Umboðsmaður barna
Miðvikudaginn 21. nóvember 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það hefði verið freistandi að taka upp þessa umræðu um stofnanalausnir á málefnum barna og fjölskyldna en það er því miður ekki tími til þess og óskandi að við getum tekið upp þráðinn aftur um það efni seinna.
    Mig langar aðeins til að gera hér athugasemd við mál hv. 2. þm. Vestf. þar sem hann ræddi um áhrifamestu vörnina gegn slysum sem væru greiðari samgöngur, betri vegir. Nú fyrir skömmu komu menn frá Vegagerð ríkisins til þess að kynna sína áætlun og ég spurði þá m.a. að því hvort bættar samgöngur og það að teknar væru hættulegar beygjur, hættulegar brýr o.s.frv. af vegum hefðu dregið úr slysum. Svarið var að slysatíðnin per einhvern ákveðinn tiltekinn fjölda bíla hefur haldist óbreytt í 20 ár og ekki er neinn merkjanlegur munur á slysum vegna bættra samgangna svo að þá leiðréttist nú sá misskilningur. ( ÓÞÞ: Nei, hann leiðréttist ekki ...) Við erum ekki hér í samræðum, þær eru ekki leyfilegar. Hitt mun mála sannast að slysatíðni á börnum í þéttbýli á Íslandi sem er meiri en nokkurs staðar annars staðar er rakin fyrst og fremst til þess að börn eru ein á ferð út um allt allan daginn. Og við vitum að ástæðan er sú að það er ónóg dagvistun, við vitum að ástæðan er sundurslitinn og stuttur skóladagur. Ég þarf ekki að rekja þetta einu sinni. Við þekkjum þetta öll, að þar í liggur þessi háa slysatíðni á börnum og ég vil bara tilnefna nokkrar tölur hérna máli mínu til stuðnings: Um 50% barna, þetta eru ekki alveg nýjustu tölur, á aldrinum 7 -- 12 ára ganga sjálfala allan daginn og þegar kemur að einstæðum foreldrum er það 1 / 4 hluti barna á aldrinum 0 -- 6 ára sem gengur sjálfala eða enginn gætir nema í besta falli eldri systkini og um 64% barna einstæðra foreldra á aldrinum 7 -- 12 ára eru gæslulaus alla daga. Þetta talar sínu máli.