Lánsfjárlög 1991
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ef á að taka hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson alvarlega ( EKJ: Það á að gera það.) þá er þetta auðvitað tilefni til mjög ítarlegrar umræðu. ( EKJ: Já.) Ég velti hins vegar fyrir mér hvort á að taka þingmanninn alvarlega vegna þess að þessi kenning hans hér áðan að lánsfjárlög hefðu verið fundin upp til að plata menn í útlöndum er auðvitað mjög merkileg kenning. En ég veit að hv. þm. tóku eftir því, eins og ég spáði, að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson treysti sér ekki til þess að nefna eitt einasta atriði sem hann mundi skera niður af ríkisútgjöldum. ( EKJ: Ég sagði að ég væri ekki að boða niðurskurð.) Nei, ég ætla einmitt að koma að því. Ekki eitt einasta atriði sem hann ætlar að skera niður. Hann ætlar að lækka skattana um 20 milljarða en ætlar ekkert að skera niður. Og hvar ætlar hann að fá þessa 20 milljarða? Í skatt af atvinnulífinu. Hann ætlar að auka skattana á atvinnulífinu inn í ríkissjóðinn um 20 milljarða í viðbót á næstu 2 -- 3 árum. ( EKJ: Það sjá nú allir í gegnum þetta kjaftæði.) Nei, þetta var það sem hv. þm. sagði en það er hins vegar alveg rétt hjá þingmanninum að það sjá allir í gegnum þetta helvítis kjaftæði. Það er alveg rétt. Vegna þess að hv. þm. sagði það: það á að verða hérna þannig breyting í atvinnulífinu að miðað við óbreyttar skattaprósentur á atvinnulífinu mun atvinnulífið skila þeim viðbótarsköttum inn í ríkissjóð sem nemur þessum 20 milljörðum sem á að lækka skattana á einstaklingunum. Þetta var það sem þingmaðurinn sagði. Ég hefði gaman af því að sjá forustumenn atvinnulífsins, sem alltaf eru að koma til mín og boða nauðsyn þess að lækka skattana á atvinnulífinu á Íslandi í krónum á næstu árum, fjalla um þessa kenningu Eyjólfs Konráðs Jónssonar að það eigi að auka skattana á atvinnulífið um 20 milljarða á næstu 2 -- 3 árum. Ég hugsa að sjútvrh. þætti það nú skemmtilegur boðskapur.
    Vegna þess að hvað er það sem sjávarútvegsfyrirtækin eru að gera núna með hagnaðinn hjá sér? Borga skuldirnar. Borga skuldirnar sem þau söfnuðu á stjórnarárum Sjálfstfl. Þannig að þeim arði sem kemur hér inn í sjávarútvegsfyrirtækin, t.d. á næstu árum, verður aðallega varið til að borga niður skuldirnar frá óstjórnarárum Sjálfstfl. Það veit Einar Oddur. Það veit Kristján Ragnarsson. Það vita aðrir forsvarsmenn sjávarútvegsins á Íslandi. Og ef einhver hlær (Gripið fram í.) Nei, það er alveg rétt að hv. þm. Halldór Ásgrímsson var sjútvrh. ( SalÞ: Hver var forsrh.?) Þorsteinn Pálsson var forsrh. og áður Steingrímur Hermannsson. ( SalÞ: Nú, er það?) Já, en munurinn á þeim og Sjálfstfl. er að þeir áttuðu sig á vitleysunni. (Gripið fram í.) Hv. þm. getur auðvitað kallað fram í hvaða slagorð sem hún vill. En það breytir ekki þeim efnahagslegu staðreyndum. Það breytir því ekki að þessi málflutningur sýnir hér í þingsalnum hvað Sjálfstfl. er fullkomlega óábyrgur, annaðhvort óábyrgur í að boða gegn betri vitund það sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson var að boða eða trúa því sem hann var að boða. Það er að vísu rétt hjá hv. þm.

að þetta er ákveðin kenning. Og það er nú einu sinni þannig að hún hefur nefnilega líka verið prófuð í útlöndum. Hún hefur ekki bara verið prófuð hjá Sjálfstfl. hér á Íslandi. Hún hefur verið prófuð í útlöndum. Þetta er sú kenning sem Ronald Reagan fylgdi á forsetaárum sínum. Kenningin um það að með því að lækka skattana væri hægt að auka svo virknina í atvinnulífinu að þjóðarframleiðslan mundi vaxa með þeim hætti að þrátt fyrir lækkaðar skattaprósentur kæmi meira inn í ríkissjóðinn. ( EKJ: Rétt.) Rétt, segir hv. þm. Ég kann alveg þessa kenningu. Vandinn er bara sá að hún passar ekki við veruleikann. Af hverju er búin að vera núna margra mánaða kreppa milli þings og forseta í Bandaríkjunum vegna fjárlaganna? Vegna þess að í ríkisstjórnartíð Ronalds Reagans jókst fjárlagahallinn meir en nokkru sinni áður þannig að þessi stefna Ronalds Reagans hafði í för með sér meiri aukningu á halla ríkissjóðs en nokkru sinni áður í sögu Bandaríkjanna. Það mikinn halla að hann er líklegast að ganga af núverandi forseta Bandaríkjanna pólitískt dauðum og þingið og forsetinn geta ekki komið sér saman.
