Námslán og námsstyrkir
Miðvikudaginn 14. nóvember 1990


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það kann nú að virðast að við séum komin ansi langt frá frv. hv. 12. þm. Reykv., en ég tek undir það með hv. 2. þm. Vestf. að það er engin leið að tala um þann þátt sem frv. fjallar um án þess að koma inn á svo ótal marga aðra vegna þess að það er ekki af tilviljun að frv. er fram komið.
    Mér þótti afar gott að heyra að hv. 2. þm. Vestf. gerir sér sem skólamaður fullkomlega ljóst hvernig ástandið er sem við öll höfum viljað loka augunum fyrir, og hann drap á það að til þessa ástands lægju margar ástæður og auðvitað er það rétt. Sumar þeirra liggja nokkuð í augum uppi. Það er nú gamall og nýr sannleikur að af því læra börnin málið að það er fyrir þeim haft og með þeirri gjörbyltingu sem orðið hefur í íslensku þjóðfélagi hefur það gerst að það er enginn á heimilunum til að tala við börnin. Það er ekki hægt að ætlast til að grunnskólinn taki að sér allt það sem heimili með kannski fleiri en einni kynslóð hafði áður upp á að bjóða fyrir börnin.
    Það er auðvitað alveg rétt sem hv. þm. sagði um námsgetu. Ég minnist þess og gekk sjálf í gegnum það skólakerfi þar sem raðað var í bekki eftir námsgetu. Sannleikurinn er sá að ég hygg að grunnskólinn sé kannski áhugalausari um það nú nákvæmlega hvaða námsárangri börnin ná því að það er einungis hægt að leggja mikið nám á börn sem hafa sterkt bakland heima hjá sér. Við vorum keyrð áfram og ætlast til að við næðum háum einkunnum ef við mögulega gátum og við vorum skömmuð og rekin áfram og það hafði enginn áhyggjur af því vegna þess að ástina og umhyggjuna fengum við heima hjá okkur.
    Ég hef einhvern veginn á tilfinningunni að skólinn hafi að sumu leyti breyst á þann veg að námsárangurinn sé hreinlega orðinn annars flokks atriði vegna þess að kennararnir hafa að sumu leyti gengið börnunum í föður- og móðurstað og eru að reyna að sinna þessum litlu greyjum meira tilfinningalega heldur en verið sé að troða í þau þekkingu. Þetta kann að vera tóm vitleysa og ekki er ég skólamanneskja, en ég ætla samt að voga mér að segja þetta hér vegna þess að mér hefur sýnst að illa launaðir kennarar okkar sem við förum svívirðilega með, eins og allir vita, hafi bókstaflega tekið þann pól í hæðina að aumka sig yfir þessi börn sem enginn annar hefur tíma til að sinna. Og þetta er auðvitað alveg skelfilegur dómur yfir því þjóðfélagi sem við lifum í og auðvitað er þetta frv., þó að lögum verði, engin lausn á neinu máli. Lausnin er að foreldrar geti unnið styttri vinnudag og haft meiri tíma til að vera með börnunum sínum og líka kannski með foreldrum sínum, þ.e. ömmum og öfum barnanna sem við nú hömumst við að koma í einhverjar séríbúðir eða vistheimili vegna þess að það er heldur ekkert pláss fyrir þau. Ég held að þetta sé ekki það þjóðfélag sem nokkurt okkar langar til að búa í.
    Fyrir mér er það ákveðið ferli að kunna að tjá sig. Ég held að það byrji með því að börn byrja að hugsa um eitthvað af því að það er eitthvert tilefni til þess.

Síðan læra þau að tjá þessar hugsanir, þ.e. þau læra að tala og þegar því er lokið fara þau að læra að lesa og eftir það læra þau að skrifa. Ef eitthvað af þessu ferli bilar, þá bilar það allt saman.
    Af því að það var vikið að því hér og við höfum oft gert það hér, konur, að mjúku málin svokölluðu séu okkar mál og við sitjum hér og tölum hver við aðra, eða stöndum, þá er þetta ekkert mjúkt mál. Þetta er beinhart mál því að það er gagnslítið að byggja hér alúminíumverksmiðjur eða hvaða mannvirki sem er ef við höfum ekki vel menntað fólk til að vinna í þeim. Og við þurfum ekki á fólki að halda sem kann hvorki að tala, lesa né skrifa og þar með ekki að hugsa. Það eina sem er arðbært í einu þjóðfélagi, ég leyfi mér að segja það eina sem er raunverulega arðbært, eru sterkir, heilbrigðir einstaklingar sem geta hugsað, talað, skrifað og lesið sjálfstætt. Án þess er ekkert þjóðfélag nokkurs virði. Og eins og ég hef áður getið hér í ræðustól er svo komið fyrir ríkasta ríki heimsbyggðarinnar, Bandaríkjunum, að þeir sækja nú stúdenta sína til að fylla háskólana í Bandaríkjunum til útlanda vegna þess að grunnmenntun þeirra sjálfra er hrunin. 40% af nemendum við MIT, hinn fræga háskóla í Bandaríkjunum, eru útlendingar og ég hef engan annan fyrir mér í þessu en einn kunnasta Íslending og fræðimann í Bandaríkjunum, Sigurð Helgason, prófessor í Boston. 40% hafa verið sóttir til útlanda af því að Ameríkanar geta ekki sjálfir menntað sitt fólk. Við í okkar litla en ríka þjóðfélagi eigum ekki að detta í þennan farveg.
    Þessu vildi ég aðeins bæta við það sem hv. 2. þm. Vestf. sagði. Ég vona að sem allra flest frumvörp sem hér eru flutt verði til þess að eins ágætar umræður og hér hafa farið fram í dag verði fleiri og ég veit að hv. 1. flm. misvirðir það á engan hátt þótt við höfum gengið dálítið stóran hring í kringum umrætt frv. en það er svo sannarlega til úrbóta í þeirri hættulegu þróun sem ég held að íslenska fjölskyldan sé í í dag.