Neyðaráætlun vegna olíuleka
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Siglingamálastofnun ríkisins hefur um árabil stuðlað að uppbyggingu olímengunarvarnabúnaðar í höfnum landsins. Fyrstu áætlun um uppbyggingu slíks búnaðar samdi Siglingamálastofnun og lagði fram árið 1979 á ársfundi Hafnasambands sveitarfélaga. Vegna fjárskorts gekk hins vegar erfiðlega að koma þeirri áætlun í framkvæmd. Í samvinnu við Hafnasamband sveitarfélaga og Hafnamálastofnun hefur verið leitað hagkvæmari lausna. Nú er unnið eftir áætlun sem var samin af starfshópi sem skilaði tillögu um það efni í apríl í vor sem leið. Í megindráttum ráðgerir þessi nýja endurskoðaða áætlun um olíumengunarvarnir í höfnum landsins að lágmarks olíumengunarvarnabúnaður sé í hverri höfn, nægjanlegur til að fást við minni háttar olíumengun í sjó og geti stöðvað útbreiðslu olíu í sjó verði meiri háttar olíumengun. Auk þess hefur verið samin svonefnd köllunarskrá yfir alla þá aðila sem þarf að hafa samband við í skyndi verði olíumengunaróhapp í höfn.
    Fjórar meginbirgðastöðvar eru áætlaðar í landinu, ein í hverjum landsfjórðungi, þaðan sem fluttur verður í skyndi aukinn búnaður til þeirra hafna þar sem olíumengun sjávar hefur orðið og viðkomandi höfn ræður ekki við. Hin fyrsta af þessum birgðastöðvum sem komin er upp er birgðastöð Siglingamálastofnunar og Reykjavíkurhafnar við Reykjavíkurhöfn. Siglingamálastofnun hefur aukið við mengunarvarnabúnaðinn í birgðastöðinni árlega eins og fjárveitingar í fjárlögum hafa leyft. Birgðastöðin við Reykjavíkurhöfn er eina birgðastöðin fyrir olíumengunarvarnabúnað á landinu öllu, að undanskildum búnaði varnarliðsins í Helguvík og Hvalfirði og er oftsinnis á ári gripið til þessa búnaðar og hann jafnvel fluttur landshornanna á milli þar sem veruleg olíumengun hefur orðið í sjó.
    Við endurskoðun hafnalaga frá árinu 1984 var, til að auðvelda höfnum að eignast olíumengunarvarnabúnað, tekið inn ákvæði um að ríkissjóður greiði allt að 75% af stofnkostnaði við mengunarvarnir hafna. Þrátt fyrir þetta ákvæði hafnalaga um að ríkisframlagið nemi allt að 75% hefur gengið mjög hægt að fá hafnir landsins til að afla þessa búnaðar. Einkum er borið við að búnaðurinn sé dýr og fjárskortur hrjái hafnirnar. Segja má að utan Reykjavíkur og olíuhafnanna í Helguvík og Hvalfirði sé mjög takmarkaður búnaður til að fást við olíumengun í sjó.
    Auk ofannefnds búnaðar hafa verið gerðar áðurnefndar köllunarskrár fyrir hverja höfn, þ.e. skrá er yfir alla þá aðila sem þarf að hafa samband við í skyndi verði olíumengunaróhapp inni í höfn, svo sem hafnaryfirvöld, lögreglu, slökkvilið, björgunarsveit, Siglingamálastofnun og aðra sem málið varðar. Slík skrá skal liggja frammi sem víðast við viðkomandi höfn og hjá öllum aðilum sem eru á skránni. Flestar hafnir á landinu hafa þegar samið viðeigandi köllunarskrár og tilkynnt Siglingamálastofnun það.
    Þar fyrir utan er formlegt samstarf milli Norðurlandanna um gagnkvæma aðstoð verði veruleg olíumengun í sjó hjá einhverju aðildarlandanna. Þetta samkomulag er nefnt Kaupmannahafnarsamkomulagið. Ísland er ekki beinn aðili að þessu samkomulagi en hefur átt þar áheyrnarfulltrúa síðan 1977, en ráðgert er nú að þetta samkomulag verði endurskoðað og muni þá Íslendingar gerast fullgildir aðilar að því á næsta ári. Þá er unnið að því hjá Alþjóðasiglingamálastofnuninni, IMO, í London að semja alheimssamþykkt um alþjóðlega samvinnu og viðbúnað vegna olíumengunar í sjó.
    Síðan langar mig til að geta um eftirfarandi ályktun sem var samþykkt á 21. ársfundi Hafnasambands sveitarfélaga 19. okt. sl.:
    ,,Leitað verði eftir samstarfi við Siglingamálastofnun og olíufélögin um útboð og kaup á mengunarvarnabúnaði við hafnirnar í samræmi við tillögur starfshóps frá 9. apríl 1990.
    Siglingamálastofnun beiti sér fyrir því að ríkissjóður veiti fjármagn til kaupa á mengunarvarnabúnaði í hafnir óháð öðrum fjárveitingum til hafnagerða.``
    Þetta síðasta atriði tel ég að sé mjög mikilvægt, þ.e. að í fjárlögum verði hverju sinni sérstakur fjárlagaliður sem verði til innkaupa á mengunarvarnabúnaði.
    Að lokum vil ég aðeins geta þess að eftir olíumengunarslysið sem varð hér í haust út af Laugarnestanga hefur ráðuneytið óskað eftir því við Náttúrufræðistofnun Íslands að stofnunin taki saman greinargerð og semji tillögu um sérstakar aðgerðir sem hægt sé að grípa til verði olíumengunarslys þannig að hægt verði að bregðast við fljótt og vel til að bjarga fuglum sem lenda í hættu þegar olíumengunarslys verða í sjó.