Lögreglustöðin í Grindavík
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 4. þm. Reykn. beinir til mín fsp. á þskj. 148 svohljóðandi:
    ,,Hvenær hyggst ráðherra láta bjóða út innréttingar í nýju lögreglustöðina í Grindavík og hvenær er fyrirhugað að ljúka framkvæmdum?``
    Eins og fyrirspyrjanda er vel kunnugt og raunar kom fram í máli hans, þá er það svo að fjárveitingar til þessa verks hafa ekki verið nægar enn þá. Hins vegar hillir undir það í fjárlagafrv. því sem nú er til umfjöllunar hér á Alþingi að það verði tryggt með samþykkt næstu fjárlaga. Miðað við það hefur verið unnið að þessu máli á þann hátt að leitað hefur verið til samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdar um leyfi til þess að hefja þetta verk og nú hefur sú heimild fengist. Í framhaldi af því hefur ráðuneytið óskað eftir því við framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins að innrétting í aðalhæð í húsi því er keypt var í Grindavík til nota sem lögreglustöð, og fram kom í máli fyrirspyrjanda, verði boðin út núna strax. Stefnt er að því að verkinu ljúki fyrri hluta árs 1991.