Umboðsmaður barna
Miðvikudaginn 21. nóvember 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim athugasemdum sem hv. 12. þm. Reykv. kom hér með en verulegrar einsýni gætti samt í þeim málflutningi. Það liggur fyrir að víða í okkar gatnakerfi er leyfður akstur í báðar áttir þó að umferðarþungi á viðkomandi götu sé kominn hátt yfir alla staðla sem miðað er við erlendis í þeim tilfellum. Og það liggur fyrir að mörg börn slasast sem eru í bifreiðum sem lenda í árekstri. Ég held að það sé dálítið barnaleg skýring að segja: Þrátt fyrir að beygjunum hefur verið fækkað er slysatíðnin sú sama. Hver einasti maður sem horfir á umferðina hér í Reykjavík
og hefur þokkalegt minni þarf ekki að vera hér lengi til að átta sig á því hvað hún hefur vaxið svakalega á örfáum árum. Hún hefur vaxið það mikið að það er með ólíkindum. Auðvitað hafa lagfæringarnar skilað sínum árangri en umferðarþunginn hefur vaxið það mikið að það vegur upp á móti.
    En hitt stendur óhaggað sem ég sagði áðan að sú þjóð Evrópu sem mestum fjármunum hefur varið til þess að gera sitt vegakerfi betra er líka með minnstu slysatíðnina. En ég ætla ekki að standa hér og lýsa því yfir að það sé allt í lagi að krakkarnir gangi sjálfala á götunni. Auðvitað skapar það gífurlega slysatíðni og auðvitað eru þau rök sem komu fram hjá hv. 12. þm. Reykv. í þeim efnum fullkomlega rétt. Það er allt annað mál. Hins vegar tel ég að það blasi við það viðhorf sem gjarnan heyrist hjá fólki, það vill setja fjármuni í ýmis mál, m.a. heilsugæslu, tryggingastarfsemi og slíka hluti, en það hikar þegar rætt er um hvað fyrirbyggjandi aðgerðir í umferðarmálum, með því að betrumbæta vegakerfið, skili miklu. Ætli Arnarneshæðin verði ekki eitt af dæmunum um það þegar frá líður að sú breyting sem þar var gerð eigi eftir að draga verulega úr slysum? Ég tek þetta dæmi vegna þess að það er svo nærtækt að jafnvel þeir sem hafa ekki skyggni yfir landið allt ættu í það minnsta að hafa skyggni yfir það svæði.