Hreggviður Jónsson :
    Hæstv. forseti. Sú till. til þál. sem hér liggur frammi um fullgildingu samnings um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga er að sönnu tímabær. Hins vegar mótmæli ég því hér, og hef nú reyndar skrifað um það blaðagrein að lög nr. 121/1989 standist ekki þau skilyrði sem þessi samningur fjallar um. Í þeim lögum eru töluvert mörg atriði sem skara þennan samning að mínu mati og ég tel að þau fullnægi alls ekki því sem um er að ræða í þessum samningi.
    Þá vil ég sérstaklega benda mönnum á 6. gr. þessa samnings sem heitir ,,Sérstakir flokkar upplýsinga``, en þar segir, með leyfi forseta: ,,Persónuupplýsingar sem varða kynþátt manna, stjórnmálaskoðanir eða trúarbrögð eða annan átrúnað, svo og persónuupplýsingar varðandi heilsuhagi manna eða kynlíf, má ekki vinna vélrænt nema lög geri ráð fyrir viðeigandi verndarákvæðum. Sama gildir um persónuupplýsingar varðandi dóma í sakamálum.``
    Ég vil fullyrða það að flest af þeim atriðum sem hér standa eru ekki vernduð með þeim hætti sem þessi sáttmáli gerir ráð fyrir. Ég minni á þjóðskrána þar sem sérstaklega eru skráðar sumar af þeim upplýsingum sem hér eru teknar fram. Ég minni á skrá stjórnmálaflokka sem ganga alveg á svig við það sem hér er talað um og ég minni á þær skrár sem hafa verið settar saman hér um heilsu manna og sem ég er ekki viss um að standist þetta ákvæði. Í því sambandi minni ég á nýlegt mál sem kom hér upp varðandi verndun, þ.e. upplýsingar sem komu fram á svokölluðum svörtum lista, sem hefur verið lagður fram til þeirra sem óska eftir, eftir sérstaka vinnslu og upplýsingar frá bönkunum. Í þeim lista eru atriði sem standast alls ekki þennan samning. Ég minni á t.d. að þar er skráð ef maður hefur hugsanlega fengið dóm, eða réttara sagt ef mál hefur verið dómtekið en maðurinn hefur ekki raunverulega fengið dóm, þá er það skráð sem dómur á manninn en það stenst ekki þau ákvæði sem þessi samningur tekur til. Ég held að full ástæða sé til þess að Alþingi Íslendinga skoði þessi mál mjög náið.
    Ég gæti og bent á nokkur fleiri atriði í þessum samningi sem er mjög mikilvægt að verði skoðuð og þau lög sem hér eru fyrir hendi en lögin frá 1989 nr. 121 standast alls ekki þau ákvæði og þær kröfur sem eru gerðar í þessum samningi. Þess vegna er það krafa að þessi lagabálkur verði tekinn upp og hann samræmdur ákvæðum í þessum samningi.