Flm. (Jón Sæmundur Sigurjónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum. Þetta mál var flutt á síðasta þingi en var því miður ekki afgreitt úr nefnd.
    Eins og kunnugt er hefur þróun lífeyrissjóða á Íslandi verið með afar misjöfnum hætti. Með tíð og tíma hafa orðið til yfir 90 lífeyrissjóðir, stofnaðir á mismunandi tímum með mismunandi reglugerðum og mismunandi fjárhagsgetu. Niðurstaðan fyrir bótaþegann eru svo mismunandi bætur jafnvel þótt greiddar séu sömu upphæðir í iðgjöld um jafnlangt æviskeið. Það er því augljóst að ekkert jafnrétti ríkir fyrir þegna þessa lands í lífeyrismálum.
    Vegna þess að aðild að lífeyrissjóðunum er háð starfi og stéttarfélagsaðild á maður á ellilífeyrisaldri það undir tilviljun æviferils síns en ekki undir heildargreiðslum sínum í einstaka lífeyrissjóði hverra tekna hann nýtur um ævikvöldið. Þetta eru augljós sannindi sem hafa leitt til þess að krafan um einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, sem mundi bæta úr öllum þessum ágöllum, hefur hvað eftir annað komið fram. Þar mundu allir búa við sama rétt eins og stjórnarskráin mælir fyrir um að Íslendingar skuli gera.
    Það hefur reynst með eindæmum erfitt að losna úr viðjum ríkjandi lífeyriskerfis.
Frv. endurskoðunarnefndar lífeyrissjóðakerfis sem tók um áratug að semja er nú loksins komið fram, þ.e. það kom fram á síðasta þingi og var þar flutt til sýnis. Það frv. var þá lagt í milliþinganefnd og eftir vinnuhraða þeirrar nefndar að dæma er ekki að sjá að það muni verða lagt fram öðruvísi en til sýnis öðru sinni ef það kemur þá yfirleitt fram á þessu þingi. Yrði það að lögum mundi það bæta stórlega úr ágöllum núverandi kerfis þó það leiddi ekki til þess fyrirkomulags sem flutningsmaður teldi skynsamlegast í lífeyrismálum, en það er eitt samræmt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn sem væri byggt á svokölluðu gegnumstreymi.
    Verstu ágallar núverandi kerfis og einnig samkvæmt því fyrirkomulagi sem frv. fjmrh. gerir ráð fyrir, þ.e. frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða, eru þeir að fólkið á ekkert val um það í hvaða lífeyrissjóði það lendir. Það er háð tilviljun starfsferils þess hvaða laun það hlýtur í ellinni því að hverjum og einum launamanni er gert að skyldu að vera í lífeyrissjóði stéttarfélags síns og verður hann þá að hlíta því eins og hluta af sínum kjörum að lífeyrissjóður hans sé öðruvísi en annarra. Í þessu felst töluvert ranglæti þegar menn eru í raun og veru að kaupa sér þessi réttindi, að þeir fái ekki að ráða hvað þeir eru að kaupa. Hluti af þessu ranglæti er að launamanni er gert að slíta sinn iðgjaldaferil í sundur ef hann skiptir um starf og skipta um leið um lífeyrissjóð. Honum er gert að hefja nýjan feril þótt hann kæri sig ekkert um þessa röskun á högum sínum. Þetta hefur því leitt til ýmissa vandræðamála og leiðinda í þjóðfélaginu sem auðvelt væri að komast hjá ef frelsi ríkti í þessum málum.
