Listamannalaun
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram um þetta frv. til laga um listamannalaun. Greinilegt var að það komu fram sjónarmið sem nauðsynlegt er að taka tillit til við meðferð málsins í hv. menntmn. Í sjálfu sér þá veit ég ekki hvort ég á að fara út í einstök atriði málsins á þessu stigi, vil þó segja það að í ummælum þingmannanna að því er varðar 2. gr. komu fram nokkuð þekkt sjónarmið um heiðurslaunin. Annars vegar hafa menn haldið því fram að þetta ættu einkum að vera eldri menn sem færu inn í þennan flokk, 65 ára er miðað við hér,
og hins vegar kom fram það sjónarmið að óeðlilegt væri að setja þau mörk vegna þess að Alþingi hefði oft viljað veita yngri mönnum heiðurslaun, eins og dæmin sanna.
    Ég hygg að það séu í sjálfu sér ekki efni til þess að fara út í rökræður um þetta hér í hv. deild. Það sé eðlilegra að mörgu leyti að þeir sem um þetta vilja fjalla nákvæmlega eigi kost á því og geri það í hv. menntmn. þar sem báðir hv. þm. sitja og sömuleiðis formaður þeirrar nefndar sem samdi það frv. sem hér er til umræðu.
    Hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir hreyfði því sjónarmiði hvort það væri yfir höfuð rétt að Alþingi veitti heiðurslaun. Ég hef í sjálfu sér mikla samúð með því sjónarmiði eftir þá reynslu sem ég hef haft af þessum málum þann tíma sem ég hef setið á Alþingi. Það er afar vandasamt fyrir þingið að veita þessi heiðurslaun. Þótt það hafi yfirleitt tekist nokkuð vel að ná lendingu er það engu að síður ljóst að stundum hefur þetta verið með þeim hætti að fjölmargir aðilar hafa gagnrýnt þingið í þessu efni. Það hlýtur að vera umhugsunarefni hvort það er rétt að þingmenn ákveði með lögum að taka á sig svona úthlutunarstarfsemi. Ég vildi a.m.k. ekki standa að því, segjum að ráðuneytið gerði það eða ráðherrar. Ég held að það sé almennt séð heppilegra að það séu nefndir sem fjalli um mál af þessu tagi. Segja má að í 2. gr. frv. sé reynt að fara bil beggja. Annars vegar er gert ráð fyrir því að þetta haldi áfram en hins vegar gert ráð fyrir því að takmarka þetta nokkuð frá því sem verið hefur.
    Hv. 12. þm. Reykv. setti fram ábendingu varðandi 4. gr. frv. þar sem hún minnti á að til greina gæti komið að taka fram að fulltrúar Bandalags ísl. listamanna yrðu frá mismunandi aðildarfélögum bandalagsins. Það er út af fyrir sig sjónarmið sem sjálfsagt er að ræða. En ég bendi á að það er kannski aðalatriðið, eða hvað, að þeir sem eru þarna fyrir bandalagið eigi sjálfir ekki hagsmuna að gæta. Ég held að það sé meginregla sem þyrfti að koma í löggjöf af þessu tagi, hvort sem um er að ræða listamannalaun eða Kvikmyndasjóð, svo að ég nefni dæmi.
    Það er auðvitað líka hugsanlegt, ef menn vilja setja ákvæði um að menn megi ekki sitja í nefndinni nema takmarkaðan tíma eins og var í frumvarpsdrögum um Kvikmyndasjóð sem við ræddum á síðasta þingi. Það er þá mál sem hv. nefnd tekur til skoðunar. Ég tek

fram að frv. eins og það lítur út núna er nákvæmlega eins og það var þegar það kom frá þeirri nefnd sem vann málið fyrir mig samkvæmt því skipunarbréfi sem var gefið út í ráðuneytinu 20. júlí 1989.
    Hv. 12. þm. Reykv. gerði athugasemdir við það að leiklistin væri ekki hér með. Ég bið hann afsökunar á því að hafa ekki nefnt það frv. sem hún gerði hér að umtalsefni og hefur komið fram í þinginu, að ég hygg aftur og aftur á undanförnum árum. Það var ekki ásetningssynd heldur yfirsjón. Það hafa auðvitað margs konar frv. komið fram á undanförnum árum og áratugum um þessi mál, listamannalaun og hvernig með þau skuli fara. Ég fór yfir það hvernig þessum málum hefur verið háttað og fletti þingtíðindum, vegna þess að ég hafði ekki margt annað að gera á vissum fundi sem ég var á síðdegis í gær og menn geta ímyndað sér hver var, fletti þingtíðindum, þykkum doðröntum og fór yfir alls konar mál sem hafa komið fram í þinginu um listamannalaun á undanförnum árum og áratugum. Ég játa það að ég var greinilega ekki kominn nægilega nálægt nútímanum en hefði auðvitað átt að muna eftir því frv. sem hv. þm. gat um og hefur flutt og beitt sér fyrir af miklum myndarskap hér. Það hefur fengið ágætar undirtektir. Ég leyfi mér hins vegar, mér til málsbóta og frv., að benda á að fólk, ekki mjög fjarskylt leiklist, kom að því að semja þetta frv. þar sem er um að ræða forseta Bandalags ísl. listamanna og formann nefndarinnar.
    Ég tel að þau sjónarmið sem hv. þm. hefur flutt hér í frumvarpsformi eigi að taka til alvarlegrar umræðu í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar. Hv. þm. hlýtur, eins og hún reyndar gerði grein fyrir, að leggja þau fram við meðferð málsins í hv. menntmn. Það er erfitt í raun og veru að setja mörkin í þessu efni eins og öðrum, en það kann vel að vera að hv. menntmn. takist að ná samstöðu um lendingu í þessu máli sem sé betri en sú sem hér liggur fyrir. Ég segi samstöðu vegna þess að það skiptir mig mjög miklu máli og ég held að það skipti listamenn líka mjög miklu máli upp á framtíðina að það sé í grundvallaratriðum samstaða um það kerfi sem verið er að taka upp, kerfið sem slíkt, fyrst og fremst vegna þess að við höfum af því áratuga reynslu að það er vont fyrir listamenn og menningarlífið í landinu að þau kerfi sem unnið er eftir á þessu sviði séu stöðugt bitbein t.d. pólitískra átaka. En það þarf líka að gæta þess að menn rati meðalhófið að því er varðar samtök listamanna sjálfra. Með þeim hætti sé haldið á hlutunum að um málið sé sem víðtækust samstaða á vegum listamannanna, þ.e. í Bandalagi ísl. listamanna í þessu tilviki, því hér er í raun og veru ekki valin sú leið að flytja frv. um hverja grein eins og mönnum hafði dottið í hug löngum áður, heldur er reynt að ná hér yfir miklu víðara svið en áður hefur verið gerð tilraun til.
    Ég vænti þess að hv. menntmn. geti tekið til óspilltra málanna við að fjalla um frv. og afgreiða það, gera á því þær breytingar sem nauðsynlegar kunna að teljast þannig að frv. geti orðið að lögum á

yfirstandandi þingi.