Flm. (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 76 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um aukinn þátt bænda í landgræðslu- og skógræktarstarfi. Hún hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að skora á landbrh. að kanna möguleika á að auka þátt bænda í landgræðslu- og skógræktarstarfi með því að þeir taki að sér verkefni sem núna eru unnin af ríkisstofnunum og jafnframt beiti ráðherra sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum í því skyni.``
    Í grg. með tillögunni segir, með leyfi forseta:
    ,,Á undanförnum árum hefur verulegur samdráttur verið í hefðbundnum búskap um allt land, sérstaklega í sauðfjárrækt, og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun eins og drög að búvörusamningi bera með sér. Áherslu þarf að leggja á að finna ný störf til að styrkja búsetu til sveita, og þar kemur til greina að virkja bændur í landgræðslu- og skógræktarstarfi. Það er fátt sem mælir á móti því að bændur taki að verulegu leyti við verkefnum sem núna eru unnin af ríkisstofnunum. Þeir þekkja landið, þeir eiga nauðsynlegan tækjabúnað og þeir kunna til verka og eru þess vegna vel í stakk búnir til að takast á við þessi verkefni.
    Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins sjá að mestu leyti um framkvæmdir í landgræðslu og skógrækt. Þarna gæti sú breyting orðið að bændur kæmu að ræktunarstarfinu sem verktakar en stofnanir ríkisins sæju um stefnumótun og áætlanagerð og hefðu faglega umsjón með verkefnum. Starfsmenn ríkisstofnananna fengju það hlutverk að meta ástand gróðurlendanna í samráði við heimamenn á hverjum stað og gera áætlanir um úrbætur þar sem svæðum og verkefnum er raðað niður eftir forgangi. Verkefnin sjálf yrðu unnin af bændum samkvæmt samningum.
    Verði þessi breyting að veruleika vinnst margt. Í fyrsta lagi væri verið að virkja fleiri aðila en áður í landgræðslu- og gróðurbótastarfi um leið og atvinnulíf yrði styrkt um landið.
    Í öðru lagi mundi breytingin leiða til aukins skilnings á ræktunarstarfinu, sérstaklega meðal þeirra sem nýta landið.
    Í þriðja lagi yrði ræktunarstarfið markvissara og öflugra. Áhersla yrði lögð á áætlanagerð og skýrar verklýsingar og auk þess fæli þetta nýja skipulag í sér meira eftirlit með framkvæmdum og árangri einstakra aðgerða. Það fyrirkomulag, sem nú er unnið eftir, er með þeim hætti að sami aðili metur þörfina fyrir verkefni, skipuleggur aðgerðir, vinnur verkið og dæmir síðan sjálfur um árangurinn.
    Í fjórða lagi mun bein aðild bænda að ræktunarstarfinu, þar sem þeir koma að sem ábyrgir verktakar, draga úr þeirri togstreitu sem óneitanlega hefur átt sér stað á milli bænda og þeirra sem vinna að gróðurverndarmálum.
    Fátt bendir til að skógrækt geti komið í staðinn fyrir annan búskap, eins og t.d. sauðfjárrækt, þótt sú skoðun hafi þó heyrst á undanförnum árum. Skógrækt er hins vegar valkostur ef hún er skoðuð sem aukabúgrein til styrktar annarri starfsemi á bújörðum. Möguleikar skógræktar til nytja felast í því að nýta land sem ekki er til annarra nota og skapa tímabundna vinnu og tekjur sem draga úr kröfum um tekjur af annarri starfsemi á jörðinni. Áratugum síðar, þegar skógur er fullvaxinn, skapast aðrir og meiri möguleikar til skógarbúskapar. Á síðustu árum hafa bændur tekið að sér einstök verkefni á vegum Skógræktar ríkisins, t.d. plöntuframleiðslu fyrir ákveðin skógræktarverkefni. Þar hefur vel tekist til og er ekkert sem bendir til annars en að þeir gætu sinnt þessari vinnu eins vel og þær stofnanir ríkisins sem sjá um plöntuframleiðsluna. Áhugi bænda hefur aukist eins og best sést á því að bændur hafa ráðist í stórt skógræktarverkefni austur á Héraði.
