Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 157 um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 17 3. apríl 1990, um ábyrgðadeild fiskeldislána. Þegar þessi lög voru samþykkt hér síðasta vor kom í ljós mjög fljótlega að það voru ýmsir annmarkar á lögunum og því varð að ráði í sumar að gefa út bráðabirgðalög til þess að breyta þeim ákvæðum sem í blóra gengu við upphaflegan tilgang. Í bráðabirgðalögunum segir svofellt um breytingu á 2. mgr. 8. gr. laganna:
    ,,Með gildistöku laga þessara falla úr gildi 3. málsl. 1. mgr. 22. gr., 3. mgr. 22. gr. og setningarhlutinn ,,og nánari reglur um álagningu og innheimtu gjalda skv. 22. gr. ef til þess kemur`` úr 1. mgr. 23. gr. laga nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, sbr. lög nr. 3/1989, um breyting á þeim. Skuldaviðurkenningar, sem fiskeldisfyrirtækin hafa gefið út vegna áhættugjalds á grundvelli sömu lagaheimilda, falla einnig úr gildi. Hinn 1. júlí 1990 fellur úr gildi II. kafli laga nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, sbr. lög nr. 3/1989, um breyting á þeim. Jafnframt því að yfirtaka þær einföldu ábyrgðir, sem Tryggingasjóður fiskeldislána hefur gefið út til handa Framkvæmdasjóði Íslands, skal ábyrgðadeild fiskeldislána yfirtaka sjálfskuldarábyrgðir sem Framkvæmdasjóður hefur undirgengist gagnvart lánastofnun á grundvelli þeirra.``
    Ástæða fyrir þessari bráðabirgðalagasetningu var einmitt spurningin um hvernig færi með ábyrgðir Framkvæmdasjóðs vegna fiskeldislána. Með þessum bráðabirgðalögum var tekinn af allur vafi í þeim efnum.
    Nefndin fjallaði um efni frv. og fékk á sinn fund Jóhann Antonsson frá ábyrgðadeild fiskeldislána og Vilhjálm Guðmundsson frá Landssambandi fiskeldis- og hafbeitarstöðva og mæltu þeir eindregið með samþykkt frv. og var nefndin sammála því. Á fundi nefndarinnar við afgreiðslu málsins voru fjarverandi Guðrún J. Halldórsdóttir og Halldór Blöndal en aðrir nefndarmenn leggja til að frv. þetta verði samþykkt.