Ferðamálastefna
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um ferðamálastefnu á þskj. 177, 164. mál. Tillaga þessi var lögð fram á 112. löggjafarþingi hér á sl. vori til kynningar og er hér endurflutt með smávægilegum breytingum. Hv. atvmn. Alþingis fékk tillöguna til meðferðar sl. vor og sendi hana út til umsagnar fjölmargra aðila.
    Með umfjöllun Alþingis og samþykkt á ferðamálastefnu er að því stefnt að skýra viðhorf þingsins til ferðaþjónustu sem atvinnugreinar. Í tillögunni eru sett fram nokkur samfélagsleg markmið er varða atvinnugreinina og bent á margar leiðir sem fara þarf til að ná þessum markmiðum.
Í grg. og fylgiskjölum eru síðan settar fram nánari skýringar á einstökum liðum tillögunnar og upplýsingar um stöðu og þróun ferðaþjónustu hér á landi og þróunarhorfur. Stefnumótun í ferðamálum á bæði að vera opinberum aðilum og þeim sem starfa við ferðaþjónustu að gagni. Stefnuna þarf svo að endurskoða með reglubundnum hætti í ljósi fenginnar reynslu.
    Þáltill. um ferðamálastefnu sem hér er flutt er samin af nefnd sem samgrh. skipaði þann 1. júní 1989 og voru verkefni nefndarinnar tilgreind þannig í skipunarbréfi: Að fjalla um ferðamál á breiðum grundvelli og stefnumörkun í þeim. Felur nefndarstarfið m.a. í sér eftirfarandi þætti:
    1. Könnun á samkeppnisstöðu og rekstrarskilyrðum ferðaþjónustu hér á landi í samanburði við nágrannalöndin.
    2. Endurskoðun á opinberri stefnu í ferðamálum og tillögur um æskilega þróun þeirra mála.
    3. Endurskoðun laga um ferðamál.
    Í ferðamálanefndina voru skipuð: Hjörleifur Guttormsson alþingismaður, formaður, Árni Þór Sigurðsson, deildarstjóri í samgrn., Áslaug Alfreðsdóttir, hótelstjóri á Ísafirði, Birgir Þorgilsson ferðamálastjóri, Bjarni Sigtryggsson ferðamálafræðingur, Friðjón Þórðarson alþingismaður, Kristín Einarsdóttir alþingismaður, Reynir Adolfsson framkvæmdastjóri, Akureyri, og Unnur Stefánsdóttir verkefnisstjóri. Nefndinni var ekki afmarkaður starfstími en hún ákvað í samráði við ráðuneytið að skipta verkefni sínu í áfanga og ljúka störfum haustið 1990.
    Nefndin hefur enn fremur samið frv. til laga um ferðaþjónustu sem ég bind vonir við að lagt verði fyrir hið háa Alþingi á þessu haustþingi, en það frv. er nú til skoðunar hjá þingflokkum ríkisstjórnarinnar.
    Ég leyfi mér þá að fara nokkrum orðum um helstu markmið ferðamálastefnunnar. Skilningi stjórnvalda og annarra á þjóðhagslegu gildi ferðaþjónustu og þeim vaxtarmöguleikum sem hún býr yfir, ef rétt er á málum haldið, hefur í mörgu verið ábótavant. Málefni ferðaþjónustu verðskulda ekki síður athygli en hefðbundnar greinar eins og sjávarútvegur og landbúnaður. Sérstaklega þarf að taka tillit til þess við stjórnvaldsaðgerðir að hér er um útflutningsatvinnugrein að ræða sem ekki má mismuna með tilliti til samkeppnisstöðu og líta ber á í sambandi við meðferð efnahagsmála, þar með talið varðandi gengisákvarðanir. Ferðaþjónusta sem atvinnugrein á fyrst og fremst að standa á eigin fótum án opinberrar íhlutunar um málefni einstakra fyrirtækja. Tímabundinn stuðningur af hálfu ríkis eða sveitarfélaga getur þó verið nauðsynlegur og jákvæður, m.a. vegna aðstæðna í dreifbýli og við að koma fyrirtækjum á legg. Þá er óhjákvæmilegt að Ferðamálaráð leggi í samvinnu við sveitarfélög og aðra aðila fram fjármagn til að koma upp aðstöðu á ýmsum ferðamannastöðum utan þéttbýlis. Fjárhagslegur stuðningur af hálfu ríkisins þyrfti þó fyrst og fremst að beinast að sameiginlegri yfirstjórn, skipulagi, menntun og rannsókna- og þróunarstarfi í ferðamálum. Þennan fjárstuðning þarf að auka til muna frá því sem nú er, a.m.k. á meðan verið er að koma ferðaþjónustu á viðunandi grundvöll og bæta úr margháttaðri vanrækslu. Brýnt er að Ferðamálaráð og starfsemi sem því tengist fái á næstu árum óskertan þann markaða tekjustofn sem lög um skipulag ferðamála nú kveða á um eða hliðstætt framlag. Einnig þarf að fá fjármagn til uppbyggingar á öðrum sviðum sem tengjast ferðamálum, m.a. til fræðslumála.
