Landgræðsla á Vestfjörðum
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Sú fsp. sem ég bar hér fram innihélt allt sem ég þurfti að fá upplýsingar um þannig að ræða mín var öll innan þess ramma. Hitt er athyglisvert að þegar lesið var upp hvaða sandgræðslugirðingar eru á Vestfjörðum þá var jörðin sem ég beindi sérstaklega augum að ekki talin með. Það var talið að hún væri innan landgræðslugirðingarinnar í Sauðlauksdal. En það kom aftur á móti fram að þetta væru einhverjar bestu girðingarnar til meltekju og það sagði það sem segja þurfti. Ríkisvaldið virðist líta svo á að það beri að stela þessu landi, það beri að stela því vegna þess að þarna er hægt að taka mel. Ég hef séð bréfaskriftir þar að lútandi. Mér er líka ljóst að sú aðferð sem ábúandinn hefur haft við að græða upp sitt land er betri en Sandgræðslunnar því sá er og munurinn að það land er slétt en hitt er allt í hólum.
    Að halda því fram að það séu hagsmunir flugvallarins að þetta land tilheyri ekki jörðinni er náttúrlega haugalygi og það er alveg makalaust að ráðherra skuli leyfa sér úr þessum stól að halda slíkum hlutum fram. Ég skora á hæstv. ráðherra æru sjálfs sín vegna að endurskoða þetta mál og meta það hvort hann ætlar að virða stjórnarskrána eða vera ber að því að brjóta lögin og virða ekki stjórnarskrá Íslands um eignarrétt í þessum efnum.