Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um fullgildingu bókunar við alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem er á þskj. 156.
    Hinn 15. des. 1989 var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna bókun við alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi varðandi afnám dauðarefsingar. Ísland gerðist árið 1979 aðili að alþjóðasamningnum sem þessi viðbótarbókun hefur nú verið samþykkt við. Samkvæmt henni skal dauðarefsingu ekki framfylgt innan lögsögu aðildarríkjanna og ber sérhverju aðildarríki að afnema dauðarefsingu innan lögsögu sinnar. Undantekningu má gera þegar um er að ræða hernaðarleg brot mjög alvarlegs eðlis sem framin eru á stríðstímum.
    Dauðarefsing var numin úr íslenskum lögum árið 1928 og hafði henni þá ekki verið beitt um langan aldur. Ísland hefur þegar fullgilt viðbótarsamning við mannréttindasáttmála Evrópu um afnám dauðarefsingar. Ríkisstjórnin telur því í alla staði eðlilegt og æskilegt að bókunin verði fullgilt af Íslands hálfu.
    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að leggja til að tillögu þessari verði að lokinni umræðunni vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.