Listamannalaun
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta frv. er nú komið hér fram. Það er raunar löngu tímabært að gerð sé bragarbót í þessum málum, bæði vegna fjárskorts og eins vegna fyrirkomulags á þessum málum. Það er ekkert launungarmál að það hefur verið mikil óánægja í röðum listamanna um útdeilingu listamannalauna, bæði um upphæðirnar og hvernig að því hefur verið staðið. Er mála sannast að þar hafi verið um upphæðir að ræða sem réðu ekki úrslitum um það hvort menn gátu starfað við sína list eða ekki.
    Hér eru ýmsir sjóðir sem fyrir voru felldir inn í þetta frv., svo sem Launasjóður rithöfunda og Launasjóður myndlistarmanna, þó að nú eigi að fjármagna hann með öðrum hætti en áður var, og bætt er við Tónskáldasjóði og Listasjóði, sem mér sýnist, eins og hér háttar til, vera einhvers konar samruni listamannalauna og annarra fjárframlaga smærri sem farið hafa til listamanna.
    Í 2. gr. þessara laga þar sem kveðið er á um heiðurslaun vil ég strax lýsa því yfir að mér finnst það mjög til bóta að þarna skuli tekin af öll tvímæli um það að heiðurslaun fari til manna sem álitið er að hafi að mestu lokið sínu lífsstarfi. Mér hefur fundist það skjóta skökku við að heiðurslaun, sem hefð er fyrir að menn haldi eftir að þeim hafa verið veitt þau af Alþingi, renni til manna sem eru á besta aldri og halda fullum sköpunarkrafti og eðlilegt að þeir njóti starfsstyrkja fremur en að þiggja heiðurslaun.
    Nú hef ég átt sæti í menntmn. frá því ég tók sæti á Alþingi og ég hef sjálf sett mér þessar starfsreglur, þar sem í rauninni voru engar reglur til um útdeilingu þessara heiðurslauna. Býst ég við að menn hafi haft ýmsar forsendur, en sjálf hef ég litið á heiðurslaun sem nokkurs konar eftirlaun og finnst gott að þarna skuli það staðfest. Hitt er svo annað mál að mér finnst að það hefði átt að tryggja skattfrelsi þessara heiðurslauna því að eflaust eru ekki margir listamenn á þessum aldri sem hafa miklar tekjur af sínum verkum og þegar upp undir 40% af heiðurslaunum fer aftur í ríkiskassann þá er kannski harla lítið eftir. Þetta stæði betur undir nafni sem heiðurslaun ef kveðið væri á um skattfrelsi þessara launa.
    Eins er ég efins um að halda eigi þeirri tilhögun að Alþingi veiti þessi laun. Það má ef til vill segja að Alþingi geti sýnt vilja sinn og virðingu með því að ákveða upphæðir en mér hefur fundist heldur ógeðfellt að hér væru menn að bítast um listamenn og fyndist nær að það væri í annarra höndum. Ef til vill mætti hugsa sér að það væri í höndum þessarar þriggja manna stjórnar að útdeila laununum eftir að Alþingi hefur ákvarðað upphæðina eða að fram færi einhvers konar tilnefning af aðildarfélögum BÍL og sérstaklega kjörin stjórn muni síðan taka afstöðu til þessara tilnefninga. Ég hef svo sem ekki fullmótaðar skoðanir á þessu en fyndist það vel athugunar virði að taka útdeilingu þessara launa úr höndum Alþingis.
    Ég geymi aðeins 3. gr. og fer í 4. gr. Mér sýnist

nokkuð vel til hagað hvernig þessi þriggja manna stjórn skuli skipuð en vil strax viðra hugmynd varðandi það að einn skuli skipa samkvæmt tilnefningu Bandalags ísl. listamanna. Hún er sú að sett sé inn ákvæði um það að um þann fulltrúa sé skipt og hann flytjist úr einu félagi í annað. Annars er hætt við að þarna geti fulltrúi sama hóps listamanna setið árum saman.
    Hér er framlag til þessara mála í heild hækkað og fagna ég því að sjálfsögðu og að starfslaun skuli nú miðuð við lektorslaun þannig að þau komi þá þeim sem þeirra njóta að einhverju gagni en séu ekki eins og sporsla sem að þeim er rétt. Eins er mjög til bóta að þeir sem starfslaun hljóta skuli eiga kost á aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda en að því þarf ef til vill að hyggja hvort það geti ekki fleiri listamenn fengið. Að það sé ekki bara bundið útdeilingu starfslauna, því það mun mála sannast að afskaplega margir listamenn eiga ekki aðgang að neinum lífeyrissjóði.
    7. og 8. gr. eru raunar til þess að staðfesta það að nú séu Launasjóður rithöfunda og Launasjóður myndlistarmanna felldir inn í þetta frv. og í 9. gr. er nýmæli sem varðar Tónskáldasjóðinn.
