Lánsfjárlög 1991
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til lánsfjárlaga. Þau eru nú sem fyrr mótuð af niðurstöðum fjárlaga og þeirri efnahagsstefnu stjórnvalda sem felst í fjárlögum á hverjum tíma.
    Að þessu sinni eru helstu einkenni frv. til fjárlaga sem snerta lánsfjármál eftirfarandi:
    1. Sparnaður innan lands hefur verið ört vaxandi á undanförnum árum og lagt grunn að innlendri lánsfjármögnun ríkissjóðs og opinberra sjóða án þess að þrengt hafi verið að öðrum aðilum á lánamarkaði.
    2. Hrein lánsfjáröflun ríkissjóðs mun lækka nokkuð á árinu 1991 þrátt fyrir aukna útgáfu húsbréfa sem ríkissjóður stendur í ábyrgð fyrir. Góðar líkur eru á að hennar verði aflað alfarið innan lands án hækkunar á vöxtum.
    Það er vissulega verulegur árangur að hafa mótað þá stefnu í verki að afla lánsfjár ríkissjóðs alfarið á innlendum mörkuðum og geta jafnframt um leið stuðlað að þeirri raunvaxtalækkun sem orðið hefur á verðbréfum ríkisins á undanförnu 1 1 / 2 ári. Þær tvær staðreyndir endurspegla vel það jafnvægi sem hér hefur náðst á peningamarkaði í kjölfar þeirrar stjórnarstefnu sem tekin var upp haustið 1988.
    3. Frv. felur í sér að erlendar skuldir ríkissjóðs lækka á árinu 1991, annað árið í röð. Það er einnig mjög mikilvægt að geta haldið áfram að fylgja fram þeirri stefnu að lækka erlendar skuldir ríkissjóðs ár frá ári.
    Betra jafnvægi ríkir nú á innlendum lánamarkaði en hér hefur ríkt um margra áratuga skeið. Um þessa staðreynd eru allir sérfræðingar í peningamálum sammála. Það jafnvægisástand er enn einn viðbótarvitnisburðurinn um þann mikla árangur sem efnahagsstjórnin á síðustu tveimur árum hefur skilað. Þannig jukust útlán lánastofnana í heild um 4,3 milljarða kr. frá síðustu áramótum til júníloka, eða um 9%. Meira en 90% af þessari útlánaaukningu, ég vek athygli á því, var fjármögnuð með innlendum sparnaði en hann hefur aukist um 39 milljarða kr. eða um 13%. Hreint erlent lánsfé, þ.e. nýjar lántökur að frádregnum afborgunum af eldri lánum, jókst á sama tíma um 3,5 milljarða kr. í bankakerfinu. Útlán hafa því vaxið hægar en peningalegur sparnaður það sem af er þessu ári. Þessi niðurstaða um markaðsstarfsemina í peningamálum er líka enn einn vitnisburðurinn um þann stöðugleika sem hér er að skapast.
    Upp undir helmingur aukinna útlána á fyrri hluta ársins 1990 fór til heimila. En skuldir heimilanna hafa verið vaxandi allan þennan áratug af ýmsum ástæðum, m.a. vegna framkvæmda í húsnæðismálum. Tæplega þriðjungur, eða 13,3 milljarðar kr., fór til atvinnufyrirtækja en það sem eftir stendur, um það bil fjórðungur, fór til ríkisins. Það er athyglisverð staðreynd í ljósi þess að margir hafa fullyrt að ríkissjóður væri svo umsvifamikill á lánamarkaðnum að hann væri aðalgerandinn í þeim atburðum sem sumir hafa viljað kalla óróa á peningamarkaðnum síðustu vikurnar. Staðreyndirnar tala hins vegar öðru máli. Aðeins

um fjórðungur af útlánunum fór til ríkisins og ríkissjóður var í ágústmánuði búinn að afla þess innlenda lánsfjár sem honum var ætlað að afla. Síðan þá, eða á haustmánuðum og þessum vetrarmánuðum, er ríkissjóður lítt virkur á lánamarkaðnum vegna þess að hann hefur einfaldlega uppfyllt sínar þarfir. Má í því sambandi geta þess að þeir samningar við lífeyrissjóðina um kaup á spariskírteinum, sem gerðir voru í sumar, fela í sér að í nóvember og desembermánuði munu lífeyrissjóðirnir kaupa um það bil 300 millj. kr. af spariskírteinum frá ríkinu. Til samanburðar má geta þess að heildarráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna á þessu ári er 25 milljarðar. Þá sjá menn að kaup lífeyrissjóðanna af spariskírteinum síðustu tvo mánuði ársins, eða 1 / 6 ársins, eru aðeins örlítið brot af heildarráðstöfunarfé sjóðanna á þessu ári.
