Lögverndun á starfsheiti kennara og skólastjóra
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Varðandi það sem fram kom hér hjá hv. 12. þm. Reykv. þá er því til að svara að í fyrsta lagi þá er náttúrlega verið að opna fyrir listamenn til þess að þeir geti starfað sem kennarar á framhaldsskólastigi en þeir heita núna leiðbeinendur. Ég tel að með þessu ákvæði frv. sé komið stórkostlega til móts við listamenn miðað við það sem verið hefur, hvort sem um er að ræða listamenn sem starfa á framhaldsskólastigi eða í listaskólunum sjálfum. Þetta er breyting sem er sömu ættar og sú sem hv. 2. þm. Reykv. gerði einkum að umtalsefni hér í sínu máli áðan.
    Varðandi það hins vegar hvernig á að treysta stöðu list- og verkgreina í skólum á komandi árum þá er það að segja að í rauninni er alveg augljóst mál að okkur vantar þegar mikinn fjölda af fólki til starfa í skólunum til þess að kenna list- og verkgreinar af ýmsu tagi og enn fleiri vantar þegar og ef þarna verður á nokkur aukning. Það sem ég að mörgu leyti óttast í sambandi við þær breytingar sem menn eru að tala um á grunnskólanum er að þar sem skortur er á kennurum í list- og verkgreinum þá muni hinar hefðbundnu greinar fylla út í stundaskrána jafnóðum og hún þenst út af öðrum ástæðum. Og sömuleiðis þá held ég að það sé nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að þarna vantar ekki aðeins kennara til starfa heldur oft á tíðum nægilegan skilning á mikilvægi þessara greina.
    Hitt er líka ljóst að viðmiðunarstundaskráin eins og hún hefur verið fyrir grunnskólann hefur verið lítið eða ekkert breytt núna um margra áratuga skeið. Ef breyting á að verða á stöðu þessara greina í grunnskólum þá þarf að breyta samsetningu viðmiðunarstundaskrárinnar og ég er þeirrar skoðunar að það eigi að gera. Viðmiðunarstundaskráin eigi að vera mikið sveigjanlegri en hún er núna og það eigi að opna fyrir það að skólar geti tekið inn list- og verkgreinar í auknum mæli frá því sem nú er ef aðstaða er til þess að öðru leyti að því er varðar húsnæði og kennslukrafta.
    Ég tel með öðrum orðum að þetta frv., að svo miklu leyti sem það snertir þau mál sem hv. 12. þm. Reykv. nefndi, komi til móts við þau sjónarmið að efla list- og verkgreinar að því er varðar framhaldsskólana, á því sé enginn vafi. Að því er hins vegar varðar grunnskólann þá gerum við ráð fyrir því í þeirri menntastefnu, sem við höfum kynnt og getum rætt hér næstu daga þegar grunnskólafrv. verður dreift hér í þinginu og verður væntanlega tekið til meðferðar í næstu viku, að kennaramenntunarstofnanirnar hafi skipulagt samstarf við listaskólana þannig að þekking þess fólks sem út úr þeim skrifast nýtist í grunnskólanum, ef til vill að viðbættum tilteknum einingafjölda í uppeldis- og kennslufræðum í Háskólanum eða í Kennaraháskólanum.
Ég held að þetta sé út af fyrir sig eitt af því sem þurfi almennt að reyna að átta sig á, hversu marga við þurfum í þessar greinar á komandi árum og reyna að

skapa samstöðu um að fjölga þessu fólki verulega á næstu árum og auðvitað eru það listamennirnir sjálfir sem þurfa að koma þarna til liðs í verulegum mæli.
