Námslán og námsstyrkir
Miðvikudaginn 14. nóvember 1990


     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég tek undir þessi orð síðasta hv. ræðumanns, að við höfum kannski tekið hér nokkurn hring í umræðunni en það hefur verið góður hringur. Ég fagna þeirri umræðu sem hér hefur orðið og sérstaklega um málefni barna og fjölskyldunnar sem vissulega eru samtvinnuð en ég mun ekki blanda mér frekar í þá umræðu þó ég sé sammála því sem hér hefur komið fram.
    Það sem hvatti mig til að koma hér í ræðustól aftur voru viðbrögð hv. 11. þm. Reykv. við fyrirspurn þar sem hún sagði að það skorti trúlega nokkuð á að atvinnulaust fólk sé hvatt til náms eða til að nýta þau tækifæri sem bjóðast í námskeiðahaldi eða skólum þegar það er atvinnulaust og þetta veit ég að er rétt. Það fékk mig samt, kannski sökum þeirrar umræðu sem hefur verið svo frjó og góð hér í dag, til að koma hér til að segja ykkur frá tilraun sem gerð var í minni heimabyggð fyrir örfáum árum og ég hef óspart haldið á lofti. Þannig var að atvinnumálafulltrúi bæjarins tók eftir því eitt haust þegar var erfitt árferði í atvinnumálum að mjög margt ungt fólk var komið á atvinnuleysisskrá. Þetta var ungt fólk sem flosnað hafði upp úr skóla og þetta virtist vera ungt fólk sem flosnaði fyrst úr vinnu þegar harðnaði á vinnumarkaði.
    Nú háttar þannig til hjá okkur í Kópavogi að hjá Félagsmálastofnuninni, sem ég vildi frekar skíra um fjölskyldustofnunina vegna þeirra verkefna sem mér finnst að slík stofnun hafi og þess starfs sem þar er, hjá þessari stofnun eru vistuð öll fjölskyldumál, þ.e. barna- og dagvistarmál, unglinga- og íþróttamál, öldrunarmál, atvinnumál, málefni fatlaðra og skráning, atvinnuleysisskráning og atvinnuleit, bæði fullfrískra og fatlaðra. Þegar atvinnumálafulltrúinn uppgötvaði að öll þessi ungmenni voru komin þarna á skrá var það mjög auðvelt að snúa sér til samstarfsfólks í þessari stofnun og taka það mál upp. Einnig var skólaskrifstofan til húsa innan sömu veggja á þeim tíma. Þetta varð til þess að þarna hófst samstarf Félagsmálastofnunar og skólaskrifstofu bæjarmálayfirvalda og menntmrn. um að gera eitthvað í þessu máli, ekki bara bíða eftir að árferði batnaði og þetta unga fólk kæmist til vinnu.
    Það var komið á laggirnar námskeiðahaldi í Ölfusborgum, vikudvöl þessara ungmenna. Það var styrkt þannig að þessi dvöl kostaði þau ekkert. Þarna voru meðal annarra ungar einstæðar mæður. Á þessi námskeið mættu fulltrúar t.d. allra framhaldsskólanna, þar með talið stýrimannaskóla, búnaðarskóla o.s.frv. Það voru haldin námskeið um námsframboð í landinu. Þessi vika varð auðvitað mjög þýðingarmikil, ekki bara sem upplýsingavika heldur einnig sem félagsleg
aðgerð fyrir þetta unga fólk vegna þess sem líka fór fram eftir námskeiðahald að kvöldi dags, samverustundir þar sem þau komu fram sjálf o.s.frv. Þó nokkur hluti þessa unga fólks fór í nám að loknum þessum námskeiðum og þeir sem ekki fóru beint í nám á þessum vetri gerðu það margir hverjir síðar og margir tóku nýja stefnu í sínum málum, þar með talið atvinnumálum.
    Ég vil líka benda á það að seinna, ég held að það hafi verið tveimur árum seinna, var reynt að hafa sama form á hér í bænum, eða réttara sagt í Kópavogi, og það var reynt að bjóða upp á þetta reyndar þvert yfir mörkin, sem eðlilegt er, en það gafst ekki nándar nærri eins vel að vera með þessa tegund námskeiðahalds hér á mölinni. Það var of margt sem freistaði. En vegna þeirrar stefnu sem umræðan um þetta ágæta frv. hefur tekið og hvað við, sem hér höfum talað, höfum komið víða við í því sem tengist óumdeilanlega innbyrðis í málefnum fjölskyldunnar og barna þá langar mig að koma þessu á framfæri, þ.e. að þeir sem hér hafa tekið þátt og hlustað hafi þetta líka með í því sem hægt er að gera.