    Það sem er hins vegar gleðilegast við það sem hefur verið að gerast í lánsfjármálum ríkisins eru þær geypilegu vinsældir sem áskriftarkerfið að spariskírteinum ríkisins nýtur hjá almenningi. Sú hugmynd að bjóða almenningi áskrift að spariskírteinum ríkisins í gegnum greiðslukortafyrirtæki er íslensk nýjung. Það er hugmynd sem fæddist hjá okkur í fjmrn. sem ein af nýjum aðferðum til þess að styrkja innlenda lánsfjáröflun ríkissjóðs. Hugmynd sem vakið hefur mikla athygli erlendis, bæði á peningamörkuðum erlendis, hjá þeim fyrirtækjum sem starfandi eru á þeim markaði, og hennar hefur verið getið í kynningarritum greiðslukortafyrirtækja og í gögnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og annarra slíkra stofnana.
    Þeir menn sem ásamt okkur mótuðu þessar tillögur fyrir rúmu ári bjuggust kannski við því að hægt væri að ætlast til þess að um það bil 700 -- 1000 Íslendingar mundu gerast þátttakendur í áskriftarkerfinu að spariskírteinum ríkissjóðs. Núna eru um 8.000 Íslendingar orðnir áskrifendur að spariskírteinum ríkissjóðs. Það er um tífalt meiri fjöldi en bjartsýnustu menn bjuggust við þegar kerfinu var ýtt úr vör fyrir rúmu ári síðan. Það er mikið fagnaðarefni að þessari nýjung skuli hafa verið tekið jafnvel af almenningi í landinu og svona stór hluti skuli nú vera orðinn reglulegur þátttakandi í þessu sameiginlega sparnaðarkerfi okkar landsmanna. Ég get þessa hér vegna þess að þessi nýjung hefur orðið að keppa við almenn skilyrði á peningamarkaði. Það hefur ekki verið beitt neinum þvingunum eða öðrum óeðlilegum aðferðum við að afla henni vinsælda, heldur er hér fyrst og fremst árangur af hinni almennu markaðsstarfsemi fjmrn. á peningamarkaðina í landinu í samkeppni við aðra aðila. Það sýnir að með nýjum vinnubrögðum og hugmyndaauðgi er hægt að ná verulegum árangri á innlendum peningamarkaði með jafntraustar vörur og spariskírteini ríkissjóðs eru.
    Ég mun nú, virðulegi forseti, víkja nokkuð að lántökum opinberra aðila. Skv. lánsfjáráætlun og frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1991 eru heildarlántökur opinberra aðila og sjóða áætlaðar 39,2 milljarðar kr. Þessar lántökur skiptast þannig að 32,6 milljarðar yrðu fjármagnaðir á innlendum lánamarkaði en 6,6 milljarðar erlendis. Hrein lánsfjárþörf, þegar frá eru dregnar afborganir erlendra lána, er talin verða um 21,1 milljarður kr. Þar af er stefnt að að 20,4 milljarðar verði á innlendum markaði og aðeins 0,7% erlendis. Það er lægsta hlutfall sem menn hafa séð hér um langt árabil af erlendum lántökum, af hinni hreinu lánsfjárþörf opinberra aðila, aðeins í kringum 3% af heildarupphæðinni. Hreinar lántökur þessara aðila svara þannig til í heild 5,7% af áætlaðri landsframleiðslu 1991 samanborið við 6,4% á yfirstandandi ári og er því hér um lækkun að ræða.
