Þjónusta Ríkisútvarpsins á Vesturlandi
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Eiður Guðnason :
    Virðulegi forseti. Ég er sannfærður um að þótt hér sé fátt í þingsalnum, auk forseta er hér aðeins helmingur flm. þessarar ágætu till., þá endurspegli það ekki sérstaklega áhugaleysi þingheims á því máli sem hér er um að ræða.
    Sem einn af flm. málsins þakka ég hv. 1. flm. fyrir að taka þetta mál upp með þessum hætti og vona svo sannarlega að það fái greiðan gang í gegnum þingið. Það sem hér um ræðir er fyrst og fremst að fá staðfestan vilja þingsins og viljayfirlýsingu um að lýsa því yfir að auka beri þjónustu Ríkisútvarpsins á Vesturlandi. En það er svo að sjálfsögðu ákvörðun réttra yfirvalda í Ríkisútvarpinu, útvarpsstjóra og útvarpsráðs geri ég ráð fyrir, að hrinda þessu í framkvæmd.
    Ríkisútvarpið hefur mjög aukið þjónustu við landsbyggðina á undanförnum árum þannig að eftir hefur verið tekið og til mikilla bóta hefur verið. Þar sem starfsemi svæðisútvarps hefur hafist hygg ég að það hafi notið ómældra vinsælda hjá heimamönnum enda er það bæði þörf og nauðsynleg þjónusta. En ekki sitja allir landshlutar við sama borð í þessum efnum eins og fram hefur komið í ræðum þeirra tveggja hv. þingmanna sem hér hafa þegar talað og hlutur Vesturlands hefur þar nokkuð orðið eftir. Þess vegna er brýnt að breyta þessu og auka jafnræði landshlutanna með því að koma á fót svæðisútvarpi fyrir Vesturland og ráða fréttamann sem starfaði sérstaklega á því svæði með fréttariturum útvarps og sjónvarps, eins og raunar segir í sjálfri tillgr.
    Ég kynntist því allvel þau 11 ár sem ég starfaði við fréttamennsku á vegum Ríkisútvarpsins hve miklu það skiptir að hafa fréttaritara sem geta sinnt því starfi og eru vakandi, hafa opin augu og eyru fyrir því sem er fréttnæmt. Þetta var auðvitað eins misjafnt og menn voru margir. Áreiðanlega tóku hlustendur og áhorfendur sjónvarps vel eftir því að sumir staðir voru mun oftar í fréttum en aðrir. Það var eingöngu vegna þess að þar voru duglegir og vakandi menn sem höfðu auga með því sem var fréttnæmt, höfðu það sem einu sinni var kallað fréttanef, og komu því á framfæri. Ég held að þetta hafi haft mikil og jákvæð áhrif fyrir þá staði sem voru svo heppnir að slíkir menn bjuggu þar.
    Hitt er svo rétt, sem fram kom í ræðu 1. flm., að þróunin hefur breyst og fréttamatið hefur breyst. Ég hygg að ef skoðaðar væru landsbyggðarfréttir á árunum 1966 og nokkuð langt fram eftir kæmi í ljós að þorri þeirra frétta var það sem ég mundi kalla jákvæðar fréttir. Nú skal því alls ekki haldið fram að þegja beri yfir hinu neikvæða, alls ekki. Það er auðvitað frásagnarvert líka, en það má ekki verða þannig að menn leggi svo mikla áherslu á það sem neikvætt er að allt hið jákvæða gleymist. Stundum hefur mér fundist að sú væri raunin. Það er frétt þegar framkvæmdum lýkur eða verið er að vinna við framkvæmdir til hagsbóta fyrir íbúana á staðnum eða svæðinu. Og satt besta að segja, ef menn eru vakandi og hafa opin augun, þá eru fréttir býsna víða. Kannski ekki í hinum neikvæða skilningi heldur jákvæðar fréttir. Það hættulega er að menn hugsi um of sem svo: ja, þetta er engin frétt. Hvaða frétt er það þó verið sé að taka í notkun þetta eða hitt? Það er engin frétt, það er búið að segja frá þessu áður. En það er frétt og getur verið góð frétt. Og það er miður að þessi þróun skuli hafa átt sér stað, þessi breyting, leyfi ég mér að segja, á fréttamati. En því breytum við ekki með þáltill. þó hún geti auðvitað verið spor í þá átt. Það er fyrst og fremst hugsunarháttur þeirra sem stýra fréttastreyminu, sem velja og hafna fréttum. Það er hluti af starfi fréttamanns og það er fyrst og fremst hugsunarháttur hjá þeim sem ég held að þurfi að breytast. Það á líka að leggja áherslu á hið jákvæða.
    Ég held að Ríkisútvarpið hafi staðið sig allvel á þessu sviði. En hér á það við að betur má ef duga skal og sú aukna þjónusta Ríkisútvarpsins á Vesturlandi sem þessi till. gerir ráð fyrir og stefnir að er ekki bara hagsmunamál Vestlendinga einna. Hún á að vera metnaðarmál fyrir Ríkisútvarpið, útvarp allra landsmanna, sem umfram aðra
ljósvakamiðla gerir sér réttilega far um að þjóna öllu landinu og sinna öllu landsins fólki. Það er meginatriði og ég vona og trúi því að þessi till. verði ekki bara samþykkt hér á hinu háa Alþingi heldur muni hún mæta velvild og skilningi hjá yfirmönnum Ríkisútvarpsins og þessari breytingu verði hrint í framkvæmd og það fyrr en síðar.