    Eins og segir í upphafi grg. þarf að leggja áherslu á að finna ný störf til að styrkja búsetu til sveita í kjölfar þess samdráttar sem orðið hefur í hefðbundnum búgreinum. Það þarf þó ekki að þýða stofnun nýrra fyrirtækja. Með því að færa hluta þeirra starfa, sem í dag eru unnin á vegum ríkisins hjá Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins, yrði hér aðeins um að ræða tilfærslur.
    Ákvörðun sem þessi gæti líka haft í för með sér að um minni byggðarröskun yrði að ræða þar sem áfram er gert ráð fyrir að bændur nýti jarðir sínar.``
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið fjallar þessi till. til þál. um möguleika á að auka þátt bænda í landgræðslu- og skógræktarstarfi. Á undanförnum árum hefur verulegur samdráttur verið í hefðbundnum búskap um allt land, sérstaklega í sauðfjárrækt, og ljóst að þessi þróun heldur áfram. Samdrættinum í sauðfjárrækt hefur ekki verið stýrt með skipulegum hætti, það má jafnvel segja að riðuveikin hafi ráðið afar miklu. Stjórnvöld hafa yfirleitt beitt flötum skerðingum þegar draga hefur átt úr framleiðslu á kindakjöti og minnka ríkistryggðan framleiðslurétt. Enn þá er framleiðsla á kindakjöti mun meiri en markaður er fyrir en framleiðsluréttur einstakra bænda nægir þó ekki lengur til framfærslu búanna.
    Ég þekki t.d. bónda sem rak bú sitt nær hallalaust fyrir örfáum árum, en núna skuldar hann lánardrottnum sínum yfir 20 millj. kr., eingöngu vegna þess að búið er að skerða framleiðsluréttinn aðeins of mikið. Þennan bónda vantar nokkur ærgildi til að láta dæmið ganga upp. Það eru margir í sömu stöðu og hann og ekkert hefur komið í stað skerðingarinnar. Slík vinnubrögð ganga ekki lengur. Það verður að skipuleggja sauðfjárrækt með þeim hætti að þeim sem hana stunda verði gert kleift að lifa sómasamlega af vinnu sinni.
    Ég lagði fram till. til þál. á síðasta þingi þar sem skorað var á landbrh. að takmarka sauðfjárhald við lögbýli, en vegna anna þingsins komst hún ekki á dagskrá. Þarna var um að ræða eitt skref í þá átt að færa framleiðsluréttinn til þeirra sem á honum þurfa að halda frá þeim sem eru að framleiða kindakjöt sér til skemmtunar. Það er alveg ljóst að með einhverju móti verður að tryggja að sauðfjárbændur geti framfleytt sér og sínum af vinnu sinni og það verður varla

gert án þess að einhverjir hætti framleiðslu, ef tekið er mið af markaðnum eins og hann er í dag. Og þá þarf að tryggja að þeir sem verða að hætta fái aðstoð við uppbyggingu nýrrar atvinnustarfsemi á jörðum sínum. Að hanga á horriminni, geta hvorki hætt né haldið áfram, er það versta sem þessu fólki er gert.
    Í þeirri till. til þál. sem ég legg hér fram er verið að leita leiða til að finna ný störf til að styrkja búsetu til sveita. Lagt er til að bændur taki virkan þátt í landgræðslu- og skógræktarstarfi, og þá hef ég aðallega sauðfjárbændur og garðyrkjubændur í huga.
