Yfirstjórn öryggismála
Mánudaginn 19. nóvember 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Ég kveð mér hér hljóðs varðandi 5. dagskrármálið, þáltill. um yfirstjórn öryggismála, sem er 3. mál Sþ. á þskj. 3, og sem hv. 4. þm. Vestf. mælti hér fyrir fyrr í dag og var í miðri umræðu þegar utandagskrárumræðan hófst.
    Eins og fram kom í máli hans er um að ræða endurflutning till. til þál. um samhæfða yfirstjórn öryggismála. Till. var hér til umræðu í marsmánuði sl. en varð þá ekki útrædd eða afgreidd af þinginu.
    Hér er til umfjöllunar einn grundvallarþátturinn í rekstri hvers ríkis og er því rétt, sem víða kemur fram í grg. sem fylgir till. að nýju, að um margt er þróun og staða þessara mála hér á landi með öðrum hætti en með flestum öðrum þjóðum. Það kom einnig vel fram í máli frsm. og raunar einnig hv. 2. þm. Vesturl. sem er meðflm. að þessari till.
    Engu að síður er hver þessara þátta, sem hér eru sérstaklega til umræðu, jafnþýðingarmikill hér og hvarvetna í öðrum löndum. Löggæsla og þar með talin tollgæsla, landhelgisgæsla og almannavarnir eru allt hyrningarsteinar er saman mynda þá öryggisgæslu sem ríki og þjóð er alger nauðsyn á. Það er þess vegna síst ofmælt að hér er tekið til umfjöllunar eitt þýðingarmesta mál hverrar þjóðar og það er í rauninni vonum sjaldnar sem mál af þessu tagi eru tekin hér til rækilegrar umfjöllunar eða reynt að brjóta þau til mergjar. Mig langar hins vegar, þó að hér gefist tiltölulega stuttur tími, til þess að minna á í þessu sambandi það skipulag sem við höfum hér á landi komið upp varðandi almannavarnir og nú er nokkur reynsla á komin. Að minni hyggju hefur þar svo til tekist að það hefur orðið óvenjueinfalt en jafnframt afar ódýrt og prýðilega skilvirkt í þau skipti sem til þess hefur þurft að grípa.
    Þegar lög um almannavarnir voru sett hér árið 1962 mótuðust þau af því að þau tóku við af lögum stríðsáranna um ráðstafanir til loftvarna og annarra varna gegn hættu af hernaðaraðgerðum. Lögin gerðu ekki ráð fyrir viðbúnaði af hálfu almannavarna vegna náttúruhamfara nema til kæmu sérstök fyrirmæli í því sambandi. En árið 1967 var lögunum breytt þannig að hlutverk almannavarna var einnig að bregðast við annars konar vá en vegna hernaðaraðgerða, m.a. vá vegna náttúruhamfara. Það skipulag sem tekið hefur verið upp hér á landi um almannavarnir og nú er komin á nokkur reynsla hefur að minni hyggju reynst vel.
    Öryggismál eru hér sem í öðrum löndum bæði mjög yfirgripsmikil og mjög mikilvægur málaflokkur. Almannavarnir, landhelgisgæsla og löggæslan eru þeir þættir sem öryggisgæslan hér á landi hvílir á. Þátttaka okkar í NATO og dvöl bandaríska varnarliðsins hér er einnig þáttur öryggisgæslunnar hér á landi sem engin ástæða er til að draga undan. Öryggismálin þurfa því sífellt að vera í skoðun og umræðu, bæði meðal þjóðarinnar sjálfrar og ekki síður hér á hinu háa Alþingi.
    Af þeirri ástæðu vil ég endurtaka það sem ég sagði hér í mars sl. Ég fagna flutningi þeirrar tillögu sem

hér er um að ræða. Ég vil þó ekki gefa neinar sérstakar yfirlýsingar um það í hvaða farveg sú athugun, sem hún beinist að, mun falla. Það er augljóst hvert er aðalatriði till. Það er meiri samhæfing öryggismála þjóðarinnar í heild en er í dag.
    En ég vil endurtaka það sem ég þá sagði. Ég mæli eindregið með því að till. fái þinglega meðferð og nú er vitaskuld miklu meiri tími til stefnu en þá var því að á seinasta þingi var hún flutt undir þinglok en er nú 3. mál þingsins.