Lánsfjárlög 1991
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið og vissulega gæfi hún tilefni til að fara dálítið ítarlega yfir þessi mál. Það er alveg rétt sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði hér áðan að hann mundi gera þveröfugt við allt það sem við höfum gert. Þess vegna var verðbólgan 30% þegar Sjálfstfl. réði. Þess vegna var halli á viðskiptum við útlönd þegar Sjálfstfl. réði. Þess vegna voru raunvextirnir 9 -- 10% þegar Sjálfstfl. réði og voru reyndar á sumum pappírum 14 -- 18%. Og þannig gæti ég haldið áfram að telja vegna þess að Sjálfstfl., þegar hann fór með ríkisfjármálin, lækkaði vissulega skattana en hann jók ríkisútgjöldin á sama tíma og hann fjármagnaði hallann með erlendum lánum. Og það er þessi stefna, 1985 -- 1987, sem Efnahags- og framfarastofnunin, virtasta efnahagsstofnun Vesturlanda, fordæmdi í þeirri skýrslu sem hún gaf út um efnahagsstjórnina á Íslandi. Það er nefnilega tiltölulega létt verk að koma hér upp og flytja ,,popúlistískar`` ræður um að lækka skattana. Það getur hver einasti maður gert. Ég ber hins vegar mikla virðingu fyrir hv. þm. Eyjólfi Konráði Jónssyni og ég vona að í næstu ræðu útskýri hann hvar hann ætlar að skera niður á móti í útgjöldum ríkisins. Ég skal leggja honum til skrá, reyndar þarf ég ekki að gera það, hún er í fjárlagafrv. sem liggur á borði hans, yfir helstu útgjaldaflokka ríkisins. 40% af útgjöldunum eru greiðslur til almannatrygginga, til gamla fólksins, og til ýmissa annarra sem eru jöfnunargreiðslur til að bæta kjörin í okkar þjóðfélagi. Varla ætlar hann að skera það. Önnur 40% eru gjöldin til heilbrigðiskerfisins, skólakerfisins, samgöngukerfisins og annarra mikilvægra þátta sem Sjálfstfl. hefur talið að hann vildi auka útgjöldin til. Þá eru eftir 20%. Rúmlega 10% af því eru vextir af erlendum lánum og innlendum sem ríkisstjórnir fyrri tíðar hafa tekið og restin er framkvæmdir, fjárfestingar í landinu.
    Sjálfstfl. boðar nefnilega skattalækkun án þess að segja hvar á að skera. Frambjóðendur Sjálfstfl. í prófkjöri í Reykjavík svöruðu flestir játandi, nema Geir Haarde og það verður að virða hann fyrir það, hann er eini maðurinn í prófkjöri Sjálfstfl. sem þorði að vera pínulítið nálægt sannleikanum, allir hinir, þegar þeir voru spurðir: Eruð þið fylgjandi því að afnema þá skatta sem hafa verið lagðir á í tíð núverandi ríkisstjórnar? Þeir sögðu allir já. Og hugmyndaríkur maður spurði: Er það líka virðisaukaskatturinn sem á að leggja af? En jafnvel þó við sleppum honum hefur Sjálfstfl. reiknað þetta upp á 13 milljarða og það er 5 milljarða halli á ríkissjóði þannig að það er þá 18 milljarða vandi ef á að ná jöfnuði í ríkisfjármálunum.