    Um það er ekki lengur deilt að jarðvegs- og gróðureyðing er verulegt vandamál á Íslandi. Þetta er almennt viðurkennt, en einnig sú staðreynd að það er hægt að snúa dæminu við og endurheimta að minnsta kosti hluta þeirra landgæða sem tapast hafa. Viðhorf bænda eru einnig mun jákvæðari til gróðurverndar og landgræðslumála en áður. Nægir þar að nefna samþykktir og ályktanir sem gerðar hafa verið á aðalfundum Stéttarsambands bænda á undanförnum árum. Þar hefur áhersla verið lögð á að land verði nytjað þannig að gróðri fari fram og að búskap verði háttað í samræmi við landgæði. Þessar samþykktir sýna skilning á því að gróðurvernd felur ekki í sér ósættanleg sjónarmið heldur er hún allra hagur.
    Vissulega hefur margt unnist í gróðurvernd og landbótum í þau rúmlega 80 ár sem opinberir aðilar hafa unnið að þessum málum. Landgræðsla ríkisins hefur staðið sig vel miðað við þær aðstæður sem henni hafa verið búnar og oft unnið þrekvirki. Aðgerðir Landgræðslunnar hafa til dæmis bjargað mörgum byggðarlögum frá eyðingu. Þar er hægt að nefna Meðalland í Skaftafellssýslu, Vík í Mýrdal, Rangárvelli, Þorlákshöfn og byggð í Öxafirði. Á þessum stöðum væri núna öðruvísi um að litast ef Landgræðslunnar hefði ekki notið við. En þrátt fyrir rúmlega 80 ára starf opinberra aðila er gróður og jarðvegur enn að eyðast á landinu og ástand gróðurlenda mjög víða slæmt. Landgræðslu- og skógræktarstarfið gæti verið mun öflugra og árangursríkara en það er nú. Við getum bætt það mjög mikið með breyttum vinnubrögðum og nýjum áherslum. Með það að leiðarljósi er þessi tillaga um aukinn þátt bænda í landgræðslu- og skógræktarstarfi flutt.
    Í till. er gert ráð fyrir að bændur komi að ræktunarstarfinu sem verktakar en stofnanir ríkisins sæju um stefnumótun og áætlanagerð og hefðu faglega umsjón með verkefnum. Núna sjá Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins að mestu um framkvæmdir í landgræðslu og skógrækt. Það má jafnvel segja að Skógrækt ríkisins sé að stórum hluta plöntuframleiðslu- og plöntunarfyrirtæki í stað þess að vera sá faglegi leiðbeinandi sem gildandi lög um skógrækt gera ráð fyrir. Í dag er engin ástæða til þess að ríkið sé með allar framkvæmdir á eigin vegum, þótt ástæða hafi e.t.v. verið til þess fyrir áratugum síðan.
    Það fyrirkomulag sem þessum málum er búið núna getur jafnvel verið hemill á eðlilega þróun. Ef t.d. tölur um starfsemi Skógræktar ríkisins eru skoðaðar bera þær með sér að endurskoða þurfi starfshætti þeirrar

stofnunar. Heildarframlög ríkissjóðs til skógræktar hafa aukist jafnt og þétt síðastliðin 50 ár miðað við fast verðlag. Framlög til skógræktar voru t.d. meira en þrefalt hærri á þessu ári en þau voru fyrir 30 árum. Þessi auknu fjárframlög virðast þó ekki hafa skilað sér í aukinni gróðursetningu. Ársskýrslur skógræktarstjóra sýna að gróðursetning á vegum Skógræktar ríkisins hefur ekki breyst að ráði undanfarin 30 ár. Hún hefur verið um 300 þúsund plöntur að jafnaði en sveiflast þó heilmikið á milli ára. Minnst var hún á ári trésins 1980, um 100 þús. plöntur, en mest árin 1961 -- 1963 og 1988, um 500 -- 600 þús. plöntur. Stóraukin fjárframlög ríkisins, bættur tækjabúnaður og bygging nýtískulegra gróðrarstöðva hafa greinilega ekki skilað þeim ávinningi sem búist var við. Kostnaður við hverja gróðursetta plöntu virðist hafa margfaldast. Þegar svo er komið að aukin fjárframlög skila sér ekki í auknu starfi verður að staldra við og meta stöðuna.
