Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um fullgildingu Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga.
    Tilgangur þessa sáttmála er að vernda réttindi sveitarfélaga og þar með veita borgurum tækifæri til að hafa áhrif á ákvarðanir er snerta þeirra næsta umhverfi. Þessi sáttmáli er mikilvægur þáttur í starfi Evrópuráðsins sem miðar að því að bæta virðingu fyrir mannréttindum.
    Í fyrsta hluta sáttmálans er kveðið á um stjórnskipulegan og lagalegan grundvöll fyrir sjálfsstjórn sveitarfélaga. Fjallað er um vernd staðarmarka sveitarfélaganna, hvernig sveitarstjórnir geti ákveðið eigið stjórnkerfi, um starfsskilyrði sveitarstjórnarmanna, um eftirlit stjórnvalda með starfsemi sveitarstjórna, um tekjustofna sveitarfélaga, um rétt sveitarstjórna til að stofna samtök og lögvernd sjálfsstjórnar þeirra.
    Ákvæði samningsins eru að fullu í samræmi við sveitarstjórnarlög, nr. 8/1986, og lög um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 91/1989. Samband ísl. sveitarfélaga hefur eindregið mælt með því að sáttmálinn verði fullgiltur af Íslands hálfu.
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja til að þessari þáltill. verði að lokinni umræðunni vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.