Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Það var nú í sumar, nánar tiltekið 31. júlí sl., að Hollustuvernd ríkisins barst umsókn um starfsleyfi annars vegar fyrir móttöku og flokkunarstað svo og fyrir urðunarstað fyrir sorp og hins vegar fyrir móttökustöð fyrir umhverfismengandi úrgang. Samkvæmt mengunarvarnareglugerð nr. 389/1990 veitir umhvrh. starfsleyfi fyrir starfsemi sem getur haft í för með sér mengun. Þess vegna er þessi starfsleyfisumsókn til komin.
    Eins og kom fram í máli fyrirspyrjanda er gert ráð fyrir því að sjálf flokkunar- og móttökustöðin verði í Gufunesi en urðun hefur verið valinn staður í Álfsnesi. Á sínum tíma var á vegum byggðasamlagsins Sorpeyðing höfuðborgarsvæðisins settur á laggirnar starfshópur sem samanstóð af fulltrúum frá Hollustuvernd ríkisins, Náttúruverndarráði, Náttúrufræðistofnun, borgarverkfræðingi Reykjavíkur og bæjarverkfræðingi Hafnarfjarðar svo og Skipulagi ríkisins sem vann að greinargerð og kortlagningu við val á urðunarstað. Þar var unnið fræðilegt umhverfismat á þeim stöðum sem helst þóttu koma til greina fyrir slíka starfsemi, þ.e. urðun á bögguðu sorpi, á svæðinu frá Hvalfirði og suður á Reykjanes. Þeir þættir sem voru taldir takmarkandi fyrir val slíks urðunarstaðar og tekið var tillit til voru eftirfarandi: umhverfissjónarmið, náttúruvernd, menningarminjar, gerð jarðvegs og berggrunns, grunnvatnsstreymi og nálægð við vatnsból, nálægð við byggð og þau svæði sem fyrirhugað er að byggja á meðan urðunarstaður er í notkun og nálægð við matvælaframleiðslu.
    Við val á urðunarstað fyrir væntanlega sorphauga Sorpeyðingar höfuðborgarsvæðisins var þar með í fyrsta skipti hérlendis gerð sérstök skipulagsáætlun um undirbúning, framkvæmd og landnotkun fyrir urðunarstað úrgangs þar sem tillit var tekið til umhverfis- og mengunarvarnaþátta.
    Starfshópurinn komst síðan að þeirri niðurstöðu að Álfsnesið væri heppilegasti staðurinn fyrir slíka urðun af þeim stöðum sem voru rannsakaðir.
    Ég er hins vegar ekkert sérlega hrifinn af þeim stað sem var valinn, m.a. vegna þess að þegar ég var formaður stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu var á vegum samtakanna unnið að gerð svæðisskipulags fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins var síðan gefið út og kynnt á árunum 1985 og 1986. Þar kom m.a. fram að Álfsnesið er talið einhver heppilegasti valkostur fyrir aukna byggð á höfuðborgarsvæðinu á næstu áratugum. Þannig að út frá því sjónarmiði get ég ekki fallist á að þessi staður sé sérlega heppilega valinn. Hins vegar hlýt ég að beygja mig fyrir þeim rökum sem starfshópurinn tók saman þegar hann komst að þessari niðurstöðu. Út frá þeim sjónarmiðum sem ég greindi frá áðan er staðarvalið sennilega það heppilegasta sem um var að ræða.
    Varðandi meðhöndlun starfsleyfisins, þ.e. undirbúning að útgáfu starfsleyfis og meðhöndlun umsóknarinnar, þótti umhvrn. skynsamlegt og ráðlegt, með

hliðsjón af því hvað hér er um viðkvæmt mál að ræða og hversu miklar deilur hafa verið uppi bæði um staðarval og sjálfa aðferðina við sorpeyðinguna að leita hlutlausrar ráðgjafar. Í samvinnu umhvrn. og mengunarvarnasviðs Hollustuverndar svo og aðilanna sjálfra var því ákveðið að fá ráðgjafa frá Þýskalandi til þess að fara mjög ítarlega yfir allan ferilinn, þ.e. flokkunar- og móttökustöðina og urðunina í Álfsnesi. Leitað var til þýsku verkfræðistofunnar Geoplan og þýsks ráðgjafarfyrirtækis prófessors Dr. Ing. Jessbergers í Þýskalandi til þess að skila umhvrn. og Hollustunefnd slíkri faglegri umsögn.
    Í október sl. var staddur hérlendis fulltrúi frá þýska ráðgjafarfyrirtækinu. Átti hann fund með öllum þeim aðilum sem hafa komið nálægt hönnun fyrirhugaðra hauga í Álfsnesi og sorpböggunarstöðvarinnar. Jafnframt fékk hann afhent öll gögn sem varða tæknilegar hönnunarforsendur. Geoplan og firma prófessors Dr. Ing. Jessbergers mun síðan yfirfara og meta hönnunina og prófa mismunandi þætti hennar með starfsleyfishæfni í huga. Þar munu þeir einnig taka mið af þeim stöðlum og kröfum sem eru í dag notaðir í Evrópu og þá sérstaklega í Þýskalandi. Umsögnin sem við eigum von á núna innan tíðar mun taka til eftirfarandi þátta: sorpmagns, samsetningar sorps o.fl., meðferðar sorpsins áður en það kemur á urðunarstað, grunnþéttingar, framræsingar, syturlagna og jarðvatnslagna, meðferðar yfirborðsvatns, þ.e. sigvatns, uppbyggingar hauganna og losunartækni, tækjabúnaðar og reksturs, innri uppbyggingar hauganna, aðstæðna á staðnum og yfirborðsþéttingar. Verið er síðan að vinna að starfsleyfistillögum fyrir urðunarstaðinn í Álfsnesi hjá Hollustuvernd og umhvrn. Búist er við að tillögunum verði lokið um næstu áramót. Starfsleyfið ætti því að geta farið í auglýsingu seinni hluta janúar 1991.