Lánsfjárlög 1991
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Ég verð nú að verða við ósk hæstv. ráðherra um að svara honum lítillega. Að vísu veit hann mitt svar og hefur vitað mjög lengi.
    Ég hef ekki verið neinn sérstakur niðurskurðarmaður, eins og hann kallar það, hvorki í stjórnarandstöðu eða í stjórn. Ég hef nefnilega þá trú að það þurfi ekki að skera niður þjónustu við borgarana ef almennilega er stjórnað og atvinnuvegirnir geta aukið sínar tekjur og haldið þeim eftir til einmitt fjárfestinga til þess að auka rekstur og umsvif þjóðfélagsins. Það er nú bara grundvöllurinn að því hvort menn eru sjálfstæðismenn eða sósíalistar. Þetta er reginmunurinn. Sósíalistar, eins og hæstv. fjmrh., trúa því að svo best farnist þjóðinni að sem mest af fjármagninu sé hjá ríkinu sem útdeili, skammti og skeri niður, eftir þörfum, og fjármagnið sé svo takmarkað og afköstin að það þurfi að stjórna þessu öllu saman. Samt segja þeir nú í hina röndina að kannski séu nú afköstin meiri í frjálsu þjóðfélagi en engu að síður verði nú að hafa þessa stefnu.
    Mergurinn málsins er einfaldlega sá að í ofstjórn er ekki sá afrakstur af atvinnuvegunum sem verður í frjálsræðinu. Það er þess vegna stefna Sjálfstfl. auðvitað frá upphafi og kjörorð Jóns Þorlákssonar ,,frá örbirgð til bjargálna`` byggðist á því að frelsi þjóðfélagsins og frelsi borgaranna yrði nægilegt til þess að menn fengju notið sinna hæfileika og þess að fá frjálsir að afla auðæfa. Það er nefnilega auðugt þjóðfélag sem getur séð fyrir borgurunum. Það er ekki af mannvonsku sem hæstv. fjmrh. eða í þessu tilfelli hæstv. heilbrrh. er að loka heilu deildunum á spítölunum. Það er ekki af mannvonsku, mér dettur það ekki í hug. Þeir bara trúa því að þetta sé algjörlega nauðsynlegt vegna þess að þjóðfélagið geti ekki risið undir þessu. ( Gripið fram í: Heilbrrh. lokar ekki deildum.) Hver gerir það þá? ( Gripið fram í: Það er ekki hans ákvörðun.) Hver tekur ákvörðun um það? Ég veit það ekki. Ef það er ekki ráðherrann. Ég veit ekki hver er æðri honum í heilbrigðismálum. Ef það er ekki ráðherrann ... ( Gripið fram í: Forstöðumenn deildanna.) Forstöðumennn deildanna? Ætli þeir fái ekki einhvers staðar fyrirmæli? Ef það eru forstöðumenn deildanna verða menn bara að halda það. Ég held allt annað. Ég held það sé enginn forstöðumaður deildar sem rýkur í að loka henni nema hann hafi fyrirmæli eða einhvers konar ákvarðanir hafi verið teknar á æðri stöðum um að það yrði að gera. Við skulum ekki fara lengra út í þá sálma.
    Mergurinn málsins er þessi, og kannski mundi ráðherrann hlusta af því að hann þykist ekki þekkja mínar skoðanir: Ofsköttun leiðir til þess að afrakstur þjóðfélagsins verður minni en ella. Hófleg sköttun, sem nauðsynleg er, að sjálfsögðu, hjá öllum þjóðfélögum, leiðir til þess að afrakstur eykst og umsvif aukast, bjartsýni og dugnaður og framfarir aukast. Þetta þjóðfélag er auðvitað hæfara til þess, þegar til lengdar lætur í öllu falli, að sjá vel fyrir sínum borgurum, þ.e. fátæka fólkinu sem þarf á lífeyri að halda og ýmiss konar fyrirgreiðslu og
sérstökum kjörum kannski varðandi húsnæðislán o.s.frv. Þetta held ég að allir skilji ef þeir hugsa um það. Nú er ráðherrann byrjaður að lesa --- hann veit þetta allt sem ég er að segja svo að ég held bara áfram. Það er alveg sama hvort hann er inni eða úti. Hann veit þetta allt saman og talaði alveg þvert um hug sinn þegar hann hélt að ég væri að meina eitthvað allt annað en það sem ég var að segja. Þetta er nefnilega alveg augljóst. Ég skal endurtaka það sem ég sagði úr þessum ræðustóli um árið 1987 og skatta hæstv. núv. utanrrh. Ég sagði nákvæmlega það sama og í ræðu minni áðan, að þá hefðu skattar keyrt um þverbak og verið þeir allra verstu og ástandið í stjórn peningamála líklega það allra versta í sögunni fram til þess tíma að þessi hæstv. ráðherra tók við.
