Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vildi út af þessu máli taka það fram að það hefur verið reynt, eftir því sem við hefur verið komið, að greiða fyrir löndunum skipa hér á landi frá bæði Grænlandi og Færeyjum. Ísland hefur fylgt þeirri stefnu sem í reynd EFTA - ríkin hafa tekið upp í samningum við Efnahagsbandalagið að það væri öllum frjálst að landa afla hér á landi, enda væri aflinn ekki fenginn úr sameiginlegum stofnum sem ekki hefði náðst samkomulag um. Frá þessu hafa þó verið gerðar þær undantekningar hér á landi að Grænlendingar hafa fengið heimild til þess að landa hér úr stofni sem er sameiginlegur á milli landanna, þ.e. stofni sem kenndur er við Dohrn-banka.
    Það verður að hafa í huga í þessu sambandi að Ísland og Grænland eiga sameiginlegan karfastofn og Grænlendingar hafa framselt þessi aflaréttindi að langmestu leyti til Efnahagsbandalagsríkjanna. Hér hefur verið um verulegt magn að ræða en afli hefur hins vegar verið sáralítill. Eftir því hefur verið sótt, m.a. af Þjóðverjum, að fá að landa þeim afla hér á landi, enda alla tíð verið ljóst að það er mun betra að gera út við Austur - Grænland frá Íslandi en frá Austur - Grænlandi, enda hafnir þar nánast engar.
    Þegar samkomulag náðist milli Íslendinga, Grænlendinga og Norðmanna í loðnumálinu svokallaða þá var það eitt af því sem þar var tekið skýrt fram að öllum þjóðunum væri heimilt að landa þeim afla í hvaða landi sem er. Þannig er þeim skipum sem samningurinn nær til heimilt að landa afla sínum hér á landi. Það hefur engin fyrirstaða verið á því að afla sem kemur úr öðrum stofnum, t.d. rækju frá Svalbarða hefur ávallt verið heimilt að landa hér á landi og þau leyfi verið mjög auðfengin.
    Ég vildi aðeins benda á þetta, virðulegur forseti, því að í þessu sambandi er vissulega um samningamál að ræða sem verður að taka tillit til. Ísland hefur mótað ákveðna stefnu og Fríverslunarbandalagið tekið þá stefnu upp í þeim samskiptum sem hafa verið við Efnahagsbandalagið. Ég vil taka undir með hv. þm. um það að okkur ber að rækja samskiptin við Færeyinga og Grænlendinga alveg sérstaklega. Á það er lögð mikil áhersla af Íslands hálfu að ná samkomulagi við Grænlendinga um þá sameiginlegu fiskstofna sem við höfum enn sem komið er ekki samið um, þ.e. rækju og karfa. Þegar það samkomulag hefur náðst er að sjálfsögðu ekkert því til fyrirstöðu að landanir á þeim afla verði algerlega frjálsar og án allra afskipta með sambærilegum hætti og gerðist með loðnuna. Hingað til hafa samskiptin við Grænland verið góð og öll þau vandamál sem upp hafa komið hafa verið leyst á milli okkar og þeirra og samskiptin hafa farið batnandi á undanförnum árum. Ég vænti þess að svo megi verða í framtíðinni.