Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka undirtektir þeirra sem hér hafa komið með athugasemdir og ég þakka dómsmrh. jákvæð svör hans. Ég fagna því að það er staðföst ákvörðun ríkisstjórnarinnar að staðfesta samninginn og er sannfærð um að Alþingi mun samþykkja að staðfesta hann þegar eftir því verður leitað hér. Ég skil það að það muni verða tímafrekt að fullgilda samninginn en ég bind líka miklar vonir við nýmælin í honum.
    Ég vona að okkur hér á hv. Alþingi takist líka að stuðla að því að efla þá starfsemi í landinu sem spornar gegn því að þessi ólánsefni komi inn í landið. Mín skoðun og margra annarra er að starfsemi fíkniefnalögreglunnar þurfi að fá svipaðan sess og tollgæslan hefur. Þó ég hafi hér fyrst og fremst hreyft við því sem fylgir aðild að samningi og að afstýra að efnið komist á göturnar er það hins vegar svo að fræðsla og forvarnarstarf er það sem skilar mestum árangri í þessari baráttu.