    Nýjasta dæmið í þessum efnum má sjá í frétt Morgunblaðsins fimmtudaginn 8. nóv. sl., með leyfi forseta, en þar kemur fram að starfsmenn Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri sem eru í Starfsmannafélagi Akureyrarbæjar vilja losna við að flytjast í Lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna. Í fréttinni er vitnað í orð Jóhönnu Júlíusdóttur, formanns Starfsmannafélags Akureyrarbæjar, þar sem hún afhenti Halldóri Jónssyni bæjarstjóra undirskriftir um 200 félagsmanna sem vinna á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Þeir skora á bæjarstjórn Akureyrar að beita sér fyrir því að þeir geti áfram verið í Lífeyrissjóði Starfsmannafélags Akureyrarbæjar í stað þess að flytjast yfir í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eins og gert er ráð fyrir í lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og í lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Jóhanna Júlíusdóttir sagði að fólk væri almennt afar óánægt með þá tilfærslu á greiðslum í lífeyrissjóð sem fyrir dyrum stæði. Hún vonaði að bæjarstjórn Akureyrar gæti fengið einhverju áorkað í lífeyrissjóðsmálinu því að það sé mikið hagsmunamál að halda þessum peningum í byggðarlaginu og að félagarnir geti sótt þjónustu heima í héraði. ,,En það er einhvern veginn,`` sagði Jóhanna, ,,eins og landsbyggðarfólk lygni bara aftur augunum og á meðan renna allir hlutir í burtu frá okkur suður.`` Þetta er aðeins einn flötur á þessu máli sem hér er flutt. Grundvallaratriðið er auðvitað það að fólk hafi frelsi til að velja hvar það kaupir sín réttindi, eftirlaun í ellinni.
    Það er þar að auki heldur ankannalegt að skylda launamenn til iðgjaldagreiðslna ef þeir hafa hafið töku lífeyris. Það er því lagt til í þessu frv. að þeim launamönnum sem eru lífeyrisþegar nú þegar sé ekki gert skylt að greiða á sama tíma iðgjöld til lífeyrissjóðs nema þeir kæri sig um það. Frv. sem hér er lagt fram hljóðar svo:
    ,,1. gr. Í stað 1. málsl. 2. gr. laganna komi þrír nýir málsliðir svohljóðandi:
    Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði að eigin vali, enda starfi lífeyrissjóðurinn samkvæmt sérstökum lögum eða reglugerð sem staðfest hefur verið af fjármálaráðuneytinu. Einungis lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps skal þó skylt að veita launamanni aðild að sjóðnum, en engum lífeyrissjóði skal heimilt að segja launamanni upp aðild óski hann áframhaldandi aðildar þar þótt hann skipti um starf.`` Það er sérstaklega þessi grein sem mundi eiga vel við hjá þeim Akureyringum sem ekki kæra sig um að vera skikkaðir til að fara í allt annan lífeyrissjóð en þeir eru í. Og áfram segir í frv.: ,,Launamönnum, sem hafa hafið töku lífeyris, er ekki gert skylt að greiða iðgjöld í lífeyrissjóð.``
    Í 1. málsl. er lögð til sú breyting að launamanni sé ekki lengur gert skylt að vera í lífeyrissjóði starfsstéttar sinnar eða starfshóps, heldur hafi hann rétt til að velja sér þann lífeyrissjóð þar sem hann telur hag sínum best borgið. Lögð er sú kvöð á lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps skv. 2. málsl. að veita launamanni aðild en öðrum sjóðum er það í sjálfsvald sett. Hugsanlegt væri að fella þetta síðastnefnda ákvæði niður að einhverjum tíma liðnum. Þá er launamanni gefið frjálst val um að vera áfram í sínum gamla lífeyrissjóði, ef honum sýnist svo, enda þótt hann skipti um starfsvettvang.
    Í 2. gr. segir svo: ,,Í stað orðanna ,,náð 75 ára aldri`` í 2 málsl. 5. gr. laganna komi: hafið töku lífeyris.`` Þarna er gert ráð fyrir að heimild til setningar reglugerðar um endurgreiðslur iðgjalda einskorðist ekki við þá sem hafa náð 75 ára aldri, heldur verði víkkuð út þannig að hún nái til allra lífeyrisþega. Þetta á við það að menn sem eru komnir á lífeyrisaldur þurfi ekki lengur að greiða iðgjöld heldur þiggi lífeyri frá sínum lífeyrissjóði án þess að liggja undir greiðslukvöð iðgjalds. Það virðist eðlilegt að þeir þurfi ekki að liggja undir þeirri greiðslukvöð ef þeir kæra sig ekki um það, enda fá þeir á þeim tíma sinn lífeyri frá réttum lífeyrisaldri.
    Að lokinni þessari umræðu vildi ég leggja til, virðulegur forseti, að málinu verði vísað til fjh. - og viðskn. og til 2. umr.