Lögverndun á starfsheiti kennara og skólastjóra
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Í lögum nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, er gert ráð fyrir því að lögin verði endurskoðuð á tilteknum tíma samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í þeim lögum. 17. jan. 1990 skipaði menntmrh., nefnd til að endurskoða þessi lög í samræmi við fyrrgreint ákvæði. Nefndin lauk störfum í september sl. Í henni áttu sæti Hörður Lárusson, deildarstjóri í menntmrn., sem var formaður nefndarinnar, Sigurður Helgason deildarstjóri, Birna Sigurjónsdóttir grunnskólakennari og Magnús Þorkelsson framhaldsskólakennari.
    Þær breytingar sem felast í frv. miða að því að einfalda framkvæmd laganna og taka af tvímæli þar sem um slíkt er að ræða. Fjölmargar lagfæringar hafa verið gerðar á orðalagi og texti hefur víða verið einfaldaður. Vænti ég þess að hv. þm. geti með auðveldum hætti áttað sig á þessum breytingum eins og grg. frv. er upp sett.
    Uppeldis- og kennslufræði er þáttur í námi kennara sem mikil áhersla er lögð á, einkum af hálfu kennarasamtakanna. Er gerð krafa um árs nám eða 30 einingar í þessum greinum sem er óbreytt frá gildandi lögum. Við framkvæmd núgildandi laga hefur verið gengið ríkt eftir því að kennarar uppfylltu þetta skilyrði. Þetta hefur leitt til þess að upp hafa komið erfiðleikar, einkum í framhaldsskólum og listaskólum. Listaskólarnir leggja mikið upp úr því að fá til starfa þekkta listamenn en þeir hafa í fæstum tilvikum lagt stund á uppeldis- og kennslufræði og verður að telja mjög hæpið að gera kröfur um slíkt. Sumir kennaranna hafa þó lokið þessu námi, einkum þeir sem eru ákveðnir í því að gera kennsluna að ævistarfi. Listaskólarnir hafa því verið felldir út úr frv. en ákvæði um þá eru í 7. gr. gildandi laga.
    Nám á framhaldsskólastigi er mjög fjölbreytt og á sumum sviðum, ekki síst í iðnfræðslu, þurfa skólarnir á að halda sérfræðingum úr atvinnulífinu til kennslu. Um marga þeirra gildir það sama og listamennina að þeir hafa ekki tekið uppeldis- og kennslufræði. Það hefur því verið nauðsynlegt að fá undanþágu frá ráðuneytinu til að mega ráða þessa menn til starfa og hefur sumum mislíkað stórlega sú málsmeðferð. Einnig hafa þeir fengið lægri laun en starfsfélagar þeirra sem lokið hafa námi í uppeldis- og kennslufræði.
    Í nefndinni sem samdi frv. kom fram tillaga um að liðka verulega til hvað varðar meðferð undanþágubeiðna, bæði á grunnskóla- og framhaldsskólastigi, en um það náðist ekki samstaða þar sem kennarasamtökin voru því andvíg. Þó er um nokkra tilhliðrun að ræða hvað varðar framhaldsskólakennara, eins og fram kemur í 2. mgr. 13. gr. frv.
    Fjölmargar undanþágubeiðnir berast ráðuneytinu árlega, um það bil 700 undanþágubeiðnir fyrir kennara við grunnskóla og um 450 undanþágubeiðnir fyrir kennara við framhaldsskóla. Í nefndinni sem undirbjó frv. var rætt um þann möguleika að sérfræðingar sem

fengnir væru til kennslu í fáar stundir á viku héldu sínu starfsheiti og tækju jafnvel laun samkvæmt því. Niðurstaðan varð sú að þetta væri mál sem yrði að taka upp í kjarasamningum og afgreiða þar sérstaklega.
    Kennarar sem lokið hafa prófi frá Kennaraskóla Íslands og síðan lokið námi í sérgrein frá háskóla, t.d. Háskóla Íslands, teljast ekki hafa réttindi til kennslu í framhaldsskóla samkvæmt gildandi lögum þar eð uppeldis- og kennslufræðin í námi þeirra er aðeins metin til 15 eininga. Í frv. er kveðið svo á að þessir kennarar fullnægi skilyrðum til kennslu á framhaldsskólastigi og horft fram hjá því að eitthvað kunni að vanta upp á námið miðað við tímalengd. Enda verður að telja eðlilegt að fullgild kennarapróf frá fyrri tíma haldi gildi sínu þó lög breytist. Af þessu leiðir að nokkrir kennarar, sem hefur verið synjað um leyfisbréf á undanförnum 3 -- 4 árum, munu fá það verði þetta frv. að lögum.
    Í allmörgum greinum sem kenndar eru í framhaldsskólum er ekki um að ræða sérstakt nám fyrir kennara hér á landi. Í frv. er kveðið svo á að nefnd sem hefur það hlutverk að meta nám kennara til kennsluréttinda samkvæmt 4. gr. skuli ákveða hvaða kröfur skuli gera um menntun þeirra sem ekki eiga kost á námi til kennsluréttinda, sbr. síðustu mgr. 5. gr. frv. Dæmi um þessa kennara eru t.d. kennarar í vélritun við framhaldsskólana.
    Fyrir nokkru var komið á fót námi fyrir skólastjórnendur við Kennaraháskóla Íslands og nú stendur yfir námskeið í skólastjórnun fyrir stjórnendur framhaldsskóla á vegum Háskóla Íslands. Því er í frv. kveðið á um að sá sem lokið hefur viðurkenndu námi fyrir stjórnendur skuli að öðru jöfnu ganga fyrir um ráðningu í stöðu skólastjórnanda. Mikilvægt er að þessi starfsemi verði fastur liður í starfi Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands og e.t.v. geta skólarnir á síðari stigum sameinast um að bjóða fram slíkt nám.
    Í frv. er víða lögð áhersla á að kennarar skuli fyrst og fremst kenna þær greinar sem þeir hafa sérhæft sig í. Samkvæmt gildandi lögum hafa nokkrir fengið leyfisbréf enda þótt vafasamt væri að þeir hefðu sérnám í einhverri námsgrein sem kennd er í framhaldsskólum eða grunnskólum eða fullnægjandi sérnám á tilteknu sviði. Tilgangurinn með fyrrnefndum áherslum er að stuðla að því að þetta gerist ekki og að kennarar kenni þær greinar sem þeir hafa sérhæft sig í. Hér er fyrst og fremst um að ræða stefnumarkandi atriði, það er aldrei hægt að koma í veg fyrir að kennarar kenni aðrar greinar en sínar sérgreinar, þar eð þetta er að sjálfsögðu háð aðstæðum í hverjum skóla fyrir sig. Vanti t.d. enskukennara getur verið nauðsynlegt að grípa til efnafræðikennarans ef hann kann eitthvert lítilræði í ensku.
    Með þessu frv. er með öðrum orðum reynt að sníða helstu agnúana af gildandi lögum um starfsréttindi og starfsheiti grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.
    Í 1. gr. er kveðið á um það hverjir hafi rétt til