    Ferðamennska hefur vaxið gífurlega síðustu áratugi og er að verða snar þáttur í lífi flestra. Aðstaða til ferðalaga og tilkostnaður við þau eru því hluti af lífskjörum almennings. Fyrir eyþjóð eins og Íslendinga skipta samgöngur til og frá landinu afar miklu máli. Á því sviði eiga sér stað umtalsverðar breytingar sem skipta ferðaþjónustuna verulegu máli. Flugsamgöngur eru þar efstar á blaði.
    Framboð á ferðum innan lands hefur ekki síður gildi, jafnt fyrir landsmenn sjálfa og útlendinga. Gott skipulag á samgöngum og samgöngubætur eru allra hagur og forsenda þess að sem flest byggðarlög geti átt hlut að ferðaþjónustu. Stefnt er að því að ferðaþjónustan hafi í heild jákvæð áhrif á viðskiptajöfnuð landsmanna. Uppbygging ferðaþjónustu innan lands getur á tvennan hátt haft bætandi áhrif á viðskiptajöfnuð Íslendinga við útlönd. Ferðir um eigið land draga úr gjaldeyrisnotkun og beina neyslunni þess í stað inn í innlent hagkerfi og útlendingar sem hingað koma færa þjóðinni gjaldeyristekjur. Svo framarlega sem ferðaþjónustan innan lands ofbýður hvorki náttúru né umhverfi og leiðir ekki til óarðbærra fjárfestinga er hún þarft verkefni til að stuðla að jöfnuði í viðskiptum okkar við önnur lönd. Ferðaþjónusta þarf að búa við hliðstæð kjör og aðrar samkeppnisgreinar, m.a. um skattlagningu. Lækkun kostnaðarliða í ferðaþjónustu bætir samkeppnisstöðuna og er líkleg til að hafa hagstæð áhrif á viðskiptajöfnuð landsmanna. Matvælaverð er enn tilfinnanlega hátt hérlendis og fyrir ferðaþjónustuna skiptir miklu máli að það lækki. Framboð í ferðaþjónustu þarf að miða við að laða hingað viðskipti. Það verður best gert með því að auka fjölbreytni í afurðum og afþreyingu er höfði til erlendra ferðamanna.
    Náttúra landsins er sú auðlind sem laðar útlendinga til Íslandsferða öðru fremur og sama gildir um skemmtiferðir Íslendinga innan lands. Verndun umhverfis er því undirstöðuatriði að því er varðar framtíð ferðaþjónustu á Íslandi. Mikilvægt er að við skipulag ferðamála og rekstur ferðaþjónustu sé verndun náttúru og umhverfis höfð að leiðarljósi. Hingað til hefur allt of mikið verið horft fram hjá þessum grundvallarþætti. Þetta varðar alla þætti umhverfis, loft, vatn og land. Allt er þetta í nokkurri hættu að spillast og við því þarf að bregðast með viðhlítandi aðgerðum. Sem dæmi má nefna að fjöldi ferðamannastaða er í niðurníðslu og umgengni er víða mjög ábótavant. Ferðamennskan á hér hlut að máli, en önnur umsvif og almennt ástand umhverfismála skiptir vitaskuld miklu í þessum efnum einnig.