    Og hvers vegna var það? Þetta var stjórn sem ég átti mjög ríkan þátt í að stofna, gekk á milli manna til þess að fá þá til að mætast nú. Ég meira að segja lagði það á mig að tilkynna bæði hæstv. núv. forsrh. og hæstv. núv. utanrrh. að ég skyldi gera það að tillögu minni að skattar yrðu --- og haldið ykkur nú --- hækkaðir um einn milljarð til þess að ná þessari stjórn saman. Þeir gátu ekki náð stjórninni saman af því að þeir voru búnir að tala svo illa um minn flokksforingja, hv. þm. Þorstein Pálsson, að það væri svo illa komið fjárhagnum hjá honum að það yrði að stórauka skatta og við féllumst á þessar fyrstu aðgerðir, eins og þeir kölluðu það alltaf. Hér inni og úti um allt land muna menn að það var alltaf talað um að fyrstu aðgerðir yrðu það að vera. Það var stjórnarkreppa og ekki hægt að ná neinum flokkum saman. Fyrstu aðgerðir, sögðu báðir þessir herramenn sem ég var að nefna og þið munið þetta öll sömul. Ég tók það að mér að flytja tillögu um einn milljarð í skattahækkunum af því að allir vissu að ég teldi þetta vera rangt. En það var þó þess virði og þjóðfélagið gat borið það gegn því að menn næðu saman og mynduðu heilbrigða stjórn með því algera skilyrði, og stendur skýrt og skorinort í málefnasamningi ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, að engir skattar skyldu hækkaðir eftir að stjórnin var mynduð. Síðan voru skattar hækkaðir, fyrst og fremst neysluskattar, um 5 milljarða eða svo 2 -- 3 mánuðum seinna. Ég sagði þá bæði við vini mína í Sjálfstfl. og aðra menn. Þetta verður banabiti stjórnarinnar sem því miður varð. Og ég gerði ekki neitt í þessu auðvitað, að það yrði hennar banabiti, en ég óttaðist það og það varð þannig. Síðan hefur allt keyrt um þverbak af því að látið var undan kröfu þessara tveggja hæstv. núv. ráðherra sem ekki stóðu við loforðið, og kannski ekki okkar ráðherrar heldur, um að hækka alls ekki skatta. Það stóð í stjórnarsáttmálanum og af því að hæstv. sjútvrh. glottir þá er það auðvitað rétt. Stjórnin í heild ákvað á fundi --- það hefur sýnilega glatt þennan hæstv. ráðherra mjög mikið --- að dengja yfir um það bil 5 milljörðum í nýjum sköttum sem auðvitað fór með allt úr skorðum. Þeir sögðu að hallinn á fjárlögunum væri svo mikill. Hann gat orðið 3 milljarðar en til vonar og vara skyldu þeir leggja á 5 til að hafa borð fyrir báru. Hann var nefnilega miklu meiri hjá hæstv. utanrrh. eins og hæstv. núv. fjmrh. segir.