    Þessi mikilvæga lækkun á lánsfjárþörf hins opinbera er enn á ný vitnisburður um þann stöðugleika sem hér hefur skapast í peninga- og lánamálum. Þó er þess að geta að í fyrrnefndri lánsfjáráætlun næsta árs er gert ráð fyrir útgáfu húsbréfa fyrir 10 milljarða kr., en ríkissjóður er ábyrgðaraðili þeirra bréfa eins og kunnugt er. Af þeirri fjárhæð eru 5 milljarðar kr. umfram kaupskyldu lífeyrissjóða af Húsnæðisstofnun sem samkvæmt eldri tilhögun hefði verið fjármögnuð af lífeyrissjóðum og bankakerfi.
    Miðað við áætlun um innlendan sparnað, sem ég mun fjalla um hér á eftir, má telja líklegt að þessi áform sem ég hef nú lýst geti gengið eftir án neinnar röskunar á innlendum lánamarkaði. Þó ríkir nokkur óvissa um eftirspurn eftir lánsfé frá fyrirtækjum en hún hefur verið með minnsta móti á yfirstandandi ári. Er það m.a. afleiðing af gífurlegri fjárfestingu fyrirtækjanna á þensluárum að undanförnu og svo einnig það að stjórnendur fyrirtækja hafa blessunarlega lært þá lexíu að það borgar sig að ráðstafa fjármunum fyrirtækjanna með öðrum hætti en óhóflegri fjárfestingu ef framtíðararður á að skapast í fyrirtækjunum. Fyrirliggjandi áætlanir um fjárfestingu á næsta ári benda heldur ekki til mikillar lánsfjáreftirspurnar hjá fyrirtækjunum. Á hinn bóginn má reikna með að gjaldeyrisstaða þjóðarbúsins rýrni nokkuð á næsta ári og lakari gjaldeyrisstaða muni að öllum líkindum hafa neikvæð áhrif á lausafjárstöðu innlánsstofnana á því ári.
    Heildarlánsfjárþörf A - hluta ríkissjóðs á árinu 1991 er áætluð 11,9 milljarðar kr. og lækkar um 0,5 milljarða kr. frá yfirstandandi ári. Þessu lánsfé er ætlað í fyrsta lagi að mæta afborgunum af eldri lánum og nemur sú upphæð 7 milljörðum kr. Afborganir aukast á milli ára um 2,5 milljarða, sem skýrist aðallega af aukinni innlausn spariskírteina. Afborganir af erlendum lánum ríkissjóðs eru áætlaðar 1,3 milljarðar líkt og í ár. Í annan stað er nýjum lántökum ríkissjóðs ætlað að standa undir veittum lánum til fyrirtækja og sjóða í B - hluta. Veitt ný lán, umfram innheimtar afborganir af áður veittum lánum, nema um 1,1 milljarði og þar af um hálfur milljarður í skammtímalán á viðskiptareikningi. Loks er nýjum lántökum ríkissjóðs ætlað að standa undir halla á ríkissjóði en hann er í fjárlagafrv. fyrir næsta ár áætlaður 3,7 milljarðar kr.
    Stefnt er að því að afla alls þessa lánsfjár innan lands á árinu 1991. Þegar við tókum við haustið 1988 stefndi í það að 80% af lánsfjárþörf ríkissjóðs yrði mætt með erlendum lántökum. Á árinu 1989 tókst að snúa þessari þróun við þannig að á því ári var 80%

af lánsfjárþörfinni mætt hér innan lands, hjá okkur sjálfum. Í ár, 1990, er nú orðið ljóst að lánsfjárþörfinni verður 100% mætt hér innan lands, og jafnvel rúmlega það, vegna þess að horfur eru á því að hægt verði að greiða til baka til Seðlabanka og afborganir af erlendum lánum með innlendri lánsfjáröflun, hér á markaði hjá okkur sjálfum.