    Hv. þm. Eyjólfur Konráð svaraði kjósendum Sjálfstfl. því líka að hann ætlaði líka að leggja niður skattana sem voru lagðir á í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur því lofað kjósendum sínum í Reykjavík að minnka tekjur ríkisins um rúma 20 milljarða, en hann hefur ekki sagt orð um það hvar hann ætlar að skera niður á

móti, ekki orð. Hann talaði mikið um sannleikann og lygina hérna áðan, sakaði mig og ýmsa aðra um að vera boðbera lyginnar. Er ekki rétt að segja kjósendum í Reykjavík líka sannleikann, hvar á að skera niður á móti, eða á kannski bara að taka erlend lán fyrir 20 milljarða halla á ríkissjóði? Hvað er það nákvæmlega sem Sjálfstfl. er að boða í ríkisfjármálum? Morgunblaðið spurði að því í leiðara á sunnudaginn af því að Morgunblaðið vissi ekki hver stefna Sjálfstfl. í ríkisfjármálum er. Morgunblaðið sagði í leiðara: ,,Það er tími til kominn að Sjálfstfl. geri grein fyrir því hver er stefna Sjálfstfl. í ríkisfjármálum.`` Meðan Morgunblaðið veit ekki hver hún er er varla von að við hinir eða þjóðin viti hver hún er, en reynslan talar sínu máli. ( SalÞ: Veit ráðherrann ekki að Morgunblaðið er blað allra landsmanna?) Morgunblaðið styður stefnu Sjálfstfl. þó að það styðji ekki Sjálfstfl. sem skipulagsheild. Og í Morgunblaðinu má sjá mjög rækilega stuðninginn sem þar er við málstað Sjálfstfl. og forustu Sjálfstfl. með margvíslegum hætti og það veit hv. þm. Salome Þorkelsdóttir, en ég skil vel að þetta sé viðkvæmt mál fyrir Sjálfstfl.
    Það er nefnilega þetta sem er kjarninn í því sem forsrh. og aðrir sögðu. Þeir menn sem boða hérna skattalækkun verða að leggja fram tillögur um það hvar þeir ætla að skera niður á móti, en það gerir enginn af talsmönnum Sjálfstfl. Það er þess vegna sem allt þetta tal um skattalækkanir, án þess að leggja fram um leið skrá yfir ríkisútgjöldin sem á að skera niður, er marklaust lýðskrum og alls ekki samboðið mönnum sem vilja láta taka sig alvarlega í stjórnmálaumræðum í landinu.
    Ég hef hingað til tekið hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson alvarlega og hann veit það. Ég hef reynt hér í þingsölum að eiga við hann orðastað um stefnu hans í peningamálum og fjármálum, sem meira að segja hans eigin flokksmenn hafa ekki viljað ræða við hann, af því að ég hef tekið hann alvarlega. En þá bið ég um það að sá sem kemur hér í ræðustól og boðar það, og boðar það í prófkjöri Sjálfstfl. og fær verulegt fylgi út á þá stefnu eins og niðurstaða prófkjörsins sýnir, sýni okkur hvar hann ætlar að skera niður þessa 20 milljarða, nákvæmlega, ekki með einhverjum almennum orðum um eyðslu og óhóf, heldur nákvæmlega. ( EKJ: Ég ætla að svara hæstv. ráðherra á eftir.) Að sjálfsögðu, og ég mun bíða eftir svarinu og það munu fleiri bíða eftir svarinu og Morgunblaðið bíður líka eftir svarinu. (Gripið fram í.) En þá duga ekki almennar fullyrðingar. Það verða að vera framlögin til almannatrygginga, framlögin til sjúkrahúsanna, framlögin til skólanna, og ég vil bara taka sem dæmi að rekstur ríkisspítalanna eins og Borgarspítalans er bara 1 / 3 af þessari upphæð sem hv. þm. ætlar að skera niður. Þótt rekstri framhaldsskólanna og grunnskólanna sé bætt við dugir hann ekki upp í þennan niðurskurð. Hér er þess vegna ekki um litlar upphæðir að ræða.
    Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson ætlar að skera niður sem nemur helmingnum af öllum útgjöldum til heilbrigðis- og skólakerfisins í landinu, nema hann

ætli að skera niður hjá gamla fólkinu og sjúkum í tryggingakerfinu og fötluðum og öðrum sem fá greiðslur sínar frá Tryggingastofnun ríkisins, nema hann ætli að hækka verðlagið á landbúnaðarvörum, mjólki og kjöti, með því að leggja niður niðurgreiðslurnar. Ég verð að spyrja, vegna þess að Sjálfstfl. hefur ekki lagt fram eina einustu tillögu um þennan niðurskurð. Og ef hann gerir það ekki en boðar þjóðinni þessar 10 -- 20 milljarða skattalækkanir, eftir því hvaða þingmaður Sjálfstfl. talar, mun annað tveggja gerast eftir kosningar: Annaðhvort verður efnahagslífið sett hér á hvolf ef ekki kemur niðurskurður á ríkisútgjöldum á móti, með sama hætti og Sjálfstfl. setti efnahagslífið á hvolf þegar hann fór með ríkisfjármálin, eða þá að Sjálfstfl. svíkur auðvitað kosningayfirlýsingar sínar. Það er spurningin: Hvort mun Sjálfstfl. setja efnahagslífið á hvolf eða svíkja þessar yfirlýsingar? Eða þá, sem er þriðji kosturinn, að hann segi hvar hann ætlar að skera þetta niður.
    Mér fannst satt að segja ræða hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar vera vitnisburður um það að Sjálfstfl. virðist bara ekki botna neitt í því hvað þarf til að heilbrigt efnahagslíf sé rekið. Hann er að básúna yfir því að ég skuli hafa talið það kost að lántökur fyrirtækjanna hafi minnkað. Af hverju er það kostur? Vegna þess að það hefur verið eitt meginmein íslensks efnahagslífs og atvinnulífs um margra ára bil að fyrirtækin styrkja ekki eiginfjárstöðu sína áður en þau fara út í fjárfestingar heldur taka bara hlutina að láni. Það sem er einmitt að gerast núna í efnahagslífinu og atvinnulífinu er að fyrirtækin eru að styrkja eiginfjárstöðu sína og eru þess vegna hætt að taka lán. Þessi staðreynd er þess vegna eitt mesta heilbrigðismerki sem sést hefur á atvinnulífinu á Íslandi, að eigin fé fyrirtækjanna er loksins farið að vaxa. Sama gilti þegar hv. þm. var að fjargviðrast yfir því sem ég sagði hér um lántökur heimilanna. Af hverju hafa þær aukist? Af því að heimilin hafa farið út í fjárfestingu. Einstaklingarnir hafa farið að fjárfesta í ýmsu sem þeir höfðu ekki trú á eða traust áður, vegna þess m.a. að einstaklingarnir sjá það að núna loksins er höfuðstóll lánanna farinn að minnka, ár frá ári, af því það hefur tekist að ná vöxtunum þannig niður að stig af stigi minnkar höfuðstóllinn þegar menn greiða af lánunum. Nú hittir maður þúsundir einstaklinga sem segja: Í fyrsta sinn um áraraðir sé ég lánin mín minnka. --- Og af því að menn hafa trú á því að þessi efnahagsstefna haldi áfram hefur þetta gerst.
    Það er eins og hv. þm. skoði ekki hvað er á bak við tölurnar. Hann talar um það að hér séu skammtaðir peningar. Það eru engir skammtaðir peningar í dag. Bönkunum er fullkomlega frjálst að lána þessa peninga sem þeir hafa út úr bönkunum, en staða peningastofnana hefur verið að styrkjast vegna þess að atvinnulífið er farið að starfa á heilbrigðum grundvelli. Það er þess vegna sem fjármálastaðan í bankakerfinu hefur styrkst. Það eru engir peningar skammtaðir.
    Hitt er svo rétt hjá hv. þm., og ég er sammála honum um það, að það er kominn tími til þess að leyfa útibúum erlendra banka að starfa hér á Íslandi

og veita fákeppnisbönkunum sem Sjálfstfl. og Framsfl. hafa stýrt hér um áraraðir eðlilega samkeppni, því hverjir hafa stýrt fákeppnisbönkunum á Íslandi aðrir en fyrst og fremst Sjálfstfl. og Framsfl.? Það eru þeir sem í áratugi hafa borið ábyrgð á þessu óhagkvæma og stirðnaða íslenska bankakerfi. Og það er auðvitað athyglisvert að það er þá fyrst þegar Sjálfstfl. fer úr ríkisstjórn sem stigin eru þessi frjálsræðisskref í peningamálum sem hv. þm. var að fagna hérna áðan. Þau voru ekki stigin meðan Sjálfstfl. var í ríkisstjórn. Þau voru stigin eftir að Sjálfstfl. fór úr ríkisstjórn.
    Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson er alltaf að spá gífurlegum halla hjá núv. fjmrh. Ég ætla nú að hlífa hv. þm. við að lesa upp fyrir hann spána sem hann flutti hérna á þinginu 1988 -- 1989 um hallann á árinu 1989. ( EKJ: Ég skal lesa hana upp sjálfur ef hæstv. ráðherra vill.) Það er gott að hv. þm. geri það hér á eftir, lesi sjálfur upp þá spá sem hann hafði um það hver hallinn yrði á ríkissjóði árið 1989 þegar hann spáði 13 -- 14 milljarða halla og sagði að fjmrh. vissi ekkert hvað hann væri að tala um en auðvitað vissi hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hvað hann væri að tala um. Veruleikinn sýndi hins vegar að fjmrh. vissi meira hvað hann var að tala um en hv. þm. Og enn á ný er hv. þm. að koma með þessa sömu spádóma.
    Virðulegi forseti. Eins og ég sagði hér áðan væri tímanum vissulega vel varið hér í hv. deild til þess að fara yfir efnahagsmálin vegna þess að þetta er alvörumál og ég tek hv. þm. alvarlega og hlýt þess vegna að spyrja: Er hann virkilega að boða það að sú gamla stefna Sjálfstfl. sem fékk hér að ráða á árunum 1983 til 1988, í fimm ár, verði tekin upp á ný? Er það virkilega það sem á að bjóða fólki í næstu alþingiskosningum af hálfu Sjálfstfl.?
    Ég sá í gær erlenda útgáfu af niðurstöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um breytingarnar í efnahagsstjórninni á Íslandi á síðustu tveimur árum. Það var mjög fróðleg lesning. Það er jákvæðasta umsögn um efnahagsstjórnina á Íslandi sem hér hefur sést í langan tíma. Eða er það orðið þannig að Sjálfstfl. tekur ekki lengur neitt mark á viðurkenndum vestrænum efnahagsstofnunum? Er það orðið þannig að Sjálfstfl. sé orðinn svo heimóttarlegur og vandræðalegur í málflutningi sínum og tilveruvandamálum sínum hér á Íslandi að hann vísi á bug niðurstöðum virtustu vestrænna stofnana á sviði efnahagsmála, hvort sem það er Efnahags- og framfarastofnunin eða Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða aðrar slíkar stofnanir? Vegna þess að niðurstaða þessara aðila er öll á sama veg: Varist efnahagsstefnuna sem hér var við lýði þegar Sjálfstfl. réð, haldið áfram að fylgja þeirri stefnu sem fylgt hefur verið síðustu tvö ár. Þetta er niðurstaðan hjá þeim öllum. Eða er það þannig að allir þessir vestrænu efnahagssérfræðingar hafi vitlaust fyrir sér en forusta Sjálfstfl. rétt?
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðmundur Ágústsson vék hér aðeins að vaxtastiginu á spariskírteinum ríkissjóðs. Ég vil aðeins vekja athygli á því að fyrir þremur til fjórum árum voru þeir vextir sem boðnir voru á spariskírteinum ríkissjóðs 9 -- 10% raunvextir.

9 -- 10% raunvextir voru þeir vextir sem boðnir voru á spariskírteinum ríkissjóðs þegar Þorsteinn Pálsson var hér fjmrh. Það hefur tekist með samræmdri efnahagsstefnu að ná fram þeirri breytingu að nú eru boðin spariskírteini á 6% raunvöxtum og seljast eins og heitar lummur. Það sýnir muninn á þeirri efnahagsstjórn sem fylgt var þá og þeirri sem er fylgt nú.