    Ferðaþjónusta er margþætt atvinnugrein og tengist ýmissi annarri starfsemi. Hún er því vel fallin til að auka fjölbreytni í störfum og atvinnuframboði en á því er veruleg þörf, m.a. vegna samdráttar á öðrum sviðum atvinnulífs. Undanfarin ár hefur verið mikill vöxtur í ferðaþjónustu og ástæða er til að ætla að svo geti orðið áfram ef rétt er að málum staðið. Mikið vantar hins vegar á kjölfestu í greininni, m.a. að því er varðar menntun og þjálfun starfsfólks og námsframboð innan lands, svo og rannsókna - og þróunarstarf. Enn fremur ber að hafa hugfast að mikil árstíðabundin sveifla er í ferðaþjónustu hérlendis og endurspeglast hún í breytilegri eftirspurn eftir vinnuafli í greininni þar sem mikið er um hlutastörf og árstíðabundin verkefni. Þetta þarf hins vegar ekki endilega að falla illa að íslenskum vinnumarkaði.
    Ferðaþjónusta getur fallið vel að því yfirlýsta markmiði stjórnvalda í byggðamálum að viðhalda byggð sem víðast á landinu. Innlendir sem erlendir ferðamenn vilja öðru fremur kynnast náttúru landsins og lífsháttum fólks í byggðarlögunum. Því á að vera unnt að tryggja dreifingu ferðamanna á álagstímum og gera sem flestar byggðir með einhverjum hætti þátttakendur í ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan á að geta styrkt nauðsynlega þjónustu við heimafólk í byggðum en til þess þurfa heimamenn að eiga hlut að henni og grunnþjónusta að njóta hagnaðar af árstíðabundnum tekjum af viðskiptum við ferðafólk. Auknar ráðstöfunartekjur heimilanna og samningsbundið orlof hafa gert almenningi kleift að njóta útivistar, ferðalaga og orlofsdvalar. Mikilvægt er að tryggja öllum hópum þjóðfélagsins aðgang að slíkri aðstöðu, einnig þeim sem vegna fötlunar sinnar eða sjúkdóma, bágs fjárhags, félagslegrar einangrunar eða skorts á þeim réttindum sem samtök launafólks veita geta ekki notið orlofs síns með sama hætti og aðrir. Sérstaklega þarf að huga að málefnum hreyfihamlaðra og fatlaðra í þessu sambandi, bæði varðandi byggingar, farartæki, útivistarsvæði, vegi og brautir. Sjá verður fyrir þörfum þessara hópa þegar settar eru reglugerðir, við skipulag og ekki síst byggingu mannvirkja og útbúnað tækja.
    Svipuðu máli gegnir um aldraða, að taka þarf sérstakt tillit til þeirra við uppbyggingu ferðaþjónustu. Öldruðu fólki fer fjölgandi meðal ferðamanna og líkur eru á að sú þróun haldi áfram. Hér er því um umtalsverðan hluta af markaði ferðaþjónustunnar að ræða sem á eðlilega kröfu á þjónustu miðað við sínar aðstæður.
    Miklar breytingar eiga sér nú stað í Evrópu og geta þær haft margvísleg áhrif hér á landi, m.a. á ferðaþjónustu. Þar er einkum um að ræða tilkomu sameiginlegs innri markaðar í Evrópubandalaginu og þær miklu breytingar sem ganga yfir í Austur - Evrópu. Sameiginlegur markaður Evrópubandalagsins felur m.a. í sér að afnumin verða landamæri og hindranir fyrir vörur, fjármagn, þjónustu, einstaklinga og fyrirtæki milli þeirra 12 ríkja sem mynda Evrópubandalagið. Samkeppni mun fara harðnandi innan bandalagsins með tilkomu innri markaðar, svo og við önnur lönd og svæði.