    Þessari stefnu verður haldið áfram á næsta ári og ég vona að hún verði fordæmi sem aðrir muni ekki víkja frá á þeim árum sem fara í hönd svo að hér verði algerlega fest í sessi sú stefna að ríkissjóður afli alls þess lánsfjár sem hann þarf á innlendum peningamarkaði og hætti þeirri röngu stefnu, sem hér hefur verið fylgt um áraraðir, að taka erlend lán fyrir lánsfjárþörf ríkissjóðs. Sumir hafa viljað binda þessa nýju stefnu í lög. Ég tel hins vegar mikilvægara að sýna hana í verki. Það hefðu fáir trúað því á á árinu 1988, þegar hér var allt að fara um koll, að tveimur árum síðar væri hægt að ná þeim árangri á frjálsum innlendum peningamarkaði af hálfu ríkissjóðs að mæta allri lánsfjárþörfinni með sölu verðbréfa innan lands, til landsmanna sjálfra, og brjóta þannig í blað og marka fordæmi sem þær ríkisstjórnir sem á eftir þessari koma verða að fylgja ef stöðugleiki á að haldast í efnahagsmálum okkar Íslendinga. Það var áformað að selja spariskírteini ríkisins fyrir 6,6 milljarða kr. og þegar hafa verið seld spariskírteini fyrir þá upphæð.
    Þá hefur einnig verið mikil sala í ríkisvíxlum og hefur ríkissjóður að stærstum hluta fjármagnað þörf sína fyrir árstíðabundið lánsfé með sölu ríkisvíxla þannig að ríkissjóður hefur getað hætt hinum gömlu, hefðbundnu árstíðabundnu viðskiptum sínum og lántökum í Seðlabankanum og í staðinn fjármagnað sveiflukennda fjárþörf sína algerlega með sölu ríkisvíxla á innlendum samkeppnismarkaði. Það eru þess vegna nokkur tíðindi að ríkissjóður skuli geta rekið sig með slíkum samkeppnishætti á innlendum peningamarkaði án þess að eiga nokkur sérstök viðskipti við Seðlabankann.
    Þá hefur verið ákveðið, eins og ég gat um áðan, að fjármagna 2 milljarða kr. skuld ríkissjóðs við Seðlabankann, vegna greiðsluhalla ársins 1989, með innlendu lánsfé í stað erlendrar lántöku eins og þá hafði verið áformað fyrir árið 1989. Ég vil einnig geta þess að boðuð hefur verið útgáfa ríkisbréfa sem eru nýir verðpappírar, frá sex mánuðum og til þriggja ára, og verða
boðnir með nafnvöxtum og eiga að geta orðið enn frekari viðbót við þann stöðugleika á peningamarkaði sem lánsfjáröflun ríkissjóðs hefur verið að festa í sessi.
    Hrein lánsfjárþörf byggingarsjóðanna, að viðbættri útgáfu á húsbréfum, er áætluð um 17 milljarðar kr. á árinu 1991. Lánveitingar til húsnæðismála með ábyrgð ríkissjóðs eru hins vegar tæpir 19 milljarðar kr. Til samanburðar má nefna að fjárfesting í íbúðarhúsnæði er áætluð 16,5 milljarðar kr. og er þá gert ráð fyrir 5% aukningu framkvæmda á milli ára. Þetta er þó ekki eini stuðningur hins opinbera við húsbyggjendur þar sem í fjárlagafrv. 1991 er gert ráð fyrir rúmum 3 milljörðum í húsnæðis - og vaxtabætur og framlag til Byggingarsjóðs verkamanna. Það er athyglisvert að það gleymist stundum þegar verið er að ræða um fjármögnun húsnæðislánakerfisins hér á hv. Alþingi, að ég tali nú ekki um í fjölmiðlum landsins, að í gegnum tekjuskattskerfið ver ríkissjóður á hverju ári allnokkrum milljörðum í vaxtabætur og húsnæðisbætur sem eru eiginleg framlög ríkissjóðs til reksturs þessa kerfis.
