Þjónusta Ríkisútvarpsins á Vesturlandi
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Sem meðflutningsmaður að þessari till. þykir mér rétt að taka undir þann málflutning sem hv. 1. flm. viðhafði hér um leið og ég þakka honum fyrir að taka þetta mál upp á þingi enda um þarft mál að ræða. Í sjálfu sér hef ég litlu við hans orð að bæta. En það má kannski aðeins hnykkja betur á þessu. Við þingmenn Vesturl. vorum til að mynda á fundi með bæjarstjórn Akraness fyrir nokkrum dögum. Þar kom fram mikill stuðningur við þessa till. og þingmenn kjördæmisins voru mjög hvattir til þess að beita sér fyrir framgangi hennar og fá hana samþykkta. Ég tel að þessi mikli stuðningur við till. sé víðar í kjördæminu enda mikið réttlætismál að Vesturland sitji við sama borð og ýmsir aðrir landshlutar sem hafa þessa þjónustu í dag. Ég tel það reyndar alveg skilyrðislaust að rödd þessa landshluta eigi að heyrast eins og annarra.
    Því er ekki að neita að fréttir af Vesturlandi hafa verið með ákveðið neikvæðan stimpil yfir sér að undanförnu, sérstaklega frá svæðum eins og Akranesi. Menn hafa ekki alveg nógu vel getað borið hönd fyrir höfuð sér. Með tilkomu og samþykkt slíkrar till. mundi þetta lagast mikið og menn gætu tekið hin ýmsu málefni er varða kjördæmið og landshlutann og gert því betur skil og komið því betur út til þjóðarinnar hvað er í rauninni á döfinni.
    En ég ætla ekki að fara að gagnrýna Ríkisútvarpið. Ég tel að það hafi í sjálfu sér staðið sig ágætlega en betur má ef duga skal. Og m.a. þess vegna er þessi till. fram komin. Ég kom hér fyrst og fremst upp til að ítreka það að að sjálfsögðu styð ég þetta mál, enda meðflutningsmaður að því, og vona að þingheimur sýni því meiri áhuga en fram kemur í mætingu hér í þingsal, þar sem aðeins sitja tveir þingmenn aðrir en sá sem hér talar og eru báðir þingmenn Vesturlands.