    Með því að flytja þessa tillögu vil ég láta skoða þann möguleika að framkvæmdir í landgræðslu og skógrækt, sem unnar eru fyrir opinbert fé, verði að miklu leyti á vegum bænda en ríkisfyrirtækin verði faglegir leiðbeinendur og eftirlitsaðilar. Þau einbeiti sér að stefnumótun og áætlanagerð, meti ástand gróðurlenda í samráði við heimamenn á hverjum stað og geri heildaráætlun fyrir landið allt, þar sem svæðum og verkefnum er raðað niður eftir forgangi. Jafnframt leggi þau áherslu á að meta árangur af einstökum framkvæmdum en þar hefur óneitanlega verið misbrestur á. Stofnanir ríkisins hafa ekki lagt nægilega áherslu á að halda skipulega um reynsluna af ræktunarstarfinu. Í mjög mörgum tilfellum er til dæmis ekki vitað hvaða meðferð ákveðið land hefur fengið á árum áður. Þetta á jafnt við um land innan landgræðslu- og skógræktargirðinga. Skortur á skipulegu skráningarstarfi gerir það að verkum að mikilvægar upplýsingar fara forgörðum og þá erfitt að læra af reynslunni.
    Efasemdir hafa heyrst um getu bænda til að sjá um framkvæmdir í landgræðslu- og skógræktarstarfi. En um hvers konar verkefni er verið að ræða? Þær framkvæmdir sem um er að ræða frá Landgræðslu ríkisins eru aðallega fólgnar í girðingarvinnu og fræ- og áburðardreifingu. Einnig má hugsa sér ræktun trjá- og runnagróðurs í því skyni að styrkja gróðurlendi og sporna við gróður- og jarðvegseyðingu. Með skýrar verklýsingar í höndum ætti bændum ekki að verða skotaskuld úr því að vinna þessi verk. Þeir kunna til verka og eiga yfirleitt nauðsynlegan tækjabúnað.
    Í dag hefur Landgræðslan hafið samstarf við bændur og það hefur gefist vel. Sama er að segja um framkvæmdir í skógrækt. Sunnlenskir bændur hafa t.d. sýnt að þeir geta framleitt skógarplöntur ekki síður en ríkisfyrirtækið. Nokkrir garðyrkjubændur framleiddu á síðasta ári skógarplöntur fyrir svokallaða landgræðsluskóga fyrir mun lægra verð en áður þekktist. Afföll í þessari ræktun voru sambærileg við það sem gerist hjá Skógrækt ríkisins og var þetta þó frumraun þessara manna. Framleiðsla á skógarplöntum yrði vel þegin

búbót fyrir garðyrkjubændur, sem margir hverjir standa frammi fyrir verulegum erfiðleikum í rekstri vegna verkefnaskorts. Á sama tíma er ríkisstofnunin að framleiða og selja garðplöntur í samkeppni við þá, sem verður að teljast mjög óeðlilegt.
    Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, sem haldinn var að Flúðum nú í sumar, ályktaði í þessa veru og beindi þeim eindregnu tilmælum til landbrh. og fjmrh. að þeir sæju til þess að ríkið byði út og leitaði ævinlega hagkvæmustu leiða fyrir plöntuframleiðslu sína. Núna einokar ríkisfyrirtækið þessa framleiðslu og hefur sjálfdæmi um verðlagningu.