    Hvað varðar aðra opinbera lánasjóði nema afborganir af eldri lánum um 1 milljarði kr. hærri fjárhæð en fyrirhugaðar nýjar lántökur.
    Eins og ég gat um áðan, virðulegi forseti, hefur innlendur sparnaður stöðugt farið vaxandi undanfarin ár. Í árslok 1989 var stofn peningalegs sparnaðar á lánamarkaðinum kominn yfir 300 milljarða kr. eða 94% af landsframleiðslu. Þar af var svokallaður kerfisbundinn sparnaður um 165 milljarðar kr. en þar er auðvitað fyrst og fremst um lífeyrissjóðina að ræða. Frjáls sparnaður, sem er einkum bankainnlán, kaup á ríkisskuldabréfum og markaðsverðbréfum, nam hins vegar um 138 milljörðum kr. Til samanburðar má nefna að í árslok 1980 var þetta hlutfall 47% en er hins vegar 94% af landsframleiðslu nú. Samanburðurinn á þeim tveimur tölum sýnir í hnotskurn þann mun sem hér er á.
    Samkvæmt áætlun Seðlabankans er talið að innlendur sparnaður muni aukast um 35 milljarða kr. á þessu ári og 38 milljarða kr. á því næsta þannig að í árslok 1991 verður sparnaðarhlutfallið orðið 113% af landsframleiðslu. Þessi spá byggist á forsendum þjóðhagsáætlunar um raunstærðir og verðlag en sjálfstæðum áætlunum um ýmsa þætti sparnaðar, svo sem lífeyrissparnað. Nýr sparnaður héldist samkvæmt þessu sem svipað hlutfall af landsframleiðslu á þessu ári eða um 10,5% samanborið við 7% árið 1989. Áframhaldandi þróun til aukningar á þessu sparnaðarhlutfalli er líka enn einn vegvísirinn um þann stöðugleika í efnahagsmálum sem hér hefur tekist að mynda. Þessar raunstærðir mundu ekki koma fram á þeim frjálsa peningamarkaði sem hér er í landinu nema raunverulegur stöðugleiki væri orðinn staðreynd, bæði í hagkerfinu og ekki síður í hugum fólksins.
    Grunnvextir verðtryggðra lána hafa haldist nær óbreyttir frá fyrra ári. Grunnvextir ríkisskuldabréfa hafa almennt verið á bilinu 6 -- 7% en vextir á verðtryggðum bankalánum eru á bilinu 7,25 -- 9,5%, allt eftir mati á lánstrausti lánþega.
     Í tengslum við söluátak á spariskírteinum á miðju ári bauð ríkissjóður ávöxtun á spariskírteinum sem var á bilinu 6,85% til 7,05% til stærri kaupenda sem keyptu fyrir umtalsverðar upphæðir í spariskírteinum. Slíkum sértilboðum til stórkaupenda hefur nú verið hætt og ég legg á það ríka áherslu vegna þess að ég hef orðið var við þann útbreidda misskilning, sérstaklega í umræðum um húsbréfakerfið og svörum forsvarsmanna Landsbréfa, að því er haldið fram að þessi sérstöku tilboð um spariskírteini ríkisins séu enn í gildi. Svo er ekki. Þeim var hætt fyrir allnokkru síðan og nú eru eingöngu í boði spariskírteini með

6 -- 6,2% vöxtum. Raunvextir verðtryggðra skuldbindinga miðað við framfærsluvísitölu hafa á þessu ári verið nokkru lægri en á því síðasta enda minni munur á hækkunum á lánskjaravísitölu og framfærsluvísitölu á þessu ári en á árinu 1989. Raunvextir óverðtryggðra útlána hafa á þessu ári verið hærri en í fyrra, en þá voru þeir með lægsta móti.
