Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um fullgildingu samnings um stofnun Endurreisnar - og þróunarbanka Evrópu sem er á þskj. 151. Þessum banka, Endurreisnar - og þróunarbanka Evrópu, er ætlað það hlutverk að stuðla að umbreytingu í ríkjum Mið - og Austur - Evrópu í átt til markaðshagkerfis og lýðræðis. Bankanum er ætlað að stuðla að auknu einkaframtaki og stuðningi við smá og meðalstór fyrirtæki. Bankinn mun einnig leggja til tæknilega aðstoð við undirbúning heppilegra verkefna og stuðla að þróun fjármagnsmarkaðar í þessum löndum. Stofnaðilar bankans eru 42 að tölu, þar á meðal átta ríki Mið - og Austur - Evrópu.
    Ég hef þegar flutt hér í hv. Nd. frv. til laga um hlut Íslands í stofnfé bankans en mæli nú fyrir þessari till. til þál. fyrir hönd utanrrh. Eins og kom fram þegar gerð var grein fyrir frv. um hlut Íslands í stofnfénu er stofnfé bankans ætlað 10 milljarðar evrópskra mynteininga eða jafnvirði nálægt 750 milljarða kr. Hlutur Íslands yrði 0,1% eða 10 millj. evrópskra mynteininga, ECU, en af þeirri fjárhæð yrðu 3 millj. mynteininga greiddar á næstu fimm árum. Afgangurinn er ábyrgðarfé sem ekki ber að greiða nema á ábyrgðarskuldbindingar reyni vegna fjárhagslegra áfalla í starfsemi bankans.
    Fyrir þessum atriðum öllum gerði ég ítarlega grein með frv. um hlut Íslands í stofnfénu, en vegna kafla í stofnsamningnum um réttarstöðu bankans mun ég síðar flytja frv. til laga um friðhelgi, forréttindi og undanþágur er tengjast starfsemi hans.
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja til að tillögu þessari verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.