ég veit að hér liggur til skoðunar og umsagnar álitsgerð frá fræðslustjórum um kennaravandann á landsbyggðinni og þar með tilmæli

til alþingismanna, hvort þeir vilji ekki leggja þessu máli lið og veita fjármagn til þess að reyna að bæta úr. Ég reikna ekki með því að það muni leysa allan vandann en það gæti þó orðið upphaf að sókn til þess að fá fólk aftur inn í grunnskólana vegna þess að við eigum nóg af kennurum. Við eigum nóg af menntuðum kennurum í landinu til að starfa í grunnskólunum. Það sem vantar er fyrst og fremst að fá þá þangað til starfa. Og það er dálítið sérkennilegt að við erum á sama tíma að ræða um kennaravandann á landsbyggðinni og vanda heilsugæslulækna á landsbyggðinni við H1-stöðvarnar. Þetta er hvort tveggja mikið vandamál. Þetta er hvort tveggja mikið nauðsynjamál að leysa.
    Við erum að tala um launamál þessa fólks og án þess að ég ætli að halda því fram að heilsugæslulæknar séu ofhaldnir með allt það álag sem á þeim hvílir, þá miklu ábyrgð sem þeir verða að sinna, viljum við samt upplýsa að það þarf eina 4 -- 6 grunnskólakennara til þess að hafa laun eins heilsugæslulæknis. Þetta skyldu menn aðeins hafa í huga þegar verið er að tala um að kennarastéttin sé kannski stundum með óheyrilegar kröfur. Það er síður en svo.
    Launamál eru alls ekki allt í þessu. Það er fleira sem við skulum skoða í þessu efni. Fyrir nokkrum árum var tekin upp blöndun í bekki sem þýðir það að við röðum ekki í bekki eins og gert var hér áður fyrr. Þegar ég byrjaði að kenna var A - bekkur, B - bekkur, ég byrjaði í skóla sem í voru 1.500 börn hér í Reykjavík, og langt aftur eftir stafrófinu. Í 7 ára bekk var þannig raðað eftir lestrarkunnáttu í A - bekkinn o.s.frv. Þetta hét að raða í bekki. Það var reyndar ekki raðað svo áfram þannig að þessi röðun og skipan manna eftir greind eða árangri stóðst ekki þegar á skólahaldið leið nema að því leyti til að oft og tíðum fengu A - bekkirnir betri þjónustu skólanna. Þetta var aflagt og það var ákveðið að blanda í bekki þannig að ekki skyldi raðað í bekki eftir námsárangri og það er sú stefna sem við lýði er núna og sú stefna sem flestir telja góða séu þau skilyrði uppfyllt sem með því þurfa að vera.
    Þar komum við að einu atriðinu. Þau skilyrði sem þurfa að vera til þess að hægt sé að raða í bekki eru að nemendafjöldi sé viðráðanlegar og það er síður en svo. Það eru of margir nemendur í hverjum bekk hér einmitt á Reykjavíkursvæðinu og í þéttbýlinu til þess að hægt sé að sinna þessum nemendum eins og vert væri og þörf er á. Því aðeins er hægt að blanda í bekki að þessum skilyrðum sé fullnægt þannig að við erum ekki komin nema hálfa leið að þessu marki.
    Ég gat áður um kennaraskortinn úti á landsbyggðinni, en það er oft sagt sem svo að landsbyggðarvandinn svonefndi sé sá einn að fólki fækki á landsbyggðinni. Það fer hingað suður til Reykjavíkur og þetta sé vandi landsbyggðarinnar sem sé erfitt við að glíma og sé fyrst og fremst það sem landsbyggðarmenn séu alltaf volandi út af alla daga. En það kynni þó ekki að vera að börnin sem hér voru nefnd áðan, börnin sem eru ólæs og óskrifandi og eiga erfitt með að tjá sig, komi kannski ekkert frekar af landsbyggðinni, úr litlu skólunum. Ég held að lítið sé um að þessi börn komi þaðan vegna þess að þar eru kennsluhættir aðrir og þar er ekki þessi fjöldi í bekkjum. En skyldi það ekki vera einn hluti af landsbyggðarvandanum að þessi mikli fjöldi sem flykkist í þéttbýlið hér syðra kemur inn í ofsetna skólana, í bekki sem eru þegar of stórir? Ætli þetta sé ekki einn hluti vandans, að landsbyggðarvandinn sé líka hér syðra? Þetta held ég að væri mjög gott að taka inn í þessa miklu umræðu. Vandinn er líka í því fólginn að þéttbýlið er alls ekki viðbúið því að taka á móti öllu þessu fólki sem flykkist svo ört og án undirbúnings hingað. Í umræðunni eru augu manna að opnast verulega fyrir því að þetta er tvíþætt vandamál. Þetta er ekki bara vandamál okkar sem byggjum landsbyggðina. Þetta er líka vandamál hinna sem hér sitja og glíma við sívaxandi umferð á ofsetnum götum, það vandamál að húsnæði vantar fyrir skóla, sjúkrahús, dagvistunarheimili og svo mætti lengi telja.
    Ég held að þessi atriði sem ég hef nefnt og kannski mörg fleiri komi einmitt inn í það sem hér var talað um áðan. Út af fyrir sig harma ég það ekki að þetta skyldi koma hér upp vegna þess að ég held að þetta sé mál sem hafi mjög margar hliðar og þurfi að taka á í afar víðtæku samhengi.
    Ég lýk svo máli mínu með því að endurtaka að frv. sem hér liggur fyrir tel ég vera mjög þarft og tímabært fyrir löngu og vænti þess að það fái betri afgreiðslu nú en í það fyrra sinn sem það var lagt fram.