    Hæstv. forseti. Möguleikar Íslands sem ferðamannalands eru margvíslegir. Ferðamennska í heiminum hefur breyst allnokkuð á síðustu árum. Ósnortin víðerni, saga og menning, heilbrigði og manngildi eru þættir sem eru orðnir eftirsóknarverðir og er ljóst að Ísland á ekki síður möguleika í þessu efni en önnur lönd. Fundir og ráðstefnur og verðlaunaferðir fara einnig í vöxt og er þá gjarnan verið að leita að einhverju framandi og ævintýralegu. Einnig á þessu sviði hefur Ísland aðdráttarafl. Þróun ferðaþjónustu er hins vegar þolinmæðisverk og til að nýta vaxtarmöguleika hennar þarf skilning af hálfu stjórnvalda og góð starfsskilyrði. Ferðaþjónustan er atvinnugrein í örum vexti. Gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum nema nú um 10% af útfluttri vöru og þjónustu og verða þannig ríflega 10 milljarðar íslenskra króna á þessu ári. Störfum í ferðaþjónustu fer enn fremur jafnt og þétt fjölgandi en erfitt er að gera sér nákvæma grein fyrir fjölda starfsmanna í ferðaþjónustu þar sem mörg störf eru aðeins að hluta tengd ferðaþjónustunni í gegnum aðrar atvinnugreinar. Þó er varla ofáætlað að um 5% af mannafla sinni ferðaþjónustu og fer þetta hlutfall hækkandi. Það er því ekki seinna vænna að mótuð sé opinber stefna í ferðamálum, atvinnugreinin skilgreind sem og verkaskipting ríkis og einkaaðila. Þáltill. sem hér liggur fyrir er einmitt ætlað að bæta úr í þessu efni.
    Ég hef nú, virðulegi forseti, í stuttu máli gert grein fyrir helstu markmiðum með mótun opinberrar stefnu í ferðamálum. Um einstakar leiðir til að ná þessum markmiðum vísa ég til tillögunnar og ítarlegrar grg. með henni.
    Ég vil að lokum færa nefndinni, sem að þessu starfi hefur verið undanfarna mánuði og missiri, þakkir mínar fyrir vel unnin og mikil störf. Ég vænti þess að hv. alþm., sem og öðrum þeim sem áhuga hafa á málefnum ferðaþjónustunnar, þyki nokkur fengur í því starfi sem þar hefur verið unnið, þyki gagnlegar þær upplýsingar sem dregnar hafa verið saman og birtar eru m.a. hér í ítarlegri grg. og í fskj. með tillögunni. Þá munu enn fremur ýmsar upplýsingar og gögn sem þessu máli tengjast væntanlega fylgja frv. til laga um skipan ferðamála sem nú er til skoðunar hjá þingflokkum eins og áður sagði.
    Ég bind miklar vonir við það að þetta starf, bæði heilstæð stefnumörkun á sviði ferðaþjónustu með samþykkt Alþingis, ef svo vill verða, um ferðamálastefnu

sem og heildarendurskoðun löggjafar á þessu sviði verði ferðaþjónustu í landinu til framdráttar sem vaxandi atvinnugreinar og megi vonandi skapa henni þann sess meðal annarra atvinnugreina þjóðarinnar sem hún verðskuldar og á skilið. Það væri að mínu mati mikil skammsýni íslenskra stjórnvalda um þessar mundir þegar þannig háttar til að víða eru erfiðleikar og jafnvel samdráttur í okkar stærstu og hefðbundnu greinum atvinnulífs að horfa ekki á og nýta þá miklu möguleika sem ferðaþjónustan sannanlega og óumdeilanlega býr yfir. Það að þessi grein skuli ár frá ári hafa vaxið og fært aukin verðmæti inn í okkar þjóðarbú þrátt fyrir það sem ég held að verði ekki hægt að kalla annað en takmarkaðan skilning ráðamanna á högum greinarinnar sýnir okkur betur en flest annað hvaða möguleikar þarna liggja.
    Árið sem nú er að líða verður og er reyndar nú þegar orðið metár í komu erlendra ferðamanna hingað til landsins. Það verður væntanlega sömuleiðis metár hvað snertir tekjur íslenska þjóðarbúsins af ferðaþjónustu og allt ætti þetta að verða okkur hvatning til þess að taka á málefnum þessarar greinar með myndugum hætti.
    Ég vænti þess að hv. Alþingi taki þess vegna vel þessari tillögu og þessari stefnumörkun. Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að lokinni þessari umræðu að leggja til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og hv. atvmn.