    Og hvað hefur gerst? Það sem hefur gerst er það að núna höfum við horft upp á það vikum og mánuðum saman í fréttum að bandaríska þingið og forsetinn ná ekki saman. Jafnvel þótt leiðtogar í þinginu reyni að gera samkomulag við forsetann þá er því samkomulagi hrundið af þinginu. Og Repúblikanaflokkurinn sem boðaði þessa stefnu, sem nú hefur fengið að prófa sig í Bandaríkjunum, býr við fylgishrun þannig að Demókrataflokkurinn hefur aldrei verið sterkari í bandaríska þinginu en hann er núna vegna þess að í síðustu þingkosningum dæmdi bandaríska þjóðin þessa efnahagsstefnu Ronalds Reagans.
Veruleikinn er nefnilega harður húsbóndi, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. Og það er vandinn við þá sem boða kenningar að stundum kemur að því að veruleikinn kveður upp sinn dóm. Veruleikinn hefur kveðið upp sinn dóm yfir því ranga kerfi sem var við lýði í Austur - Evrópu, sem betur fer. En veruleikinn hefur líka kveðið upp sinn dóm yfir þessari efnahagskenningu sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson var hér að boða og hefur leitt til meiri fjárlagahalla í því landi sem kenningin var prófuð í en nokkru sinni fyrr, efnahagsöngþveitis, hárra vaxta og pólitískrar kreppu í landinu. ( GHG: Eru það Bandaríkin eða hvað?) Það eru Bandaríkin já, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. (Gripið fram í.) Já, enda hef ég tekið eftir því að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hefur alltaf haft vit á því að taka aldrei undir þessa kenningar hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar hérna í þingsalnum.
    Ég tek þennan boðskap dálítið alvarlega. Ef Sjálfstfl. fær umboð í næstu alþingiskosningum til að framkvæma þessa stefnu þá verður á einu ári búið að innleiða á ný óðaverðbólguna á Íslandi, vaxtabrjálæðið á Íslandi, viðskiptahallann á Íslandi og stóraukinn halla á ríkisfjármálum á Íslandi. Þetta eru staðreyndir málsins. Er það þetta sem Sjálfstfl. er að boða? Já. Það er greinilega þetta sem hann er að boða samkvæmt þeirri stefnu sem hv. þm. Eyjólfur Konráð

Jónsson flutti hér áðan og enginn þingmaður Sjálfstfl. hér í deildinni hefur mótmælt. Ég tek hins vegar eftir því að Geir Haarde hafði aðspurður í viðtali við kjósendur Sjálfstfl., í prófkjörinu, um þetta vissar efasemdir.
    Það er hins vegar misskilningur hjá hv. þm. að staðgreiðslan fari aðallega til ríkissjóðs í þessari dramatísku skattalýsingu sem þingmaðurinn fór með hérna áðan um hvernig fjmrh. kæmi með krumluna í staðgreiðsluna fyrst o.s.frv. Hver fer aðallega með krumluna í staðgreiðslu Reykvíkinga? Borgarstjórinn Davíð Oddsson. Það er staðreynd málsins. Meginhlutinn af því sem fyrst er skráð hjá ríkinu í staðgreiðslunni er borgað út aftur af ríkinu í formi persónuafsláttar, barnabóta og vaxtabóta. Það sem situr eftir af staðgreiðslunni eru því 12 milljarðar hjá sveitarfélögunum, stærsti hlutinn af því hjá Reykjavíkurborg, og 10 milljarðar hjá ríkinu. Þegar búið er að gera staðgreiðsludæmið upp þá er það krumlan á borgarstjóranum sem situr með stærsta fenginn í sinni hendi, svo að ég noti líkingu hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Þannig að ef hann ætlar að flytja hér miklar ræður um það að það þurfi að minnka þann hlut sem fer í gegnum staðgreiðsluna frá fólkinu til hins opinbera þá á hann fyrst að minnka hjá meðframbjóðanda sínum, leiðtoga Sjálfstfl. í Reykjavík, Davíð Oddssyni, sem er með stærsta krumlufenginn út úr þessari staðgreiðslu. Því ríkið borgar obbann út aftur í sínum jöfnunargreiðslum til barnafjölskyldna, til þeirra sem eru að byggja og til þeirra sem fá persónuafsláttinn. Þetta eru staðreyndir málsins. En það er kannski eins með þessar staðreyndir og aðrar að Sjálfstfl. vilji bara ekki hlusta á þær af því að hann vilji ekki vera flokkur staðreyndanna í íslenskum stjórnmálum. Hann vilji bara lifa í einhverjum kenningalegum draumaheimi líkt og ýmsir lifðu hér áður á einhverjum falskenningum, fyrir mörgum áratugum síðan. En íslensk þjóð hefur auðvitað ekki efni á því.
