Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að endurflytja frv. til laga um breytingar á lögum nr. 33/1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi Íslands. Þó að heiti þessa frv. sé á þennan veg þá fjallar sú brtt. á þessum lögum sem hér er lögð fram ekki um aukinn rétt annarra þjóða til fiskveiða í landhelgi Íslands.
    Það mál sem hér er verið að flytja snertir fyrst og fremst það að fiskiskip frá Færeyjum og Grænlandi megi óhindrað selja Íslendingum afla úr sínum skipum. Á sínum tíma þegar þessi lög voru sett var landhelgi Íslendinga svo lítil að það var veruleg vernd í því að gera skipum sem stunduðu veiðar við landið ókleift að njóta hér hafnaraðstöðu. Sú hugsun ætti ekki að vera til staðar í dag þegar við erum komnir með 200 mílna fiskveiðilandhelgi, enda hygg ég að varla mundi það gerast að þeir sem hér eru meðflm. létu sér detta það í hug að fara að stuðla að auknum veiðum innan íslensku landhelginnar.
    Hitt er svo á að líta að hagsmunir þeirra sem reka hér fiskvinnslustöðvar er að geta fengið keyptan fisk. Hagsmunir þeirra sem reka hér iðnfyrirtæki eru að geta stundað sinn iðnað og haft sem blómlegust viðskipti. Ég hygg að fleiri en ég hafi tekið eftir því að Færeyingar voru að gera þjónustusamninga við hluta af þeim rússneska úthafsflota sem stundar fiskveiðar fyrir utan íslensku landhelgina. Þessi þjónustusamningur mun vafalaust koma skipasmíðaiðnaði Færeyja að verulegu gagni. Á sama tíma hefur okkur Íslendinga skort víðsýni til þess að sjá þessa hagsmuni í réttu ljósi. Ég á þó ekkert sökótt við Nd. Alþingis í þessum efnum því að hún hefur afgreitt þetta frv. frá sér til Ed. þá það hefur komið hér fyrir. En Ed. hefur því miður ekki stutt málið og það hefur þess vegna strandað.
    Ég vil vekja sérstaka athygli á því að 4. sept. 1990 var samþykkt úti í Þórshöfn ályktun sem hv. 3. þm. Norðurl. e. beitti sér fyrir. Þessi ályktun varðar landanir fiskiskipa og vil ég, með leyfi forseta, lesa hana:
    ,,Vestnorræna þingmannaráðið fer þess á leit við vestnorrænu löndin að þau meti möguleika á samningum þeirra á milli um gjaldalausar landanir svo að fiskiskip geti óheft selt afla sinn í löndunum þremur.``
    Ég lít svo á að samþykkt þessarar tillögu á þeim vettvangi sýni að menn eru farnir að hugsa í stærri einingum í þessum efnum. Og ég vænti þess nú að það gerist á þessu þingi að menn átti sig á því að það eru stórir hagsmunir fyrir okkur Íslendinga að auka mjög samskipti okkar við þessar þjóðir, Færeyinga og Grænlendinga. Við erum hið stóra móðurskip sem vissulega á að líta svo til þessara þjóða að samstarfið hljóti að auðga okkur ekki síður en þá.
    Með leyfi forseta óska ég svo eftir að frv. þetta fari til sjútvn. Nd.