þess að kalla sig grunnskólakennara og framhaldsskólakennara.
    Í 2. gr. er farið nánar út í það hvaða skilyrði menn þurfa að uppfylla til þess að geta heitið grunnskólakennarar.
    Í 3. gr. er á sama hátt farið nánar út í það hvaða skilyrði menn þurfa að uppfylla til þess að geta heitið framhaldsskólakennarar.
    Í 4. gr. er fjallað um matsnefndir þegar um er að ræða vafamál og álitamál. Matsnefnd skal skipa til fjögurra ára í senn. Nefnd fyrir grunnskólakennara er skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Kennaraháskóla Íslands, einum fulltrúa tilnefndum af Bandalagi kennarafélaga og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Að því er varðar framhaldsskólakennara er um að ræða nefnd sem einnig er skipuð til fjögurra ára í senn. Einn fulltrúi er tilnefndur af Háskóla Íslands, einn af Bandalagi kennarafélaga og einn skipaður af ráðuneytinu án tilnefningar.
    Í 5. gr. er farið ítarlega yfir starfsréttindin sem slík hvað varðar grunnskólakennara og sömuleiðis í 6. gr. að því er varðar framhaldsskólakennarana.
    Í 7. gr. er kveðið á um það að eftir eins árs starf við grunnskóla eða framhaldsskóla með góðum árangri að mati hlutaðeigandi skólastjórnenda og skólanefndar sé heimilt að fastráða eða skipa viðkomandi kennara.
    Í 8. gr. er kveðið á um það að til þess að verða ráðinn eða settur skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri við grunnskóla eða framhaldsskóla skuli umsækjandi hafa kennsluréttindi og kennslureynslu á viðkomandi skólastigi.
    Í sömu grein er ákvæði það sem ég nefndi áðan og er nýlunda, þar sem segir: ,,Sá umsækjandi, sem lokið hefur viðurkenndu stjórnunarnámi fyrir skólastjórnendur við Kennaraháskóla Íslands eða Háskóla Íslands eða aðrar viðurkenndar menntastofnanir, skal að öðru jöfnu sitja fyrir um ráðningu í stöðu skólastjórnanda.``
    Í 10. -- 15. gr. eru ákvæði um ráðningarreglur. Í 12. gr. kemur m.a. fram að menntmrh. skipi undanþágunefnd grunnskóla til fjögurra ára í senn. Nefndin er skipuð þremur fulltrúum, einum tilnefndum af Bandalagi kennarafélaga, einum tilnefndum af Kennaraháskóla Íslands og einum án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Og í 13. gr. er á sama hátt fjallað um þá nefnd sem ræðir undanþágumál að því er varðar framhaldsskólann. Er hún skipuð með hliðstæðum hætti. Í 15. gr. er kveðið upp úr með það til hvaða skóla þessi lög taka, en þar segir: ,,Lög þessi taka til allra grunnskóla, framhaldsskóla og sérskóla á framhaldsskólastigi að undanskildum Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Tónlistarskólanum í Reykjavík, Leiklistarskóla Íslands og öðrum listaskólum.``
    Síðan segir að lögin öðlist gildi 1. jan. 1991. Það er auðvitað mál sem hv. nefnd þarf að fjalla um með hliðsjón af því hversu langan tíma tekur að fara yfir málið á Alþingi.
    Í grg. frv. er gerð ítarleg grein fyrir þeim breytingum sem gert er ráð fyrir í frv. þessu frá gildandi

lögum. Á bls. 6 í þskj. er farið vandlega yfir helstu breytingarnar í frv. í átta töluliðum. Þar er um að ræða skrá yfir þau atriði sem ég hef þegar minnst á og tel ekki ástæðu til að rekja frekar.
    Ég hygg að segja megi að um þessi mál hafi verið nokkur deila í samfélaginu á undanförnum árum, eða kannski fyrr, en nú sé um þau allgóð samstaða. Eins og frv. lítur út er um það góð samstaða við kennarasamtökin og þá sem hlut eiga að máli, Félag skólastjóra og yfirkennara. En að sjálfsögðu hlýtur hv. menntmn. að ræða við fulltrúa þessara aðila. Ég held að mjög mikilvægt sé að það takist að afgreiða málið á þessu þingi þannig að það sé hægt á næsta skólaári, 1991 -- 1992, að hafa hliðsjón af þeim breytingum sem hér er gerð tillaga um í þessu frv.
    Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.