Reiðvegaáætlun
Mánudaginn 19. nóvember 1990


     Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um gerð reiðvegaáætlunar. Flm. ásamt mér að þessari tillögu sem fyrir liggur á þskj. 117 eru alþingismennirnir Jón Kristjánsson, Valgerður Sverrisdóttir, Páll Pétursson, Alexander Stefánsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Guðni Ágústsson og Jóhann Einvarðsson.
    Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgrh. að láta í samvinnu við samtök hestamanna og sveitarfélaga gera reiðvegaáætlun. Áætlun þessi skal gerð til fjögurra ára í senn.
    Samgrh. skal í því skyni skipa nefnd er hafi það hlutverk að vinna reiðvegaáætlun og endurskoða hana reglulega.
    Í starfi sínu taki nefndin meðal annars mið af eftirfarandi atriðum:
    1. Gera skal reiðvegaáætlun til fjögurra ára í senn og forgangsraða verkefnum.
    2. Hafa skal nána samvinnu við m.a. Landssamband hestamannafélaga, samtök sveitarfélaga, Vegagerð ríkisins, Náttúruverndarráð, Landgræðslu, Skógrækt ríkisins, skipulagsstjórn og Ferðaþjónustu bænda sem og einstök sveitarfélög og landeigendur.
    3. Bæta skal aðstöðu hestamanna á þjóðvegum og haga þannig að öryggi gegn slysum verði sem mest.
    4. Viðurkenna skal í raun umferð ríðandi manna sem hluta af samgöngum landsmanna.
    5. Friðlýsa þarf fornar reiðleiðir og halda þeim við.
    6. Við mat umferðar á hestum skal höfð hliðsjón af hesthúsahverfum, skeiðvöllum, hrossabúum, hagagöngu, staðsetningu gisti- og ferðamannastaða og veitinga- og útivistarstaða.
    7. Hafa skal hlið á girðingum þar sem alfaraleiðir og girðingar skerast.
    8. Tryggja skal vernd svæða og leiða sem hafa gildi vegna náttúrufegurðar og skilyrða sem gera þau eftirsóknarverð sem reiðland.
    9. Umferð ríðandi manna má eigi spilla ræktuðu landi, túnum, görðum eða skógrækt og ekki ónáða búfé.``
    Þessi þáltill. sem hér er lögð fram er flutt samhliða tveimur frv. til laga er bæði lúta að gerð reiðvega. Annars vegar er um að ræða breytingu á vegalögum þar sem kveðið er á um að Vegagerð ríkisins skuli sjá um gerð og viðhald reiðvega samkvæmt sérstakri áætlun. Hins vegar er um að ræða frv. til laga um breytingu á lögum um fjáröflun til vegagerðar en þar er gert ráð fyrir að leggja á sérstakt hóffjaðragjald til að afla fjár til reiðvegagerðar.
    Þessi þáltill. sem hér er flutt hefur það hlutverk að fela samgrh. í samvinnu við samtök hestamanna og sveitarfélaga að láta gera reiðvegaáætlun og forgangsraða verkefnum en Vegagerðin vinni síðan í samræmi við þá reiðvegaáætlun.
    Það er kunnara en frá þurfi að segja að hestamennska nýtur sívaxandi vinsælda og hestaeign fer vaxandi. Ekki verður hjá því komist að taka tillit til ríðandi manna í umferðinni en aukin bílaumferð á

