Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þessari öld hefur skólaskylda sífellt verið að lengjast hvað varðar árafjölda sem hverju ungmenni er skylt að sækja skóla. Eins hefur fjöldi skólagöngumánaða ár hvert aukist og einnig hefur kennslustundum á viku fjölgað. Það er því ljóst að skólanum hefur verið ætlað sífellt stærra hlutverk í uppeldi, þroska og almennri menntun æskulýðs. Að sama skapi hefur ábyrgð skóla og skólayfirvalda vaxið. Þegar skólakerfinu tekst ekki að valda hlutverki sínu gagnvart nemanda sem hverfur úr skóla án þess að hafa lokið skólaskyldu er sýnu stærra skarð fyrir skildi í dag heldur en áður þegar uppeldi og fræðsla var meira í höndum annarra aðila í samfélaginu.
    Á undanförnum árum sýna skýrslur Hagstofunnar að 150 -- 235 nemendur á skólaskyldualdri hafa horfið úr skýrslunum án þess að vitað sé hvert þeir fóru. Flest þessi tilvik munu vera með eðlilegum skýringum en langt er frá að svo sé um öll. Skólafólk og aðrir sem veita eiga ungmennum leiðsögn og fræðslu hafa áhyggjur af þeim stóra og sívaxandi hópi sem verður vímuefnum að bráð. Og það að til skuli vera nemendur sem hefja áfengisneyslu 10 ára er alvörumál og áhyggjuefni fyrir alla þjóðina.
    Það hefur komið fram áður í þessum þingsal í haust að hópur þeirra sem leiðast út í slíka neyslu fer sífellt vaxandi og endar með vergangi og afbrotum þá oft um leið þegar verst lætur. Því er spurt um það hér hvaða úrræða hæstv. menntmrh. og ráðuneyti hans hafi leitað í þessum efnum og til hvaða úrræða annarra verði gripið á næstunni. Málið er brýnt og sífellt meira knýjandi.