Ástandið á húsbréfamarkaðnum
Mánudaginn 19. nóvember 1990


     Alexander Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir upplýsingar sem komu frá hæstv. umhvrh. Auðvitað er það hárrétt sem hann hélt fram að þetta er allt öðruvísi uppbyggt hér en í nágrannalöndunum og það lá fyrir þegar Alþingi samþykkti þessi lög. En því miður vildu menn ekki hlusta á rök. Það er dálítið undravert að hlusta á það í fjölmiðlum og hér á hv. Alþingi að hæstv. ráðherra segir: Hagstæðasti kostur til ávöxtunar eru húsbréfin fyrir þá sem vilja græða peninga og safna peningum. En hvað um fólkið sem er þolandinn, sem á að greiða þessi háu lán og standa undir þessum bréfum í 25 ár? Það er eins og það komi málinu ekkert við.
    Við meðferð þessa máls hér á hv. Alþingi fékkst hvorki tími né ráðrúm til þess að gera raunhæfa úttekt á þessu kerfi og hvað af því mundi leiða. Það hefur ekki fengist enn. Með lokun á húsnæðiskerfinu frá 1986, sem virðist vera áform, er alveg ljóst að lífeyrissjóðir landsins eru með einu pennastriki leystir undan kaupskyldu sinni fyrir 55% af sínu ráðstöfunarfé sem átti að standa undir þessu kerfi. Þeir geta hætt að kaupa þessi bréf strax ef slík ákvörðun yrði tekin.
    Virðulegi forseti. Það er ekki tími til að ræða þetta mál efnislega, en ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram, sem er raunar krafa þingsins, að það verði tekið á því með rólegri íhugun hvernig hægt er að leysa húsnæðismálin til frambúðar miðað við þann hnút sem búið er að setja þau í á undanförnum árum. Það er verkefni sem Alþingi verður að leysa en það gerist ekki á nokkrum dögum eða vikum. Það verður fyrst að setjast niður og hætta þessum óróa og þessum sífelldu bráðabirgðalausnum sem verið er að gera við þetta kerfi. Og húsbréfin leysa engan vanda.