    Í fjárlögum þessa árs er um 14 millj. kr. veitt til ,,nytjaskóga á bújörðum`` og Skógrækt ríkisins falin umsjón með þeim peningum. Mér skilst að þau viðskipti fari þannig fram að stofnunin afhendi plöntur og millifæri upphæðina í bókhaldi, og þá að sjálfsögðu á sínu verði sem er hærra en það verð sem bændur hafa fengið fyrir plöntur sínar. Peningarnir skila sér því ekki að fullu til bænda sem þeir mundu líklega gera ef þessari einokun yrði aflétt.
    Plöntuframleiðsla getur einnig komið öðrum bændum til góða en garðyrkjubændum. Ég ætla að nefna eitt dæmi, sögu af ágætum sunnlenskum bónda sem ætlaði á sínum tíma í loðdýrarækt en var svo heppinn að eyða tíma í að kynna sér fagið áður en ákvörðun var tekin um framhaldið og verðhrun varð á þeim tíma svo hann hætti við. Fullvirðisrétt sinn hafði hann leigt vegna þess að hann var ekki nægur til að framfleyta fjölskyldunni og bóndinn, sem býr á vildarjörð, fór á sjóinn í stað þess að nytja jörðina. Á jörðinni er 300 fermetra gróðurhús án nokkurs búnaðar. Fyrir ári síðan gerði þessi bóndi samning við Rannsóknastöðina á Mógilsá um framleiðslu á skógarplöntum. Hann fékk leiðbeiningar og hóf framleiðslu haustið 1989. Í þessu litla húsi framleiddi hann á þessu ári rúmlega 200 þús. asparplöntur og fékk samkvæmt samningi 12 kr. fyrir plöntuna. Þá var opinbert verð Skógræktar ríkisins á sams konar plöntum 18 kr., sem er 50% hærra en bóndinn fékk, og á verð Skógræktar ríkisins þó að vera kostnaðarverð. Vinna við þessa framleiðslu bóndans samsvarar einu ársverki og tímakaupið sem fékkst fyrir vinnuna, eftir að búið var að borga rekstrarkostnað, var hærra en greitt er hjá ríkinu fyrir sams konar vinnu. Plönturnar sem bóndinn skilaði voru mjög góðar, enda urðu þær að uppfylla ákveðnar gæðakröfur samkvæmt þeim samningi sem gerður var, en slíkar kröfur eru ekki gerðar til framleiðslu ríkisins. Afföll í ræktuninni hjá honum voru 3 -- 7%, sem er betri árangur en náðst hefur hjá ríkinu.
    Þessi viðbót við búreksturinn gerir bóndanum kleift að búa áfram á sinni jörð. Þetta eina ársverk gerir gæfumuninn og kemur í staðinn fyrir þau ærgildi sem vantaði upp á að framleiðslurétturinn væri nægjanlegur. Og ríkissjóður sparaði rúmlega eina milljón með því að fá bóndann til að framleiða í stað þess að fela ríkisfyrirtækinu verkið. Verkefnið veitti húsmæðrum á næstu bæjum vinnu og þó hér væri aðeins um tímabundin hlutastörf að ræða komu þau sér vel.
     Mætti ekki reyna þetta víðar í stað þess að láta

ríkissjóð byggja risastórar gróðrarstöðvar og reka þær, gróðrarstöðvar sem eru búnar fullkomnustu tækjum og þurfa ekki á mannafla að halda? Sú leið er ekki til þess fallin að styrkja byggð í sveitum landsins. En því miður virðist skammsýni ætla að ráða því að þrátt fyrir þessa góðu reynslu af samskiptum ríkis við bændur er hætta á að ekki verði um frekara áframhald eða aukningu á þessum verkefnum að ræða. Ef slík ákvörðun er tekin er hún varla af vitrænum toga.
    Áhugi bænda á skógræktarstarfi hefur aukist eins og best sést á því að bændur hafa ráðist í stórt skógræktarverkefni austur á Héraði. Um þetta verkefni var mikið fjallað á síðasta ári á þeirri forsendu að þarna kæmu skógræktarverkefni í staðinn fyrir sauðfjárrækt.
