Greiðsla sérfræðiþjónustu fyrir fatlað fólk
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Fyrir nokkru var vakin athygli mín á þeim mun á greiðslu fyrir sérfræðiþjónustu fyrir fatlað fólk sem er nú. Fötluð börn innan við 16 ára aldur greiða 900 kr. fyrir hvert viðtal við sérfræðing. En þegar komið er yfir 16 ára þrepið greiða þessir fötluðu einstaklingar mun lægra gjald, 600 kr., sem sumum þykir þó ærin upphæð ef oft þarf að leita læknis.
    Fötlun barna er af ýmsum toga. Hún kann að vera afleiðing slysa, afleiðing veikinda eða þá meðfædd. En á aldrinum til 16 ára fer greining slíkrar fötlunar fyrst og fremst fram og þá eru heimsóknir til sérfræðinga tíðar og kostnaðarsamar. Því hef ég leyft mér á þskj. 155 að leggja fram spurningar til hæstv. heilbr.- og trmrh. á þennan veg:
 ,,1. Hver er ástæða þess að fötluðu fólki innan 16 ára aldurs er gert að greiða hærri fjárhæð fyrir viðtal við sérfræðing en fatlað fólk 16 ára og eldra?
    2. Hver er ástæða þess að sjúkraþjálfun fatlaðra barna er ekki metin sem sérfræðiþjónusta?``
    Fötluð börn þurfa mjög oft á sjúkraþjálfun að halda. Úti á landi er sums staðar langt á milli staða sem veita slíka þjónustu. Fæstar heilsugæslustöðvar geta boðið upp á hana og alls ekki öll sjúkrahús. Þó eru nokkrir sjúkraþjálfarar sem starfa sjálfstætt en þeir eru fáir. Þeir foreldrar sem þurfa að aka börnum sínum langa leið til sjúkraþjálfunar fá enga greiðslu fyrir aksturinn en aftur á móti er akstur greiddur fyrir ferðir til sérfræðinga.
    Mér er kunnugt um að fyrir 1986 voru tilvik þar sem akstur til sjúkraþjálfara var greiddur. En árið 1986 var tekið fyrir það og var ástæða þess sú að talið var að lagaheimild skorti til slíkrar greiðslu. Þó er þetta í mörgum tilvikum umtalsverður kostnaður fyrir foreldra, bæði í beinum útlátum og vinnutapi ofan á þá ómældu erfiðleika og sálarstríð sem þeir eiga við að búa sem eru að reyna að gera börn sín, meira og minna fötluð, að hlutgengum þegnum í samfélaginu.
    Nú er það álitamál að margra dómi hvort ekki beri að flokka sjúkraþjálfun fatlaðra barna undir sérfræðiþjónustu. Þetta er þjónusta sem ekki geta aðrir leyst af hendi en sérmenntað og sérhæft fólk, ekki almennir læknar né hjúkrunarfólk, en kann að vera ómissandi þáttur í að efla getu einstaklingsins til að takast á við líf í hörðum heimi seinna meir.