    Um hitt aftur á móti, sem menn kunna að láta sér detta í hug, að breyta þessu frv. þó að hvorugur hv. þm. sem hér hefur talað hafi nefnt það, en einhverjum gæti kannski dottið í hug að breyta þessu frv. í því skyni sem hér hefur aðeins verið talað um, vil ég bara segja þetta: Eins og hv. 2. þm. Reykv. gat um eru lögin eins og þau eru. Þau eru afurð af kjarasamningum, það er í raun og veru um það að ræða að menntmrn. samdi á sínum tíma um þessi mál við kennarasamtökin, og það má líka segja að þetta frv. sé afurð af samtölum og samkomulagi sem náðst hafi í öllum meginatriðum við kennarasamtökin um þessi mál þannig að æskilegt er að gera eins litlar breytingar og mögulegt er nema þá um það takist sæmileg samstaða. Þar er ekki einasta um að ræða kennarasamtökin sjálf heldur líka Félag skólastjóra og yfirkennara sem er auðvitað veigamikill aðili að þessu máli.
    Eitt helsta vandamál skólakerfisins í landinu er að mínu mati það að það hefur kannski ekki verið farið nægilega vel yfir það með hvaða hætti mætti treysta stöðu stjórnenda skólanna til skipulegrar vinnu og það er í raun og veru ekki mikið um það að þeir sem stjórna skólum hafi lagt að baki stjórnunarnám eða stjórnunarnámskeið af einhverju tagi þó að það fari mjög vaxandi. Það er í gangi núna, eins og kom fram í framsöguræðu minni, nám fyrir skólastjórnendur, bæði við Kennaraháskólann og sömuleiðis fyrir stjórnendur framhaldsskóla á vegum Háskóla Íslands. Og ég slæ því alveg föstu að námskeið og nám af þessu tagi verði fastur liður bæði í starfsemi Háskólans og Kennaraháskólans á komandi árum. Það er eins og verið að kvitta fyrir það nám með þeirri grein sem hv. 2. þm. Reykv. nefndi áðan, síðustu mgr. 8. gr., og ég tel út af fyrir sig mikilvægt að viðurkenna það sjónarmið að reynsla í stjórnun eða stjórnunarnám er mikils metið þegar verið er að ráða fólk til þess að stjórna skólum. En auðvitað er þetta eins og annað, hv. þingnefnd verður að meta málið út frá þeim forsendum sem hún telur sig hafa og komast að niðurstöðum í þessu efni, enda geri ég fastlega ráð fyrir að hún ræði við fulltrúa þessara samtaka þannig að hv. alþm. fái að heyra beint frá fulltrúum samtakanna þriggja sem ég nefndi, og e.t.v. annarra ef menn telja ástæðu til, hvaða sjónarmið liggja að baki þeim efasemdum sem fram koma af hálfu kennaranna um það að þessi málsgrein, þ.e. síðasta málsgrein 8. gr., ætti rétt á sér.
    Ég heyrði í rauninni ekki að þeir hv. þm. sem hér töluðu væru með alvarlegar efnisathugasemdir við frv. þannig að ég geri út af fyrir sig ráð fyrir að það fái hér góðar undirtektir. Það er alveg rétt sem hv. 2. þm. Reykv. sagði hér áðan, þessi starfsréttindamál eru flókin mál og það berast stöðugt til ráðuneytanna beiðnir um að lögfesta starfsréttindi þessara og hinna hópanna. Og ég minnist þess nú ekki að ráðherrarnir hafi verið mjög duglegir við að bíta það frá sér, úr hvaða flokki svo sem þeir hafa verið. Við ákváðum í núverandi ríkisstjórn fyrir einu ári eða svo, ef ég man

rétt, að kanna það hvort ekki væri hægt að setja heildarstarfsréttindalög um ýmsa hópa frekar en að vera að setja ein lög um þennan hóp og önnur um hinn. Einhver vinna kann að vera í gangi í þeim efnum en alla vega hefur þetta verið snúið og færst mjög í vöxt eins og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson gat um áðan. En þessi mál hér eru að mínu mati sérstaks eðlis. Hér er um að ræða þetta fagmenntaða starfslið skólanna og á þau sjónarmið hefur Alþingi í raun og veru fallist og ég vona að svo verði einnig nú í sambandi við þetta frv. sem er óneitanlega í þá átt að liðka til og laga málin í ljósi fenginnar reynslu.