Þroskaþjálfaskóli Íslands
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um flutning Lyfjatæknaskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands til menntmrn. sem er flutt á þskj. 164 og er 152. mál Nd. og reyndar endurflutt frv. frá fyrra ári. Ég get því verið stuttorður um frv. það sem hér liggur frammi um flutning þessara skóla til menntmrn. Frv. þetta er endurflutt frá síðasta þingi en það var lagt fram á ofanverðu þinginu og hlaut ekki afgreiðslu vegna ónógs tíma.
    Með frv. er lagt til að þeir skólar, þ.e. Lyfjatæknaskóli Íslands og Þroskaþjálfaskóli Íslands, sem enn eru starfræktir á vegum heilbr.- og trmrn. verði færði í það ráðuneyti sem lögum samkvæmt ber að annast starfsemi skóla, menntmrn. Á vegum heilbr.- og trmrn. hafa verið reknir nokkrir skólar sem eiga það sameiginlegt að veita heilbrigðisstéttum svokallað starfsréttindanám. Þessir skólar voru flestir sex. Auk þeirra skóla sem þegar eru nefndir var um að ræða Hjúkrunarskóla Íslands, Röntgentæknaskóla Íslands, Sjúkraliðaskóla Íslands og Ljósmæðraskóla Íslands.
    Röntgentæknaskólinn hefur þegar verið fluttur yfir til menntmrn. og annast Tækniskóli Íslands kennsluna. Hjúkrunarskólinn var fluttur yfir til menntmrn. fyrir nokkrum árum en hefur nú verið lagður niður eftir að hjúkrunarnám var sett á háskólastig.
    Þótt frv. fjalli aðeins um yfirfærslu Lyfjatæknaskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands til menntmrn. tekur það enn fremur á málefnum Ljósmæðraskólans og Sjúkraliðaskólans. Þannig er mál með vexti að Sjúkraliðaskóli Íslands hefur þegar verið lagður niður á vegum heilbr. - og trmrn. en það gerðist hinn 1. þessa mánaðar. Helgaðist það af því að sjúkraliðanám hefur um nokkurt skeið einnig verið stundað í fjölbrautaskólum landsins og var því ekki lengur talin þörf á Sjúkraliðaskóla Íslands. Hvað snertir Ljósmæðraskóla Íslands er gert ráð fyrir því að lög þar að lútandi, lög nr. 35/1964, um Ljósmæðraskóla Íslands, falli úr gildi 31. des. 1992 þannig að sá hópur sem hóf nám í haust verði síðasti hópurinn sem lýkur námi úr þeim skóla, en því námi lýkur vorið 1992. Þegar hefur verið hafin athugun á framtíðarskipan ljósmæðranáms á vegum menntmrn., hugsanlega í tengslum við námsbraut í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands.
    Vegna ofangreindra breytinga á starfsemi Ljósmæðraskóla Íslands og Sjúkraliðaskólans er nauðsynlegt að breyta lögum þar að lútandi, annars vegar lögum nr. 35/1964, um Ljósmæðraskólann, og ljósmæðralögum nr. 67/1984. Hins vegar lögum um sjúkraliða nr. 58/1984, vegna þess að þar er skólanna sérstaklega getið. Verður að laga lögin að breyttum aðstæðum.
    Hvað snertir hina skólana tvo sem eru aðalefni frv., Lyfjatækniskólann og Þroskaþjálfaskólann, hefur náðst samkomulag við menntmrn. um yfirtökuna og er ætlunin að nám lyfjatækna verði tengt einhverjum þeim

framhaldsskólum sem fyrir eru og að Þroskaþjálfaskóli Íslands starfi áfram sem sérstök stofnun. Til þess að koma öllum þessum breytingum á þarf að breyta fimm lögum, þ.e. lögum sem ég hef þegar talið upp varðandi Sjúkraliðaskólann og sjúkraliða og Ljósmæðraskólann og ljósmæður, en auk þess þarf að breyta lögum nr. 40/1985, um Þroskaþjálfaskóla Íslands og 15. gr. laga nr. 76/1982, um lyfjadreifingu, þar sem er að finna lagastoð fyrir Lyfjatæknaskóla Íslands. Þær breytingar eru í sjálfu sér einfaldar. Annars vegar breyting á 2. gr. laga nr. 40/1985, um Þroskaþjálfaskóla Íslands, þannig að í stað ,,heilbr. - og trmrh.`` komi: menntmrh., og hins vegar varðandi 15. gr. laga nr. 76/1982, um lyfjadreifingu, þar sem fram kemur að menntmrn. starfræki við framhaldsskólana nám í lyfjatækni í samvinnu við samtök lyfsala í stað heilbrrn. Gert er ráð fyrir því að lögin öðlist gildi hinn 1. júlí 1991, nái þau fram að ganga, þ.e. við lok yfirstandandi skólaárs, og verði þá fjármunir fluttir á milli ráðuneytanna í samræmi við það.
    Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og til heilbr. - og trn. með ósk um að nefndin hraði störfum þannig að tækifæri gefist til þess að afgreiða frv. fyrir áramót, en æskilegt væri að ráðuneytið hefði nokkurn tíma til þess að koma formlegri yfirfærslu í höfn.