Lánsfjárlög 1991
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það er ekki hægt að standast þá freistingu að koma hér í ræðustólinn á eftir hæstv. fjmrh., sem nú hefur talað eins og sá sem valdið hefur, og einu sinni enn að vekja athygli á því að hans aðaláhugamál er Sjálfstfl. og stefna hans. Mættum við sjálfstæðismenn hér á hv. Alþingi vel við una og þakka honum sérstaklega fyrir. Ég hef gert það reyndar oft áður úr þessum ræðustól við svipuð tækifæri að þakka honum sérstaklega fyrir að hann skuli nefna nafnið okkar eins oft og raun ber vitni. Og ekki gleymir hann að nefna okkar ágæta borgarstjóra, Davíð Oddsson, í leiðinni þó mér finnist að hann mætti stundum nota svolítið kurteislegra orðalag og hóflegra sem einn af þeim sem vill vera fyrirmyndin í íslensku þjóðfélagi í dag. Ég tala nú ekki um í mestu virðingarstofnun þjóðarinnar, á hv. Alþingi.
    Hann gerir kröfu um það að stefna Sjálfstfl. verði tekin til umræðu á hv. Alþingi. Ekki munum við sjálfstæðismenn telja það eftir okkur að fá slíkt tækifæri. Ég hef ekki enn þá orðið þess vör að hægt væri að setja á dagskrá þingfundar að stefna einhvers stjórnmálaflokks, sem þar á sína fulltrúa, verði tekin til sérstakrar umræðu. Vissulega væri það kærkomið tækifæri fyrir okkur til þess að koma skýrar, markvissar og betur okkar stefnu á framfæri og þá ekki síst til eyrna hæstv. fjmrh.
    Það sem mér hefur fundist einkenna hans ræður hér, fyrir utan þennan áhuga hans á mínum ágæta flokki, er þetta með útlönd. Þar hefur hann sérstakan áhuga, þar er hugurinn og þar veit hann allt. Honum er kærara að tala um Reagan og stefnu hans og stefnu Bandaríkjastjórnar og hann veit meira um allt slíkt, enda sést hann oft hér í þingsölum lesa Times eða einhver önnur ágæt erlend blöð og tímarit. Hann veit greinilega meira um þau mál en hagsmuni þeirra sem minnst mega sín í íslensku þjóðfélagi í dag. Og hann lætur sig meira varða um slík mál á alþjóðavettvangi en fátæktina sem aldraðir og sjúkir búa við, margir hverjir, í þessu þjóðfélagi. Og það er ástæða til að vekja athygli á því.
    En svo að ég snúi mér að því máli sem er hér á dagskrá og heitir frv. til lánsfjárlaga, þá langar mig að vekja athygli á II. kafla þessa frv. sem fjallar um öll skerðingarákvæðin. Það er sérstaklega athyglisvert að þá erum við fyrst og fremst komin að þessum mjúku málum sem snúa að t.d. öldruðum og sjúkum. Ég tala nú ekki um þjóðkirkjuna og ég veit ekki betur en að hæstv. fjmrh. hafi átt mörg viðtöl við og fengið heimsóknir væntanlega frá þeim aðilum. Það er athyglisvert í þessu frv. að 22 greinum er slegið saman í eina grein í athugasemdunum. Þar er verið að reyna að draga yfir það sem verið er að gera. Það er gert með því að talað er um að væntanlega verði flutt frv., eða svo ég vitni beint í athugasemdir, með leyfi hæstv. forseta. Hér stendur í 2. mgr.: ,,Lög um málefni fatlaðra eru í endurskoðun, þar með ákvæði um Framkvæmdasjóð fatlaðra, hlutverk og verkefni í uppbyggingu aðstöðu fyrir fatlaða. Þá mun heilbrrh. væntanlega leggja fram á Alþingi frv. til laga um breyting á lögum um málefni aldraðra m.a. þess efnis að fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra megi ráðstafa til reksturs og almenns viðhalds auk stofnframkvæmda. Verði breyting gerð á hlutverki þessara sjóða gætu ákvæði 28. og 29. gr. þessa frv. fallið niður í meðförum Alþingis.``
    Mér finnst þetta svolítið óvenjuleg vinnubrögð að vera að tala um að það megi skerða þennan og hinn sjóðinn af því að væntanlega verði lagt fram frv. og hugsanlega verður það í þá veru að þetta og hitt gæti fallið niður. Það kemur málinu ekki nokkurn skapaðan hlut við. Það sem skiptir máli er að það er verið að taka --- það er beinlínis verið að stela þessu fjármagni með þessari skerðingu á þeim sjóðum sem um er talað og eiga samkvæmt lögum að fá ákveðnar tekjur, en þær eru alltaf skertar. Ég er ekki að segja að þetta sé í fyrsta sinn sem það gerist en það er endurtekið hjá þessari hæstv. ríkisstjórn sem telur sig vera ríkisstjórn félagshyggjunnar, ef ég man rétt, og hugsa um hag þeirra sem minna mega sín o.s.frv. Biskupinn yfir Íslandi, herra Ólafur Skúlason, hefur mótmælt fyrir hönd þjóðkirkjunnar að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, nota bene, ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, ríkisstjórn Framsóknaráratugarins, hefur skert tekjur sókna og kirkjugarða um 86,5 millj. á þessu ári, tekjur sem kirkjunni ber samkvæmt samkomulagi sem var gert við upptöku staðgreiðslukerfisins 1988. Og enn á að skerða og bæta við. Það á að skerða sóknargjöld um 5% og kirkjugarðsgjöld um 15%. Þetta nær auðvitað til annarra trúfélaga og söfnuða í landinu eins og fríkirkjusafnaðarins. Við höfum m.a. fengið bréf frá fríkirkjusöfnuðinum í Reykjavík sem er dags. 14. nóv. þar sem er bent á að sá söfnuður hefur fengið sínar tekjur samkvæmt þessum lögum. Ríkið hefur tekið 1% í innheimtu fyrir það en nú á að taka 5%. Ég vil leyfa mér að mótmæla slíkum vinnubrögðum og þau eru ekkert afsakanlegri fyrir það þó að það hafi gerst einhvern tíma áður. Það tek ég fram.
    Þá má nefna Framkvæmdasjóð aldraðra. Hvað á að skerða hann mikið? Eru það ekki einar 130 -- 150 millj. sem á að taka frá þeim sjóði? Og niður á hverjum kemur það? Ég vænti þess að ég þurfi ekki að svara fyrir hæstv. fjmrh. Ef hann vildi aðeins leiða hugann inn á íslenska grundu og reyna að beina huganum til þess sem er að gerast hér í þjóðfélaginu þá gerir hann sér væntanlega grein fyrir því hvað hann er að gera. Framkvæmdasjóður fatlaðra má ekki fá meira en 225 millj. á árinu 1991. Þar á að skerða. Þannig mætti lengi telja.
    Ég vildi, hæstv forseti, aðeins benda á þessar greinar í II. kafla frv. til þess að minna á hvaða mál er hér á dagskrá. Það er ekki stjórnarstefna Reagans, fyrrv. Bandaríkjaforseta. Það er heldur ekki stefna Sjálfstfl. þó hún birtist væntanlega í ræðum þeirra þingmanna sem sitja á Alþingi fyrir Sjálfstfl. Ég get fullvissað hæstv. fjmrh. um að hann þarf ekki að kvíða neinu um það, hann fær skýra stefnu Sjálfstfl. inn á borð hjá sér hvenær sem tækifæri gefst og það

mun koma fram á næsta vori hvaða stefna verður ofan á.