    Í 10. gr. segir að Listasjóður veiti starfslaun og styrki sem svari til 180 mánaðarlauna, sem mér reiknast til að muni vera 14 millj. kr., og að úr þessum listasjóði skuli einnig veittir verkefnastyrkir, náms- og ferðastyrkir, og jafnframt sérstök framlög til listamanna, m.a. til þeirra sem notið hafa listamannalauna undanfarin ár og hafa náð 60 ára aldri. Nú segir mér svo hugur um að það séu allmargir sem notið hafa listamannalauna undanfarin ár. Í rauninni hefur sú hefð skapast að listamannalaun voru tvískipt, annars vegar var flokkur sem var hreyfanlegur en þeir sem komust í efri úthlutunarflokk voru þar yfirleitt til frambúðar. Mér er ekki kunnugt um hvað mundi fara af fé til þessara umræddu listamanna, þ.e. þeirra sem hafa notið listamannalauna undanfarin ár og hafa náð 60 ára aldri, né hve há framlög er verið að ræða um, en vissulega er þessum hluta, þ.e. Listasjóði, ætlaður verulega stór hlutur. Bara orðið verkefnastyrkur hlýtur að vera nokkuð hár útgjaldaliður ef hann á að standa undir nafni og ef hann á að auki koma til náms- og ferðastyrkir, að ég tali nú ekki um þessi þegar bundnu framlög, þá er líklega harla lítið til skiptanna.
    Ég vil nú gera að sérstöku umtalsefni einn hluta þessa máls sem er það að hér er ein listgrein, og sú sem skipar nú ekki minnstan sess í hugum þjóðarinnar tel ég, skilin undan. Það er leiklistin. Hæstv. menntmrh. sagði hér áðan að þeir þrír hópar sem hér eru tilgreindir, þ.e. rithöfundar, myndlistarmenn og tónskáld, hefðu mesta þörf fyrir starfslaun. Nú er þetta í sjálfu sér órökstudd fullyrðing og mig mundi sjálfa skorta rök fyrir því að fullyrða að þeir hefðu meiri þörf fyrir starfslaun en leiklistarfólk. Nú veit ég að því mun borið við að margt leiklistarfólk njóti fastra launa. Það gerir nokkur hópur en verulegur minni hluti þess fólks sem starfar við leiklist nýtur fastra launa af nokkru tagi. Hér er talað um að Tónskáldafélag Íslands hafi barist fyrir stofnun sérstaks tónskáldasjóðs og ætla ég vissulega að samgleðjast tónskáldum að hafa nú náð þessum áfanga. En ég get ekki látið hjá líða að minnast á að hér á hinu háa Alþingi hefur tvisvar sinnum verið flutt frv. um að stofnaður skyldi starfslaunasjóður leikhúslistafólks. Á það er ekki einu sinni minnst í grg. að sá vilji hafi komið fram. Þannig að vissulega hefur líka verið barist fyrir því að sá hópur fengi starfslaun.
    Það stendur íslenskri leiklist stórlega fyrir þrifum að íslenskt leiklistarfólk skuli hvergi hafa vinnuaðstöðu nema innan stofnana sem eru tvær í Reykjavík og ein á Akureyri, nú undanskil ég í þessu tilviki útvarp og sjónvarp, og þar hafa ekki verið þau fjárráð og ef til vill ekki vilji heldur til þess að standa að nýsköpun. Það er t.d. verulegt vandamál í íslenskri leiklist hvað nýliðun er lítil, bæði í hópi leikstjóra og leikara. En þeir sem helst mundu nýta þessi starfslaun eru eflaust leikstjórar í samvinnu við annað leiklistarfólk, svo sem leikmyndateiknara og leikritahöfunda. Leikritahöfundar hafa ekki átt greiðan aðgang að rithöfundasjóðnum. Það hefur nánast verið gert að skilyrði að um væri að ræða útgefin prentuð leikrit en leikrit hafa afskaplega lítið komið út á prenti á Íslandi. Það er þá helst þegar þau eru komin nokkuð til ára sinna eða höfundur orðinn viðurkenndur eða virtur. Væri fróðlegt að sjá á því úttekt hvernig leikritahöfundar hafa farið út úr rithöfundasjóðnum. Ég svo sem hef engar tölur yfir það en þetta hafa leikritahöfundar fullyrt. Það verður líka að hafa það í huga að leikrit eru venjulega ekki skrifuð heima í stofu reynslulaust. Sagan kennir okkur það að þeir hafa náð mestum árangri í leikritun sem hafa unnið að leiklist og haft hana með einhverjum hætti að sínu starfi, þ.e. auk ritstarfa. Má nú fyrstan frægan telja William Shakespeare sem starfaði alltaf með leikflokki og skrifaði fyrir þann leikflokk. Síðan getum við fetað okkur í gegnum leiklistarsöguna, við getum nefnt til sögunnar menn eins og Molière, sem líka var með sinn eigin leikflokk. Við getum nefnt mann eins og Berthold Brecht sem starfaði með leikflokki. Án þess að það hafi reyndar verið gerðar mjög fræðilegar úttektir kemur það í ljós að þeir rithöfundar hafa náð mestum árangri sem hafa kynnst lífi og starfi í leikhúsinu innan frá. Ibsen má líka nefna til sem sinnti mjög lengi alls konar störfum í leikhúsi áður en hann sneri sér að ritstörfum af fullum krafti og náði verulegum árangri sem leikritahöfundur. Þess vegna er hér á landi mjög nauðsynlegt að skapaður sé vettvangur fyrir leikritahöfunda til þess að vinna með leiklistarfólki, vinna með leikstjórum og leikurum. Við getum kallað það ýmist tilraunastarf eða nýsköpunarstarf, þróunarstarf, sem ekki er sinnt. Ég held að allir stjórnendur leiklistarstofnana á Íslandi gætu borið um það að það skortir ekkert á hugmyndir leiklistarfólks um alls konar leiklistarviðburði, sýningar, dagskrár og hvað það nú heitir allt, en það skortir aðstöðu til framkvæmda, fé til framkvæmda.