    Fáum við lýsingu á þessari afstöðu Sjálfstfl.? Hvað er það sem hann vill breyta í staðgreiðslunni ef hann vill að meira sitji eftir hjá fólkinu? Á þá ekki að byrja á útsvörunum í Reykjavík? Því það mesta sem tekið er frá Reykvíkingum í gegnum staðgreiðsluna eru útsvörin. Það eru staðreyndirnar. Sé litið á þennan málflutning hv. þm. Sjálfstfl. virðist hann vera, ef einhver heil brú er í honum, að það eigi að minnka hlutdeild sveitarfélaganna í staðgreiðslunni.
    Virðulegi forseti. Ég sagði það áðan að við ættum að taka okkur tíma til þess að ræða þessa efnahagsstefnu Sjálfstfl. Það fara nefnilega kosningar í hönd og þá höfum við ekki efni á því, þá hefur þjóðin ekki efni á því, að hér í þingsalnum sé látið ómótmælt þeim falskenningum sem Sjálfstfl. heldur fram eða þeim óábyrga áróðri sem hann hefur í frammi hér innan þingsala og utan. Ef hann er tekinn á orðinu þá er hann að segja að hann ætli aftur að innleiða efnahagslega kollsteypu á Íslandi, nema hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson telji sig vera slíkan snilling að það sem samanlagðri forustu Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum tókst ekki, og það sem Ronald Reagan tókst ekki á átta árum þegar hann hafði allt umboð og allt vald til að framkvæma þessa stefnu, og fékk að framkvæma hana, sem leiddi til meiri fjárlagahalla og meira efnahagsöngþveitis en nokkru sinni fyrr í sögu Bandaríkjanna, þá sé það líka byggt á því að það sé allt saman misskilningur í mönnum í útlöndum. Voðalegt er þetta fyrir Sjálfstfl. að vera svona misskilinn af umheiminum, misskilinn af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, misskilinn af Efnahags- og framfarastofnuninni, misskilinn af Repúblikanaflokknum í Bandaríkjunum, misskilinn af Ronald Reagan. Hvar eru þeir menn sem skilja Sjálfstfl. á Íslandi? Hvar eru þeir? ( EKJ: Ronald Reagan, hann er frændi minn er mér sagt.) Það er kannski þess vegna sem hv. þm. hefur tekið upp þessa stefnu? Ég ber þessa spurningu fram í mikilli alvöru. Hvar eru þeir menn sem fást til að staðfesta það að stefna Sjálfstfl. sé efnahagslega skynsamleg? Ég auglýsi eftir þeim. Það er enginn íslenskur hagfræðingur með sjálfsálit og sjálfsvirðingu sem hefur fengist til þess að ganga fram og segja að hún sé skynsamleg. Eini hagfræðingurinn sem náði ofarlega í prófkjöri Sjálfstfl. í Reykjavík afneitaði stefnu Eyjólfs Konráðs Jónssonar, Geir H. Haarde, enda datt hann í prófkjörinu. Og ég spyr hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson: Hvar eru þeir innlendir og erlendir sérfræðingar sem vilja blessa þessa stefnu? Eða ætlar Sjálfstfl. kannski að blása á alla þekkingu í veröldinni í efnahagsmálum og segja að Sjálfstfl. sé búinn að uppgötva þannig patent að hann geti gengið gegn öllu í vestrænni þekkingu í efnahagsmálum? Það var stundum sagt um þá sem voru lengst til vinstri í íslenskum stjórnmálum að þeir afneituðu grundvallarlögmálum hagfræðinnar og niðurstöðum vestrænna rannsókna í efnahagsmálum. En nú sýnist mér Sjálfstfl. ætla sér að ganga í þessi björg. Nema hann sé svo óábyrgur að hann ætli að ljúga þjóðina fulla fyrir kosningar og gera svo allt annað eftir kosningar. Í vetur verður að draga fram þessi svör frá Sjálfstfl. hér í þinginu, í hverri umræðunni á fætur annarri svo það komi alveg skýrt fram áður en þinginu lýkur hvert er innihaldið í því sem hér er verið að boða og hvort Sjálfstfl. sem heild og forusta hans heldur virkilega fram þeirri stefnu sem hér hefur verið boðuð í umræðunni fyrir hönd Sjálfstfl. því hún mun leiða til nýrra efnahagslegra ófara fyrir Íslendinga.
    Ég sagði hér í minni framsöguræðu: Markaðurinn er harður húsbóndi, markaðurinn er harður dómari. En það er markaðurinn sem hefur kveðið upp sinn dóm yfir þeirri efnahagsstefnu sem hér hefur ríkt á síðustu tveimur árum. Og ég mun hvenær sem er reiða þann dóm fram og bera hann saman við dóm markaðarins þegar Sjálfstfl. stjórnaði hér á Íslandi.