Skráningarkerfi bifreiða
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka flm. þessarar tillögu fyrir málflutning hans og það að hafa flutt þessa till. á hv. Alþingi. Ég tek undir efni hennar að meginhluta til og tel að hér sé verið að laga mikið til og bæta þá ákvörðun sem þingið tók þegar skráningarkerfi bifreiða var breytt.
    Ég tók þátt í umræðu í nefnd um það mál og líka í umræðu í hv. Ed. og lagðist þar gegn þeirri breytingu sem þar var lögð til og síðan var samþykkt. Ég taldi að þeir kostir sem upp voru taldir í sambandi við nýja skráningarkerfið mundu ekki vega upp á móti mörgum góðum kostum sem fylgdu gamla kerfinu og við gætum haft skráningarkerfi líkt og það sem við búum við núna sem opinbert kerfi á bifreiðum, haft það svona sem leyndarkerfi, bak við gamla kerfið eins og reyndar var búið að gera í mörg ár. En þó að við værum nokkrir hér hv. þm. sem andæfðum gegn þessari breytingu þá varð það úr að þingið samþykkti breytinguna og við erum að sjá fleiri og fleiri bíla með hinni nýju merkingu. Mér finnst að í æ ríkara mæli finnist fyrir göllunum, sérstaklega þegar maður kemur út á landsbyggðarvegina og hefur áhuga fyrir því að vita hver er að nálgast og mæta manni, en þá er þetta bara eitt ruglingslegt númer sem gefur engar upplýsingar um hver er á ferðinni.
    Sú till. sem hér er lögð fram held ég að mundi laga þennan galla æði mikið. Ég tel þó að það væri ekki rétt að hafa það í því formi sem hv. þm. leggur til, að bifreið sem væri merkt á Akureyri væri merkt ABC-123. Ég tel að héraðsnúmerið þyrfti að vera betur aðgreint, fyrsti stafurinn væri stakur og síðan gæti upplýsing um skoðunartíma eða þess háttar verið þar á milli þannig að það væri í þó nokkuð góðri fjarlægð hægt að greina héraðsnúmerið án þess að það rynni saman við þá bókstafi sem væru aðalnúmer bifreiðarinnar. En þetta er aukaatriði, tillagan er að mínu mati góð og þörf.
    En fyrst ég er farinn að ræða um þessa breytingu og þá breytingu sem gerð var á bifreiðaskoðunarlögunum vil ég aðeins nefna það að þegar verið var að færa rök fyrir því að breyta þessu kerfi þá var það ekki aðallega númerabreytingin sem lá á bak við, heldur það að kostnaður við skoðunina mundi minnka, það yrði mjög ódýrt fyrir bifreiðareigandann að fá skoðað og því yrði hætt að ríkið notaði þetta sem skattaleið. Eftir því sem ég kemst næst og eftir þeim umræðum sem hafa átt sér stað í þjóðfélaginu um kostnað hefur þarna farið á nokkuð annað veg. Er það miður vegna þess að þetta var aðalatriðið í sambandi við þá breytingu sem gerð var. Númerabreytingin var aukaatriði. Fyrst og fremst var verið að stefna að því að minnka kostnaðinn við skráningu og skoðun bifreiða og gera hana einfaldari. Jafnframt var þá rætt um það að aðstaða til bifreiðaskoðunar sem við bjuggum við þá væri ekki boðleg og þar þyrftu að verða breytingar á. Ekki get ég borið á móti því að ég gerði mér ekki alveg grein fyrir því hvað var verið að tala um í sambandi við hinar nýju skoðunarstöðvar sem

áttu að byggjast upp, fyrst hér í Reykjavík og síðan ein í hverju kjördæmi. En nú þarf maður ekki lengur að efast um það hvað um var verið að tala og upp á hvað var verið að bjóða, það er hin glæsilega og vel búna skoðunarstöð sem hér er uppi við Hestháls. Ég tel að hver sá sem þangað hefur komið og notið þjónustu skoðunarmanna þar hafi varla getað verið annað en mjög ánægður með þá þjónustu sem þar er boðin fram og þá tækni sem notast er við við skoðunina. Ég tel að þar hafi verið farið inn á góðan vettvang og sá þáttur þessa máls, gagnvart Reykvíkingum og þeim sem á auðveldan máta geta notað skoðunina hér, þar hafi verið staðið vel við þau fyrirheit sem gefin voru. Hinn þátturinn, kostnaðurinn, virðist því miður hafa farið á þann veg að kostnaður bifreiðaeigenda er ekki minni en áður var, jafnvel heldur meiri.
    Þessi tillaga fjallar fyrst og fremst um númerin og skráningarkerfið. Ég ítreka stuðning minn við þessa tillögu og vil auk þess benda á að sú tilraun til merkingar á heimabyggð viðkomandi bíleiganda sem bifreiðaskoðunin býður upp á, þ.e. að merkja með skjaldarmerki eða sýslumerki viðkomandi byggða, finnst mér vera allt að því mistök vegna þess að enginn greinir það í umferð úti á vegum hvort þarna er merki frá Siglufirði, Akureyri eða Snæfellsnesi. Menn verða helst að vera í kyrrstöðu og geta horft á þá merkingu til þess að gera sér grein fyrir því hver hún er. Og ekki aðeins það, heldur er gamla kerfinu, þ.e. sýslukerfinu, líka breytt. Þannig er það t.d. hjá okkur á Snæfellsnesi að okkur er boðið upp á Snæfellsmerki, sem mun vera Þórshamarinn, svo er félögum mínum fyrir innan Ólafsvíkurenni boðið upp á merki Ólafsvíkurbæjar, Stykkishólmi er boðið upp á merki Stykkishólmsbæjar, þannig að úr þessu verður dálítið mikill héraðaruglingur og að mínu mati kemur þessi merking að mjög litlu gagni.
    Sú tillaga sem hér liggur fyrir mundi greinilega merkja bifreiðarnar út frá afmörkuðum svæðum, þ.e. gömlu umdæmunum, og ég held að það sé einmitt það sem flestir sem vilja þarna á breytingu séu fyrst og fremst að leita eftir, ekki að það eigi að skipta landinu niður í enn þá fleiri svæði en áður var.
    Ég endurtek þakklæti mitt fyrir forgöngu flm. fyrir þessu máli og vænti þess að þetta mál verði afgreitt hér á þinginu og á þann veg að við fáum jafnvel á næsta ári gömlu merkinguna aftur að hluta.