    Í grg. með till. minni vara ég við þessu sjónarmiði. Það er fátt sem bendir til að skógrækt geti komið í staðinn fyrir annan búskap, eins og til dæmis sauðfjárrækt. Skógrækt er hins vegar valkostur ef hún er skoðuð sem aukabúgrein til styrktar annarri starfsemi á bújörðum. Þegar ákvarðanir eru teknar um skógrækt er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir eðli atvinnugreinarinnar og ég nefni hér þrjú meginatriði:
    1. Mikið land. Skógrækt er landfrekur búskapur. Skógrækt í atvinnuskyni er því ekki á færi annarra en þeirra sem hafa mikið land til umráða. Þetta er því álitlegur kostur fyrir bændur. Þetta er búgrein sem gerir kröfu til lands, ólíkt ýmsum öðrum greinum, eins og t.d. loðdýrarækt eða fiskeldi. Við skulum minnast þess að fólk býr á jörðum sínum til að nytja þær, en ekki í þeim eina tilgangi að dreifa byggð um landið eins og stundum mætti halda þegar hlustað er á hugmyndir um ný störf í sveitum.
    2. Lítill kostnaður. Skógrækt kostar ekki mikið. Heildarkostnaður við ræktun skóga er núna um 100 -- 150 þús. kr. á hvern hektara lands. Ef gert er ráð fyrir að skógræktarland á bújörð sé um 100 hektarar að flatarmáli þá kostar aðeins um 10 -- 15 millj. kr. að klæða hana skógi. Þar af er beinn launakostnaður vegna gróðursetningar aðeins um 2 -- 4 millj. kr.
    3. Lítil vinna. Skógrækt er ekki mannfrek. Algeng afköst við gróðursetningu skógarplantna hérlendis eru um 800 plöntur á dag. Samkvæmt því er fimm daga vinna að gróðursetja í 1 hektara lands. Ein vika, ef helgarfrí er reiknað með. Með öðrum orðum þá bjóðast aðeins tvö ársverk við gróðursetningu á 100 hektara meðaljörðinni.
    Ályktun sem dregin verður af þessum einföldu staðreyndum er skýr: Skógrækt getur ekki komið í staðinn fyrir annan búskap, eins og til dæmis sauðfjárrækt, biðtíminn frá gróðursetningu að afurðum er of langur. Bóndi getur haft framfæri af ræktunarstarfi á jörð sinni í 2 -- 3 ár, á meðan verið er að gróðursetja í landið. Eftir það og þangað til skógurinn fer að gefa af sér tekjur er aðeins um að ræða vinnu við umhirðu.
    Það verður að horfa á landgræðslu- og skógræktarverkefni sem viðbót við önnur störf á bújörðum. Þarna eru möguleikar á að skapa tímabundna vinnu og tekjur sem draga úr tekjukröfum af annarri starfsemi á bújörðum. Það er hægt að nýta þessa möguleika til

að styrkja búsetu í sveitum ef rétt er á haldið, en þá verðum við að endurskoða skipulag landgræðslu- og skógræktarmála og breyta hlutverki ríkisins.
    Eins og áður segir er megintilgangur með þessari till. til þál. að benda á nýjar leiðir til að styrkja búsetu til sveita í kjölfar þess samdráttar sem orðið hefur í hefðbundnum búgreinum og bæta hag bænda, sérstaklega þeirra sem stunda sauðfjárrækt og garðyrkju í dag. Jafnframt er verið að benda á leiðir til að bæta gróðurverndarstarfið á vegum þess opinbera.
    Þessi tillaga felur ekki í sér stofnun nýrra fyrirtækja né stóraukin fjárframlög úr ríkissjóði þar sem hér er að mestu um að ræða tilfærslur á störfum og verkefnum sem núna eru unnin á vegum ríkisins hjá Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins.
    Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. atvmn.