Ástandið á húsbréfamarkaðnum
Mánudaginn 19. nóvember 1990


     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Hæstv. forseti. Þegar ég hef verið spurð að því á þessu hausti hvernig þessi vetur verði, þá er verið að vísa til þess að það er kosningavetur sem er að ganga í garð hér á hv. Alþingi. Ég hef þá bent á það að samkvæmt skrifum sjálfstæðismanna á liðnu sumri verði húsnæðismálin það mál sem þeir muni gera að helsta ágreiningsmálinu í þinginu. Það sem af er þingi hefur þetta gengið eftir. Sjálfstæðismenn hafa notað öll tækifæri sem þeir hafa fundið til að hafa uppi ágreining um húsnæðismál og oftar en einu sinni höfum við lent í utandagskrárumræðu um þau.
    Það er svolítið merkilegt þegar maður skoðar hvernig umræða er höfð uppi, eins og þessi í dag, að gengi á bréfum skiptir máli fyrir fólk, hvort það á viðskipti með húsbréf fyrir eða eftir hádegi. Og á hvaða strengi er slegið? Að þarna sé um að ræða aleigu fjölskyldunnar og lífssparnað. Dettur nokkrum manni í hug að sá sem á fullorðinsárum er að selja, við skulum segja íbúð út á húsbréf, sé í þeirri stöðu að hann þurfi að meta það hvort hann fari fyrir hádegi til að selja bréfin eður ei? Þeir sem á annað borð hafa fylgst með þeim skrifum sem átt hafa sér stað núna eftir að þessi ósköp dundu yfir, að Landsbréf stöðvuðu kaup og sölu á húsbréfum, vita betur en svo. Viðtöl hafa birst við fólk sem hefur keypt og selt í gegnum húsbréfakerfið og engin afföll eru þar sem bréfin ganga áfram til kaupa, sem er í langflestum tilfellum.
    Og ég vil aðeins að lokum, virðulegi forseti, gera orð formanns fasteignasala að mínum þegar hann segir í blaðagrein í Tímanum fyrir helgi: ,,Öll umræðan gengur hins vegar út á það að hver einasti maður selji öll húsbréf.`` Allar fréttir snúast um afföllin og þetta skapar hreina móðursýki.
    Ég læt þetta duga, virðulegi forseti.