Skráningarkerfi bifreiða
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Flm. (Jón Sæmundur Sigurjónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég heyri að þingmenn eru enn að biðja um orðið. Ég hélt að fleiri mundu ekki taka þátt í þessari umræðu en engu að síður vil ég nota tækifærið núna að þakka þær undirtektir sem fram hafa komið við mál mitt.
    Það kom fram hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni að honum þætti málið ekki stórvægilegt. Ég tek undir það. Þetta er auðvitað ekki stórvægilegt mál. Eins og hv. þm. sagði hefur þessi breyting á númerakerfinu valdið talsverðu róti, sértaklega úti á landsbyggðinni. Það var einmitt það sem ég tók fram í byrjun minnar greinargerðar með þessu máli að þetta væri e.t.v. fyrst og fremst tilfinningamál, þó svo það mætti sjá á því ýmsar þarfar hliðar.
    Það kom fram sú hugmynd hjá hv. þm. Skúla Alexanderssyni að réttara væri e.t.v. að aðgreina svæðisnúmerið frá hinu lögbundna skráningarnúmeri eins og við höfum það í dag þannig að það sé greinilega fjarlægt frá hinum bókstöfunum og kannski þankastrik í milli líkt og gerist með þýsku bifreiðanúmerin. En þá væri íslenska númerið orðið nærri nákvæmlega eins og það þýska. Ég veit ekki hvort það er endilega mjög gott. Það hjálpaði e.t.v. þingmanninum úti á vegunum að sjá hvaðan bifreiðin kemur. Auðvitað er rétt athugasemdin hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni að það á að hafa augun við veginn en engu að síður er oftast hægt að greina vel hvaðan bifreiðar þær koma sem eru að mæta manni úti á vegum ef númerið er auðkennilegt. Og auðvitað er það sá kostur fyrst og fremst sem við viljum hafa á númerunum að við sjáum hverjir eru á ferð einmitt úti á vegunum.
    Nokkuð var vikið að öðru máli sem er að vísu skylt en ekki beinlínis innifalið í þessari þáltill., þ.e. hugleiðingar varðandi skoðunarkerfið. Ég get tekið algerlega undir það sem hv. samþingsmenn mínir hér á undan sögðu um það kerfi. Það er til mikilla bóta. Það fer ekki hjá því að þegar komið er upp fullkominni skoðunaraðstöðu eins og gerist sérstaklega hér í höfuðborginni að kostnaður verði meiri. Allur sá stofnkostnaður sem þurfti að leggja í hefur auðvitað þurft að finna sér stað einhvers staðar og hann skilar sér ekki nema með gjöldum þeirra sem nota þá þjónustu.
    Það er einnig rétt eins og kom fram hjá báðum hv. þm. að þó svo að þessi þjónusta hafi batnað til muna úti á landsbyggðinni einnig þarf mikið að gera til þess að hún sé jafngóð og sú sem fer fram hér í höfuðborginni. Ég geri ekki ráð fyrir því að komið verði upp jafnfullkomnum stöðvum úti um héruð landsins en ég held að það megi gera mikið, mjög mikið til að bæta þá þjónustu sem höfð er uppi í dag á þeim vettvangi.
    Mig langar til víkja aðeins að þeirri hugmynd sem hv. þm. Skúli Alexandersson kom inn á varðandi skjaldarmerkið og sýslumerkið. Ég sé ekki eftir þeim í því sæti sem þau eru núna, enda geri ég tillögu um að annað fyrirkomulag komi þar til. Hins vegar, úr

því að Skúli minntist aðeins á kerfi sem er mjög svipað þýska kerfinu, þ.e. að aðgreina staðarnúmerið, þá hafa Þjóðverjar skjaldarmerkið á sínum bílnúmerum áfram en það er á milli bókstafanna og tölustafanna. Þar er núna skoðunarmerkinu komið fyrir hjá okkur. Ég sé enga ástæðu til þess að flytja skoðunarmerkið úr glugganum eins og það hefur verið um áraraðir. Ef við viljum endilega halda í þessi skjaldar- eða sýslumerki okkar mætti svo sem finna þeim stað milli bókstafa og tölustafa. En þetta er nú kannski mál fyrir nefndina til að athuga þegar þar að kemur.
    Ég vil eindregið taka undir hugmyndir beggja hv. þm. um, eins og ég sagði líka í minni greinargerð, að það væri gott að allir hefðu þann kost gegn eitthvað hærra gjaldi að geta valið sér sitt eigið númer ef tölvan hjá Bifreiðaskoðun leyfir það en auðvitað er það algerlega ófært ástand, ef rétt er, að sumir fái að velja sér númer en aðrir ekki. Sérstaklega ef þar er um að ræða einhverja fáa útvalda sem fá slíka kosti meðan fjöldinn er útilokaður, þá nær það auðvitað ekki nokkurri átt. En það væri skemmtileg tilbreyting, ef hægt væri að koma því á, að menn ættu þess kost að velja sitt eigið númer ef tölvan leyfir það.