Ástandið á húsbréfamarkaðnum
Mánudaginn 19. nóvember 1990


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka fyrir þessar umræður vil ég aðeins draga saman það sem ég tel að sé meginniðurstaðan úr þessu spjalli okkar hér í dag. Húsnæðismálaráðherrann, hæstv. félmrh., nefndi hér einar fjórar ástæður fyrir því hvernig komið væri í þessum efnum:
    1. Að Landsbréf hefðu gert mistök sl. fimmtudag.
    2. Að Landsbréf hefðu ekki staðið nægilega vel að markaðssetningu húsbréfa.
    3. Að fjölmiðlar hefðu blásið upp þetta mál og gert það að því sem það var orðið hér síðustu dagana fyrir helgi.
    4. Að það væru einhverjir vitlausir þingmenn sem ekki botnuðu í þessu kerfi, skildu hvorki upp né niður í því hvað væru húsbréf og væru að þvæla einhverja vitleysu um þessi mál.
    Og svo eru að sjálfsögðu fasteignasalarnir sem auðvitað vita ekkert hvað þeir eru að gera frekar en aðrir, ef marka má það sem ráðherrann heldur fram.
    Ég verð nú að segja, virðulegi forseti, að mér blöskrar þessi málflutningur. Og mér er það mikið undrunarefni hvernig ráðherra dettur í hug að svara málefnalegri umræðu og gagnrýni um þetta mál á þessum nótum. Það er auðvitað ekki boðlegt að bjóða þetta fram. Hér hafa skapast ákveðin vandamál og þau verður að leysa. Það er fjöldi manns úti á markaðnum í fasteignaviðskiptum í mikilli óvissu um sína framtíð og um það hvernig eigi að standa að því að fjármagna fasteignakaup og húsnæðisviðskipti til 25 ára. Þetta er fyrst og fremst vandamál unga fólksins en ekki gamla fólksins. Það er fólkið sem er að binda sér bagga til 25 ára sem hér á hagsmuna að gæta fyrst og fremst.
    Það hefur komið fram í máli mínu að eðlilegt væri að ábyrg stjórnmálaöfl tækju höndum saman um að reyna að leysa þennan vanda. Hann verður auðvitað að leysa, það verður að eyða þeirri óvissu sem upp er komin. Það hefur ekki komið fram áhugi á því að leita slíkra lausna hér í þessari umræðu. Og það er athyglisvert að það skuli enginn fulltrúi Alþb. sjá ástæðu til þess einu sinni að taka til máls, hvað þá meir, í þessari umræðu. Einu sinni lét sá flokkur húsnæðismál sig einhverju varða.
    Virðulegi forseti. Hér hefur skapast ófremdarástand. Ég kenni því um hvernig að þessu máli var staðið frá upphafi, ónógum undirbúningi og því að það var farið allt of geyst af stað. Menn ætluðu sér allt of mikið varðandi þessi húsbréf alveg frá byrjun. Þau eiga vissulega rétt á sér. En það hefur verið boðið of mikið fram á þessum markaði. Framboðið hefur verið of mikið og það þýðir ekkert fyrir ráðherrann að segja: Áætlanir gerðu ráð fyrir miklu meira magni og það er ekki búið að kaupa nema svo og svo mikið af því sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Það sem skiptir máli er auðvitað hverju markaðurinn tekur við þegar á reynir. Og hann hefur ekki viljað taka við meiru en raun ber vitni um. Þess vegna þýðir ekkert að demba fleiri húsbréfum inn á þennan markað eins

og sakir standa núna með nýbyggingum og greiðsluerfiðleikalánum. Það gengur ekki upp. En það verður að eyða óvissunni sem skapast hefur, það verður að koma ró á þennan markað, það verður að eyða þeirri óvissu sem nú ríkir. Við sjálfstæðismenn erum tilbúnir til að taka þátt í því starfi, en það reynir auðvitað á forustu félmrh. Og miðað við undirtektir í þessari umræðu leyfi ég mér að efast um að viðkomandi ráðherra hafi áhuga eða burði til þess að leiða slíkt samstarf.