    Þetta sannar því mína kenningu nákvæmlega. Ástandið versnar en batnar ekki með auknum sköttum. Halli ríkissjóðs eykst þegar skattar fara upp fyrir ákveðið mark. Þetta hefur sannast ár eftir ár og er að sannast núna. Nú er bara hallinn falinn með auknum innlendum lántökum. Það er alltaf betra en erlendar lántökur. Þetta er svona auðvelt. Þetta hafa sjálfstæðismenn vitað núna í 60 ár og verið þeirra meginboðorð, að svigrúm fólksins yrði það mikið að það gæti skapað auðlegð sem nægði til þess að þjóðin lifði farsælu lífi. En svo náttúrlega eru til kennisetningar allra mögulegra hagfræðinga. Það er alveg rétt en ég tek nú ekki nema takmarkað mark á því öllu, hvað sem stofnunin heitir, að þessir menn viti einhver ósköp um efnahagslífið á Íslandi og að upplýsingarnar sem við fáum hjá stofnununum hérna séu eitthvert guðsorð. Það hefur nú verið alla tíð meira og minna, og ég sagði það hér áðan, að lánsfjárlög voru beinlínis tekin upp til að plata þessa karla þarna úti í heimi. Þetta var bara tekið út úr fjárlögunum. Hérna í gamla daga voru bara fjárlög og engin lánsfjárlög voru til. Þessi leikur með fjárlögin er hreint ekkert nýr. Og ég skal svo gjarnan, þegar við tökum hér rispu seinna, sýna fram á það að það sem ég sagði um hinn eiginlega halla var ekki síður staðreynd en það sem ráðherrann sagði. Hann hefur verið að aukast allan tímann og hagur fólksins er að versna allan tímann. Fjármagn þjóðfélagsins er að hverfa frá fólkinu yfir í stofnanirnar og hítina.
    Ég ætla mér ekki að skera allt niður. Ég ætla að auka þjónustu en ég ætla að lækka hana í hundraðstölu. Ég ætla að lækka gjöld fólksins í hundraðstölu. En afköstin eru það mikil eftir örfá ár og örfá missiiri, að það er hægt að auka við útgjöldin í raunpeningum þó þau séu lækkuð í hundraðshlutum. Og nú skulu menn athuga það að eiginlega allir skattar á Íslandi eru hundraðstölur. Þegar maður fer með 100 kr. út í búð þá verður hann fyrst að borga 25 kr. af þeim. Áður er auðvitað búið að taka staðgreiðsluna og af því að verið var að nefna tölur, að 80 væru nú bundnar í þrem eða fjórum liðum ríkisins og þá eru bara 20 eftir. Ég fullyrði að þessi ríkisstjórn hefur tekið þessar 20 kr. af fólkinu og það hafa ekki orðið eftir nema 20 kr. vegna allra þeirra kjaraskerðinga sem orðið hafa á síðustu 2 -- 3 missirum. Þá voru ekki orðnar eftir nema þessar 20 kr. sem fólkið hafði til þess að lifa mannsæmandi lífi þegar það var búið að borga húsnæðiskostnað og brýnustu nauðsynjar, sem maður verður nú að telja t.d. sjónvarp, síma, útvarp og einhverja bíltík, þá voru einmitt þessi 20% kannski eftir til þess að hafa fyrir mat og brýnustu lífsnauðsynjum. Þær voru teknar. Þess vegna er það sem fjöldi heimila er gjaldþrota, atvinnuvegirnir eru gjaldþrota. Einmitt af því að hæstv. ráðherra nefndi þetta að ríkið ætti nú ekki nema bara 20% eftir þegar það væri búið að borga þessa fjóra stóru liði sem auðvitað eru frumnauðsynjar hvers þjóðfélags, þá væri það ekki eftir fyrir ríkið. En hvað er horft á hvað eftir er hjá fólkinu þegar kjörin eru skert um 10 -- 15%? Hvað er eftir af þessum einu 20% sem það áður hafði til þess að geta leyft sér eitthvað? Er ég þá náttúrlega að tala um láglaunafólk. Aðrir hafa getað leyft sér meira. En tölurnar eru allar saman reiknaðar út frá hundraðshlutum og þær eru teknar æ ofan í æ. Ráðherrann byrjar á því auðvitað að taka staðgreiðsluna. Hvað er hún mikil? Síðan þegar einhver fer út í búð, fátækur eða ríkur, þá borgar hann 25% af því sem þá er eftir beint í virðisaukann og þá er hann búinn að borga svo og svo mikla tolla og öll möguleg og ómöguleg gjöld út og suður alls staðar þar sem við verður komið. Þar er skattur og þar er aftur skattur. Þá hverfur það eina sem fólkið hefur til þess að geta lifað mannsæmandi lífi og það vita þessir herrar sem eru að boða það að auka þetta allt saman og ætla að gera það núna með tilstyrk fólksins með vorinu. Það tekst þeim ekki.