Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 9. þm. Reykn. beinir til mín fyrirspurn svohljóðandi:
    ,,Er það ætlun íslenskra stjórnvalda að staðfesta samning Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni sem gerður var í Vínarborg 1988? Ef svo er, hvenær má vænta þess að tillögur þar um verði lagðar fyrir Alþingi?``
    Það er staðföst ætlun íslenskra stjórnvalda að fullgilda ofangreindan samning. Samningurinn sem slíkur öðlaðist gildi 11. nóv. 1990 og eru 26 ríki aðilar að honum. Fjögur vestræn ríki hafa gerst aðilar en þau eru: Bandaríkin, Kanada, Kýpur og Spánn. Hin ríkin sem eru aðilar að samningnum eru þessi: Bahamaeyjar, Bahrein, Bangladesh, Bútan, Bólivía, Chile, Ecuador, Ghana, Hvíta-Rússland, Indland, Jórdan, Kína, Mexíkó, Katar, Nígería, Nicaragua, Paraguay, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Senegal, Togo, Túnis og Úganda.
    Stjórnvöld hafa á þessu ári unnið að undirbúningi fullgildingar samningsins af Íslands hálfu en það starf er tvíþætt. Annars vegar þarf að undirbúa málið fyrir Alþingi á þann hátt að leitað verði heimildar til þess að mega staðfesta samninginn. Hefur samningurinn verið þýddur á íslensku og mun hann fylgja væntanlegri till. til þál. Hins vegar er ljóst að breyta þarf ákvæðum ýmissa laga til þess að unnt verði að fullgilda samninginn. Er það mjög flókið lagatæknilegt úrlausnarefni hvaða lögum þarf að breyta og á hvern hátt. M.a. þarf að huga mjög vel að lögsöguákvæðum og tilteknum nýmælum í samningnum. Frá árinu 1988 hafa starfsmenn dómsmálaráðuneyta á Norðurlöndum haft náið samstarf um þær lagabreytingar sem talin er þörf á vegna fullgildingar samningsins. Fyrsta þjóðþingið á Norðurlöndum sem nú hefur fengið þessi mál til umfjöllunar, sænska þingið, er að byrja það verk í sínu þingi. Undirbúningur og athuganir á væntanlegum lagabreytingum er flókið og umfangsmikið starf og mikil nákvæmnisvinna og þess er ekki að vænta að því verði lokið hér á landi fyrr en eftir nokkra mánuði.