    Ég vil í þessu sambandi geta þess að þær þúsundir einstaklinga sem hafa verið að bætast inn í áskriftarkerfi spariskírteina ríkisins af fúsum og frjálsum vilja á síðustu vikum og mánuðum hafa gert það á grundvelli þeirra vaxta, 6 -- 6,2%, sem ég gat um áðan. Það er mikilvægt að menn hafi það í huga að það vaxtastig hefur dugað til þess að draga þúsundir nýrra Íslendinga í hverjum mánuði inn í áskriftarkerfi spariskírteina ríkissjóðs.
    Virðulegi forseti. Hvað snertir erlend lán eru horfur á að erlendar lántökur til lengri tíma verði um 20,4 milljarðar kr. á árinu 1990 en það er um 2,5 milljörðum kr. minna en gert var ráð fyrir í áætlun lánsfjárlaga. Þessi munur, að erlendu lántökurnar verða minni í ár en gert var ráð fyrir í lánsfjárlögum, skýrist fyrst og fremst af því að áformin um lántökur ríkissjóðs á erlendum markaði hafa í framkvæmd verið minni en ætlað var. Með lánsfjárlögum og fjárlögum var ríkissjóði heimiluð 2,4 milljarða kr. erlend lántaka. Nú stefnir allt í það að ríkissjóður taki engin erlend lán í ár, þ.e. hinn eiginlegi ríkissjóður. Ríkissjóður er hins vegar milligönguaðili um 900 millj. kr. lántöku fyrir sveitarfélög og fyrirtæki og sjóði í B - hluta sem fara um Endurlán ríkissjóðs. En hinar eiginlegu lántökur ríkissjóðs verða engar erlendar á þessu ári. Samdráttur í fjárfestingum atvinnuvega og bætt staða viðskiptabanka hefur auðveldað ríkissjóði að mæta lánsfjárþörfinni innan lands, eins og ég gat um áðan.
    Afborganir af erlendum lánum eru taldar verða um 11 milljarðar kr. og hreint innstreymi langra lána nemur því 9,4 milljörðum kr., sem er um 2,8% af landsframleiðslu á árinu 1990. Árið 1991 eru erlendar lántökur þjóðarbúsins áætlaðar 17,1 milljarður kr. og lækka um 16% frá árinu í ár. Aftur á móti aukast afborganir af fyrri lánum um 37% og nema um 15,1 milljarði kr. sem er afleiðing af þeirri efnahagsstefnu sem rekin var hér fyrr á árum og mun væntanlega leiða til þess að syndir þeirrar efnahagsstefnu munu skila sér í auknum afborgunum af erlendum lánum á næstu árum. Hreint innstreymi langra lána verður því um 2 milljarðar kr. eða 0,5% af landsframleiðslu á árinu 1991. Ríkissjóður mun á næsta ári ekki heldur taka neitt erlent lán frekar en á þessu ári og ekki heldur til þess að greiða afborganir eldri lána, sem nema 1,3 milljörðum kr., vegna þess að reynt verður að mæta því með innlendri lántöku.
    Virðulegi forseti. Hvað snertir greiðslujöfnuð þjóðarbúsins er í þjóðhagsáætlun 1991 reiknað með að viðskiptahallinn verði um 5,7 milljarðar kr. eða um 1,6% af áætlaðri landsframleiðslu 1991 í stað 2% sem reiknað var með í ár. Minni viðskiptahalli stafar að nokkru leyti af samdrætti í innflutningi sérstakra fjárfestingarvara, einkum flugvéla. Á árinu 1991 er gert

ráð fyrir að hreint innstreymi langra erlendra lána verði aðeins um 3,2 milljarðar kr. og vantar þá um 3,9 milljarða kr. til að fjármagna viðskiptahalla ársins. Hér er gert ráð fyrir að erlendar skammtímaskuldir aukist um 2,9 milljarða og fjármagnsjöfnuðuður verði jákvæður um 4,9 milljarða. Samkvæmt því mun gjaldeyrisstaðan breytast um 1 milljarð kr. árið 1991.