    Nú munu svokallaðir frjálsir leikhópar hafa haldið uppi umfangsmikilli leiklistarstarfsemi undanfarin ár

við mjög þröngan kost, svo þröngan að þeir eiga þess engan kost að bjóða fólki til svona starfa heldur verða alltaf að flýta sér eins og mögulegt er, koma sýningu upp sem fyrst og helst að reyna að selja hana sem best. Svona starf er aldrei hægt að vinna ef það þarf að taka of mikla áhættu fjárhagslega. Það er þess vegna undarleg yfirlýsing að þessir þrír hópar hafi mesta þörf fyrir starfslaun og undanskilja þar einn hóp listamanna og minnast ekki einu sinni á tillögur sem komið hafa fram um þessi mál og leggja það ekki að jöfnu við eindregnar óskir tónskálda.
    Ég sagði hér áðan að það yrðu ef til vill helst leikstjórar, eða aðrir þeir sem stjórna þeirri sköpunarvinnu sem fram fer í leikhúsi, sem mundu leita eftir svona styrkjum í samvinnu við aðra. Það háttar nú þannig til í íslensku leikhúsi að það eru tveir íslenskir leikstjórar sem sinna því starfi sem fullu starfi og hafa fyrir það laun. Þjóðleikhúsið hefur haft tvo leikstjóra fastráðna í upp undir tvo áratugi og þar hefur alltaf setið sama fólkið. Í raun má segja að það séu einungis tveir leikstjórar á Íslandi sem hafa haft aðstæður til þess að sinna sínu starfi með einhverjum sóma.
    Þetta frv., sem lagt var hér fram á þingi í fyrra í annað skipti, um starfslaunasjóð leikhúslistamanna var sent út til umsagnar til fjölmargra aðila. Má þar nefna Félag ísl. leikara, Félag leikstjóra á Íslandi, Leiklistarsambandið, Bandalag ísl. leikfélaga, Þjóðleikhúsið, Leikfélag Reykjavíkur, Leikfélag Akureyrar, sjónvarp og útvarp og Bandalag ísl. listamanna. Ég veit ekki hvort þetta er tæmandi listi en þetta man ég hér og nú. Það er skemmst frá því að segja að verulega sterkt var tekið undir innihald þessa frv. og lýstu allir eindregnum stuðningi við það og nauðsyn á því að leiklistarfólk ætti aðgang að einhverjum slíkum sjóði. Til þess að allt komi fram þá voru í tveimur eða þremur umsögnum gerðar athugasemdir við eina eða tvær greinar en það breytir ekki því að eindregnum stuðningi var lýst við innihald frv. Nú mun þetta mál sem hér er til umræðu auðvitað koma til menntmn. og verður sent til umsagnar ýmissa aðila og þá á ég auðvitað von á því að þessar athugasemdir komi fram um nauðsyn þess að það sé ein deild í sjóðnum í viðbót. Í frv. um starfslaunasjóð leikhúslistafólks var lagt til að hér yrði um 15 meðalárslaun lektors við Háskóla Íslands að ræða og vonandi að þessi hópur listamanna fái sömu undirtektir við sín mál og aðrir hópar listamanna.
    Fleiri athugasemdir mun ég ekki gera um þetta frv. en eins og ég sagði sit ég í þeirri nefnd þar sem það kemur til umfjöllunar. Að endingu lýsi ég ánægju með frv. en vonast auðvitað til að sjá það fullkomnara þegar það kemur aftur til umræðu hér í deildinni.