Ástandið á húsbréfamarkaðnum
Mánudaginn 19. nóvember 1990


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Mér kemur ekki á óvart sú staða sem er komin upp í húsbréfakerfinu. Ég benti á það í umræðum þegar um þetta var fjallað og greiddi atkvæði á móti þessari leið. Þetta er auðvitað ein leið en þá þarf líka að setja vextina fasta eins og er gert með verðbætur á laun. Önnur leið er ekki til. Og þetta frelsi sem meiri hluti þingsins vill hafa í sambandi við fjármagnið --- Ísland er eina ríkið í Evrópu þar sem ekki er greiddur tekjuskattur af vaxtatekjum --- það er algert frelsi og þess vegna hlaut þetta að fara svona eins og hefur sýnt sig. Við sjáum það og ég þekki það að það eru margir núna í hengjandi vandræðum út af þessu vaxtaokri, því að það er bara okur þegar afföllin eru orðin 12 -- 14%.
    Þegar þessi ríkisstjórn var mynduð var sett í stjórnarsáttmálann að raunvextir færu ekki yfir 6%. Hvað eru þeir? Þeir eru yfir 10% núna hjá þeim sem eru í erfiðleikum og þurfa að skuldbreyta. Þetta er það ástand sem er búið að skapa af aumingjaskap alþingismanna.