Landgræðsla á Vestfjörðum
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég hef undirbúið svar við þessari fsp. í beinu samræmi við þær spurningar sem fram voru lagðar en ekki þá ræðu sem hv. fyrirspyrjandi flutti hér núna vegna þess að ég hafði ekki annað til að styðjast við þegar undirbúið var svar við fsp. en spurningarnar eins og þær hljóða. Þær eru svohljóðandi:
 ,,1. Hvernig er ástand á girðingum Landgræðslunnar á Vestfjörðum?
    2. Hvað miðar uppgræðslu í þeim?
    3. Hvenær er talið að uppgræðslu verði lokið samkvæmt áætlun þar um?
    4. Hvenær má í síðasta lagi gera ráð fyrir að landi innan girðinganna verði skilað til eigenda?``
    Þessum spurningum ætla ég að svara en ráðlegg fyrirspyrjanda ef hann vill spyrja um tiltekið efni, eins og t.d. eina ákveðna landgræðslugirðingu, að gera það þá í hinni skriflegu fsp., en ætlast ekki til svara um sértæka hluti án undirbúnings af hálfu þess sem svörin veitir.
    Svörin eru þessi: Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað frá Landgræðslu ríkisins er staðan í landgræðslugirðingum á Vestfjörðum sem spurt var um svohljóðandi:
    Á vegum Landgræðslu ríkisins, og áður Sandgræðslu Íslands, hafa eftirtaldar girðingar verið gerðar á Vestfjörðum frá upphafi og til og með nú:
    Í Bolungarvík árið 1914, girðingar að lengd 6,9 km, stærð 145 ha. Skráningarnúmer þeirrar girðingar var 5.
    Í Sauðlauksdal var girt 1929 og aftur stækkað 1972. Lengd girðingar er alls 14 km, stærð 500 ha og skráningarnúmer 19.
    Í Holti í Önundarfirði var girt 1946. Lengdin er 6 km og stærð 130 ha. Númer þeirrar girðingar er 102.
    Í Breiðavík 1953. Lengd 12 km, stærð 850 ha, skráningarnúmer 41.
    Í Kollsvík 1953. Lengd 6,2 km, stærð 700 ha, skráningarnúmer 42.
    Girðingin í Bolungarvík er ekki lengur í umsjá Landgræðslunnar enda að hluta til komin undir byggð.
    Girðingunum í Breiðavík og Kollsvík hefur ekki verið haldið við af Landgræðslunni og er þætti Landgræðslunnar í uppgræðslu á þessum stöðum lokið.
    Girðingarnar í Sauðlauksdal og Holti eru báðar í umsjá Landgræðslunnar og er ástand þeirra, þ.e. girðinganna, nokkuð gott og fá þær eðlilegt viðhald og eftirlit árlega.
    Unnið hefur verið að sáningu og áburðardreifingu í þessum girðingum en á báðum þessum svæðum er því miður það mikið sandfok úr fjöru að vart er hægt að vænta þess að uppgræðslu ljúki í eitt skipti fyrir öll. Flugvellir eru innan beggja þessara girðinga og saman fara því landgræðslustörf Landgræðslunnar og starfsemi Flugmálastjórnar og nauðsyn þess að tryggja friðun á landi umhverfis flugvellina. Þess vegna er þess tæplega að vænta að friðun ljúki á þessum svæðum nema á einhverjum takmörkuðum hlutum þeirra á næstu árum.
    Landgræðslan hefur safnað miklu melfræi í Sauðlauksdalsgirðingunni á undanförnum árum. Þessi girðing hefur verið ein af þeim bestu sem Landgræðslan hefur yfir að ráða til söfnunar melfræs.
    Það er rétt að taka það fram, og það kom reyndar fram í máli fyrirspyrjanda hér áðan, að hluti af landi í girðingunni í Sauðlauksdal er úr landi jarðarinnar Hvalskers og hefur reyndar eigandi þeirrar jarðar nýtt, eftir því sem hann hefur óskað, hluta síns lands til slægna.
    Að því er varðar svar við fjórðu spurningunni vísast til 12. gr. laga um landgræðslu nr. 17/1965, en þar segir: ,,Þegar land, sem Landgræðsla ríkisins hefur tekið til græðslu með samkomulagi, sbr. 7. gr., er svo vel gróið að dómi landgræðslustjóra að eigi er nauðsyn frekari aðgerða frá hendi Landgræðslunnar, skal afhenda það aftur eigendum. Landgræðslustjóri setur reglur um meðferð landsins.``
    Á grundvelli þessa lagaákvæðis og með vísan til þess sem ég áðan sagði um ástandið bæði í Sauðlauksdalsgirðingunni og girðingunni að Holti er, vegna ástands lands í þessum girðingum a.m.k. að verulegum hluta þess, þess tæplega að vænta því miður að unnt verði að skila landinu aftur eða taka það úr friðun. Það er reyndar svo að sandfok veldur vandræðum við rekstur þessara flugvalla beggja. Ef eitthvað er er þörf á auknu átaki til uppgræðslu í þessum girðingum, bæði til þess að varna landfoki og sandfoki og tryggja betur rekstur flugvallanna sem innan girðingarsvæðisins eru.