    Stöðugt gengi og minnkandi viðskiptahalli ásamt lækkun á erlendum skuldum ríkissjóðs mun leiða til þess að hrein skuldastaða þjóðarbúsins, þ.e. löng erlend lán og skammtímaskuldir að frádreginni gjaldeyriseign þjóðarinnar, mun lækka á næsta ári, annað árið í röð. Ég tel mikilvægt að vekja athygli á þessari staðreynd vegna þess að hvað eftir annað les maður á opinberum vettvangi þá fullyrðingu að í ár og á næsta ári muni skuldastaða þjóðarbúsins erlendis aukast. Staðreyndirnar tala hins vegar sínu máli. Þær lækka í ár og einnig á næsta ári. Hrein skuldastaða íslenska þjóðarbúsins gagnvart útlöndum nam 48,4% af landsframleiðslu í lok ársins 1989, er áætluð 48% í ár og verður 46% á næsta ári. Greiðslubyrði afborgana og vaxta af erlendum lánum hefur breyst í hátt við skuldastöðuna á undanförnum árum. Hæst fór greiðslubyrðin árið 1985, í góðærinu, í 10% af landsframleiðslu en fór síðan lækkandi vegna aukins útflutnings og vaxtalækkunar á erlendum lánamörkuðum þannig að meðalvextir erlendra lána, sem voru um 10% 1983 -- 1984, lækkuðu í 7,8% 1987 og 1988.
    Virðulegi forseti. Í samræmi við markaða stefnu í frv. til fjárlaga fyrir árið 1991 um skerðingu lögboðinna framlaga er í II. kafla þessa frv. mælt fyrir breytingum á ákvæðum viðkomandi laga í stíl við það sem gert hefur verið í lánsfjárlögum um langt árabil. Hér er um að ræða skerðingu á sjálfvirkum framlögum til ýmissa aðila sem bundin eru í sérlögum. Þess ber þó að gæta að í undirbúningi eru frv. til laga um breytingar á nokkrum þessara sérlaga. Ef þær breytingar verða samþykktar hér á Alþingi mun það leiða til endurskoðunar eða niðurfellingar á nokkrum þeim skerðingarákvæðum sem hér eru tilgreind. Þannig eru lög um málefni fatlaðra nú í endurskoðun. Einnig mun heilbrrh. væntanlega leggja fram frv. til laga um breytingar á lögum um málefni aldraðra og loks mun dóms - og kirkjumálaráðherra á næstunni leggja fram frv. til laga um kirkjugarða og frv. um breytingar á lögum um sóknargjöld.
    Virðulegi forseti. Frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1991 tekur mið af þeim árangri sem náðst hefur í að bæta jafnvægi á innlendum lánsfjármarkaði og stuðlar það að því að bæta enn frekar og styrkja þann stöðugleika sem hér hefur myndast. Nú er svo komið í okkar þjóðfélagi að jafnhliða auknu frjálsræði í peningakerfi landsmanna er fylgt þeirri opinberu stefnu sem í verki hefur reynst svo árangursrík að opinberir aðilar og sjóðir geta nú nær alfarið mætt lánsfjárþörf sinni á samkeppnismarkaði hér innan lands án þess að það leiði til hækkunar á vöxtum. Það hefur stundum verið sagt að markaðurinn sé harðasti dómarinn um árangur efnahagsstefnunnar. Nú hefur peningamarkaðurinn í landinu kveðið upp sinn eigin dóm

um árangur þeirrar stjórnarstefnu sem hér hefur verið fylgt og vona ég að þeir menn hér í þingsölum sem hæst og lengst hafa talað um ágæti peningamarkaðarins muni sætta sig við niðurstöður þess dóms sem hann hefur í verki kveðið upp yfir ágæti þeirrar efnahagsstefnu sem hér hefur verið fylgt á síðustu tveimur árum vegna þess að dómur markaðarins er væntanlega hlutlaus. Hann er einstaklingunum og fyrirtækjunum í hag og niðurstaða hans er ótvíræð. Hún er jákvæðasti úrskurður sem sá dómur hefur fellt hér í þrjá áratugi.