Ábyrgðadeild fiskeldislána
Miðvikudaginn 21. nóvember 1990


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vænti þess að það hendi ekki hv. þm. að láta sjá sig í sjónvarpinu því að eftir því sem hann segir gæti það orðið til þess að draga mjög úr fylgi hans. En svo sleppt sé öllu gamni þá tók ég lokaorð hv. þm. sem slík, sem er nú líka nauðsynlegt að viðhafa einstaka sinnum þótt hér sé um mjög alvarlegt mál að ræða. En ég vil leiðrétta þann misskilning hjá honum að það hafi falist í mínum orðum að komin væri niðurstaða í málinu. Svo er alls ekki. Þess vegna bað forsrh. um að þessi nefnd yrði sett saman, að tekin væri afstaða til þeirra tillagna sem koma fram í þessari skýrslu.
    Nú er það áreiðanlega rétt hjá hv. þm. að þessi skýrsla er trúnaðarmál. Hún er sérstakt trúnaðarmál vegna þess að hún fjallar um fjárhagsmálefni einstakra fyrirtækja og það er mjög mikilvægt hvað svo sem öllum öðrum trúnaðarmálum líður og ég veit að hv. þm. er mér sammála í því að það er mikilvægt að með slíka skýrslu sé farið sem slíka. En ég get tekið undir það með honum að þingnefndir verða að sjálfsögðu að hafa aðgang að trúnaðarmálum. Ég kannast ekki við það að slíkum trúnaðarmálum sé haldið fyrir þingnefndum í mikilvægum störfum þeirra. Ég tel eðlilegt að fjh. - og viðskn. biðji um slíkar upplýsingar og auðvitað fer nefndin með þær eins og önnur trúnaðarmál sem sú ágæta nefnd þarf iðulega að fjalla um.
    Ég vil jafnframt taka það fram að í orðum mínum fólst ekki að það bæri að neita eðlilegri rekstrarfjárfyrirgreiðslu til þessara fyrirtækja. Ég er þvert á móti þeirrar skoðunar að það beri að greiða fyrir því, enda séu fjármál viðkomandi fyrirtækja í því lagi að trú sé á því að þau muni standast til lengri framtíðar. Þá er ég ekki að tala um það lægsta verð sem er í dag heldur á grundvelli þess mats sem menn hafa á framtíðarhorfum slíkra fyrirtækja. Og ég veit að hv. þm. er mér sammála í því að mörg þessara fyrirtækja hafa fjárfest svo mikið og skulda svo mikið af þessari fjárfestingu að það er lítil von um að þau geti greitt það í náinni framtíð. Þess vegna tel ég eðlilegt að endurskipuleggja fjárhag þessara fyrirtækja, afskrifa þær skuldir sem á þeim hvíla með einum eða öðrum hætti, hvort sem það er í gegnum nauðasamninga, gjaldþrot eða með öðrum hætti, og lána þeim í framhaldi af því til eðlilegrar uppbyggingar því að ég er alveg sammála hv. þm. í því að við megum ekki afskrifa þessa atvinnugrein á einu bretti þótt þar hafi orðið veruleg áföll. Þau áföll eru staðreynd en það er ekki þar með sagt að ekkert geti gengið í þessari grein í framtíðinni. Ég tel þvert á móti að þar séu margvíslegir möguleikar sem beri að nýta, þar með talið að koma lífi í enn þá fleiri lúður af þeim stofni sem hann nefndi og mér er vel kunnugt um.