þjóðvegum landsins gerir það nauðsynlegt að slíkt sé gert með skipulögðum hætti.
    Það mun hafa verið árið 1982 sem gert var samkomulag milli Landssambands hestamannafélaga og Vegagerðar ríkisins um gerð reiðvega. Það samkomulag er fylgiskjal með frv. um breytingu á vegalögum. Reynsla af þessu samkomulagi hefur ekki orðið nægilega góð og nauðsyn er að skýra málin frekar og koma þeim í fast horf. Bæði er að fé til gerðar reiðvega hefur verið mjög af skornum skammti sem og að nauðsynlegt er að kveða skýrar á í lögum um hver beri veg og vanda af reiðvegagerð, hvernig fjár sé aflað til hennar og hverjir vinni áætlun um reiðvegagerð og ákveði forgang verkefna.
    Óhjákvæmilegt er að umferð ríðandi manna verði í raun viðurkennd sem hluti af samgöngum landsmanna. Til þess að þetta sé unnt verður að taka tillit til umferðar ríðandi manna við skipulagningu vegakerfis landsins. Sérstaklega þarf að hafa hliðsjón af staðsetningu hesthúsahverfa, skeiðvalla, hrossabúa, hagagöngu, gisti - og veitingastaða og útivistar - og ferðamannastaða.
    Mikilvægt er einnig að friðlýsa fornar reiðleiðir og halda þeim við. Með þeim hætti er varðveittur ákveðinn þáttur í menningarsögu landsins. Mikilvægt er einnig í þessu sambandi að tryggja að gróður spillist ekki og sjá til þess að saman geti farið vernd og notagildi. Hestamennska og hestaíþróttir eru sem fyrr segir mjög vaxandi. Íslenski hesturinn er í auknum mæli orðinn útflutningsvara en jafnframt koma erlendir ferðamenn hingað í vaxandi mæli til hestamannamóta og ferða á hestum. Fram hjá þeirri staðreynd geta Íslendingar ekki litið og þurfa að bregðast rétt við, enda getur hesturinn einmitt orðið mikilvægur þáttur í uppbyggingu ferðamannaiðnaðar í landinu í nánustu framtíð. Í því sambandi er auðvitað mikið starf óunnið og margt sem þarf að hafa í huga. Eigendur veitingastaða þurfa víða að gera hestamönnum kleift að njóta þeirrar þjónustu sem þeir hafa á boðstólum. Til þess þurfa þeir að koma upp góðri hrossarétt, vel malarborinni og með skjólgirðingu sem er t.d. 1 1 / 2 metri á hæð. Aðstaða þarf að vera til að brynna hestum og æskilegt að hey geti verið til sölu. Við gististaði, tjaldstæði og orlofsbúðir þarf að hafa aðstöðu til hagbeitar. Þar þurfa að vera hrossaréttir og geymslur fyrir reiðtygi.
    Ferðaþjónusta bænda þarf að geta veitt hestamönnum fyrirgreiðslu af ýmsu tagi og ekki aðeins leigt mönnum hross heldur einnig haft hagbeit til sölu. Sveitarstjórnir og upprekstrarfélög eiga mörg góða skála á fjöllum, skála sem nýta mætti betur og leigja ferðafólki og gætu fallið vel inn í ferðir ríðandi manna um landið. Þannig mætti hugsa sér eins konar net náttstaða á hálendinu en hey þyrfti að vera til sölu á sem flestum stöðum svo að gróður spillist ekki.
    Við gerð reiðvega þarf að hafa í huga að vegir sem hægt er að fara allt árið eru nauðsynlegir í nágrenni hesthúsabyggða. Slíkir vegir eru eðlilegt viðfangsefni viðkomandi sveitarfélaga, hestamanna og Vegagerðar. Talsvert aðrar kröfur þarf að gera til

slíkra vega en þeirra sem aðeins eru notaðir stuttan tíma á ári vegna þess að umferð getur orðið mikil á takmörkuðu svæði vetur og vor þegar blautt er um. Slíkir vegir þurfa að falla vel inn í skipulag en gera má ráð fyrir að mest álag sé á þessa vegi næst hesthúsum, 5 -- 10 km umhverfis þau, en fjær dreifist álagið verulega.
    Vel má hugsa sér að reiðvegir í þéttbýli geti verið meðfram þjóðvegum eða lagðir sérstaklega um útivistarsvæði en áherslu verður að leggja á að friða alla reiðvegi fyrir umferð vélknúinna farartækja og kveða þarf skýrt á um umferðarrétt með merkingum þar sem reiðmenn þurfa að fara þvert á veg. Víða eru gömlu malarvegirnir ágætir reiðvegir þegar þeir eru opnir. Við gerð reiðvega þarf sérstaklega að gera ráð fyrir áningarstöðum, helst með því móti að víkja megi spölkorn frá vegi.
    Árið 1986 fluttu þingmennirnir Páll Pétursson og Ólafur Þ. Þórðarson till. til þál. um áætlun um gerð reiðvega. Sú þáltill. er fylgiskjal með þessari. Tillaga sú var ekki útrædd á Alþingi.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni umræðu um þessa þáltill. um gerð reiðvegaáætlunar verði henni vísað til hv. allshn.